Miðbæjarmúsík


mbl.is
Kvikmyndin 101 Reykjavík vakti verðskuldaða athygli bíógesta á liðnu ári og óneitanlega vekur það nokkra furðu að tónlistin úr kvikmyndinni sé fyrst útgefin nú, vorið 2001. Hefðin er að geisladiskar sem innihalda tónlist úr kvikmyndum séu gefnir út á undan myndinni, eða í það minnsta í kringum frumsýningartíma.

Athyglisverðara við útgáfu þessa er þó hverjir höfundar tónlistar eru. Hinn Íslandselskandi Damon Albarn, forsprakki Blur, og rokkgoðsögnin Einar Örn Benediktsson, hafa verið þekktir fyrir flest annað en kvikmyndatónlist og í fyrstu virðast þeir fremur einkennilegt teymi, tónlistarlega séð. Damon syngur í dæmigerðri popphljómsveit en Einar hefur sjaldnast farið troðnar slóðir við tónlistarsköpun; kannski helst í Sykurmolunum sálugu. Þeir Einar og Damon eiga þó sameiginlegt ýmiskonar bransabrölt á Englandi og hafa löngum verið nafntogaðir í fjölmiðlum þar ytra.

101 Reykjavík er um margt einkennileg plata. Stefin einkennast mörg hver af forrituðu hryni og hljómborðslínum ýmiskonar, og í fyrstu hljómar sumt heldur klúðurslega. Naívismi er sennilega fallegra orð en barnaskapur, þrátt fyrir að merkingin sé hin sama, strangt til tekið. Þetta er þó það orð sem mér datt fyrst í hug eftir að hafa hlýtt á gripinn. Við sjöttu hlustun fór ég að kunna afar illa við hugtakið vegna þess hversu heillandi hljóðstefin raunverulega eru. Þau er vissulega einföld og auðmeltingin er slík að hún snýst upp í andhverfu sína. Stefin urðu mér tormelt því ég var lengi að samþykkja einfaldleikann. Það sem hljómaði í fyrstu fyrir mér á stundum sem barnalegt fikt með tónlistarforrit, er í raun heillandi tón- og hrynsköpun. Ég þurfti hreinlega að sitja og bíða/hlýða af mér fordómana!

30 tóndæmi prýða geislaplötuna og eru flest þeirra eftir þá Einar og Damon. Þeirra best þykir mér "Morning Beer"; gullfalleg píanóstemma, einkar þynnkulega leikin. Gus Gus eiga lagið "Reykjavík2k" og gamli Kinks-slagarinn, "Lola", hljómar í mismunandi útgáfum þeirra Einars og Damons. Heldur þykir mér nú "Lólan" þreytuleg og útfærslurnar á henni of margar.

Það sem er hvað skemmtilegast á 101 Reykjavík eru útfærslur ýmissa listamanna á tónlist Einars og Damons. Til að mynda eiga Mínus afbragðsvinnu á laginu "Bar Fight" og útfærsla Hilmars Arnar á "Suitcase" er stórkostleg. "Suitcase" og lagið þar á undan, "Shooting Gallery", eru reyndar nokkuð dæmigerð fyrir evrópska kvikmyndatónlist og sverja sig sumpart í ætt við það besta frá hinum mistæka, en um margt frábæra Eric Serra.

"Teapot", sem reyndar er útfærsla af "Lólu", er aftur víðsfjarri Serra og hreinlega klónað trommuhryn frá lagi Pink Floyd, "Learning To Fly". Sennilega ekki óalgeng tilviljun á þessum miklu forritunar- og hryntímum.

Ekki hef ég rými til að fara ofan í saumana á öllum tóndæmum plötunnar en flest þeirra eru fyrirtak og fátt stingur í eyru. Þegar ég sá kvikmyndina á sínum tíma, þá tók ég ekkert eftir tónlistinni og það veit yfirleitt á gott.

Orri Harðarson

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »