Hrósað af tveimur forsetum fyrir góðan húmor

Sigurgeir er alsæll með forsetabréfin.
Sigurgeir er alsæll með forsetabréfin. Ljósmynd/Aðsend

Það eru ekki margir sem geta státað sig af því að eiga tvö forsetabréf. Það getur hins vegar Vestmanneyingurinn Sigurgeir Jónsson en hann á uppáskrifuð bréf frá Guðna Th. Jóhannessyni, fráfarandi forseta Íslands, og Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Í báðum bréfum er Sigurgeiri sérstaklega hrósað fyrir létta lund, hressileika og jákvætt hugarfar. 

Blaðamaður mbl.is sló á þráðinn til Sigurgeirs og heyrði aðeins í honum hljóðið. 

Aðspurður segist Sigurgeir vera mikill húmoristi. „Já, ég hef nú fengið orð fyrir það. Ég kýs alltaf að líta á léttu hliðarnar á málunum og hef verið mikill brandarakarl í gegnum tíðina. Það gerir lífið skemmtilegra,“ útskýrir hann. 

Fékk Vigdísi til að skella upp úr

Guðni forseti heimsótti Sigurgeir og eiginkonu hans, Katrínu Magnúsdóttir, að afloknu Lundahlaupi þann 4. maí síðastliðinn, ásamt ungri dóttur sinni og vinkonu hennar. Ástæða heimsóknarinnar var sú að Guðna langaði til að sjá rúmlega 40 ára gamalt bréf sem Vigdís, þáverandi forseti, sendi Sigurgeiri til að hrósa honum fyrir skrif hans í Helgarpóstinn. 

„Fyrsta forsetabréfið fékk ég afhent fyrir 42 árum síðan. Það var árið 1982 þegar Vigdís var nýtekin við embætti forseta Íslands. Á þeim tíma starfaði ég sem pistlahöfundur á Helgarpóstinum og skrifaði þar vikulega pistla, oft gamansama. 

Forsetabréfin prýða veggi heimilis Sigurgeirs.
Forsetabréfin prýða veggi heimilis Sigurgeirs. Ljósmynd/Aðsend

Eitt af því sem ég skrifaði um var þegar Mauno Koivisto, fyrrverandi Finnlandsforseti, kom hingað í heimsókn og heimtaði að fara austur í sveitir og skoða íslensk bændabýli. Koivisto og Vigdís héldu austur að Brúnastöðum, en þar bjó faðir Guðna Ágústssonar, Ágúst Þorvaldsson, jafnan kallaður Ágúst á Brúnastöðum.

Koivisto vildi ólmur skoða fjárhúsin og kynna sér alla þætti sveitalífsins og Vigdís sýndi því sama áhuga. Þessi heimsókn varð til þess að ég skrifaði skemmtilegan pistil um Vigdísi þar sem ég sagði meðal annars að hún væri líkleg til að setjast undir eina kúnna og fara að mjólka. Svo var eitthvað fleira fyndið sem ég skrifaði,“ segir Sigurgeir. 

„Ég fékk tveggja blaðsíðna bréf frá Vigdísi í kjölfarið þar sem hún lýsti ánægju sinni með skrifin en hún sagði meðal annars að hún hefði margoft skellt upp úr við lesturinn. Vigdís endaði bréfið á því að segja hvað ég væri skemmtilegur penni. Mér þykir vænt um þessi orð.“

„Sagðist geta vottað það að ég væri virkilega skemmtilegur“

Guðni og Sigurgeir áttu indælisstund saman yfir uppáhelltu kaffi og pönnukökum. „Við ræddum ýmislegt en minntumst ekki á komandi forsetakosningar. Guðni var hinn skemmtilegasti og sagðist geta vottað það að ég væri virkilega skemmtilegur maður.

Sigurgeir er orðamaður mikill og kýs að líta alltaf á …
Sigurgeir er orðamaður mikill og kýs að líta alltaf á björtu hliðarnar á lífinu. Ljósmynd/Aðsend

Ég sagði honum bara eins og er, að ég væri búinn að vera afar sáttur með hann í forsetastólnum síðustu ár. Ég sagði honum einnig frá einu sem ég mun klárlega sakna en það er að Guðni hefur undanfarin ár alltaf látið flagga í heila stöng á afmælisdaginn minn og er það vegna þess að við eigum sama afmælisdag,“ segir hann og hlær.

Sigurgeir leysti Guðna og stúlkurnar út með bókargjöfum. Guðni fékk bókina Vestmannaeyjar og stúlkurnar fengu sitthvort eintakið af Sagan af stráknum sem gat breytt sér í ljón, bjarndýr og snjótittling. Í staðinn afhenti Guðni honum forsetabréf þar sem hann þakkaði fyrir sig. Forsetabréfin tvö hanga nú hlið við hlið inni á skrifstofu Sigurgeirs þar sem hann situr reglulega við skriftir. 

Ný bók í vændum

Sigurgeir hefur skrifað nýja bók, sína fjórtándu, og er hún væntanleg í haust. „Bókin er samansafn af smásögum sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. Hún kemur til með að heita Fyrir afa - nokkrar smásögur, en titillinn kemur frá sonardóttur minni, sem sér um að myndskreyta bókina. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þér hafi tekist að leggja fyrir að undanförnu ættirðu ekki láta ginnast af gylliboðum um skjótfenginn gróða. Frestaðu því ekki til morguns sem þú getur klárað í dag.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riely og Lucinda Riley
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þér hafi tekist að leggja fyrir að undanförnu ættirðu ekki láta ginnast af gylliboðum um skjótfenginn gróða. Frestaðu því ekki til morguns sem þú getur klárað í dag.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riely og Lucinda Riley
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg