„Engin lögleg leið úr helvíti“

Á leið til lífs | 10. október 2019

„Engin lögleg leið úr helvíti“

„Þegar ég byrjaði að fara í SADA-miðstöðina var eiginmaðurinn ekkert of hrifinn af þessu brölti mínu og óttaðist að þetta „kvennastúss“ tæki tíma frá heimilinu og fjölskyldunni. Nú er það hann sem rekur mig af stað ef ég nenni ekki að mæta. Því hann finnur hvað SADA gerir mér gott. Ég er sjálfstæðari og öruggari með mig en ég hef nokkurn tíma verið.“

„Engin lögleg leið úr helvíti“

Á leið til lífs | 10. október 2019

AFP

„Þegar ég byrjaði að fara í SADA-miðstöðina var eiginmaðurinn ekkert of hrifinn af þessu brölti mínu og óttaðist að þetta „kvennastúss“ tæki tíma frá heimilinu og fjölskyldunni. Nú er það hann sem rekur mig af stað ef ég nenni ekki að mæta. Því hann finnur hvað SADA gerir mér gott. Ég er sjálfstæðari og öruggari með mig en ég hef nokkurn tíma verið.“

„Þegar ég byrjaði að fara í SADA-miðstöðina var eiginmaðurinn ekkert of hrifinn af þessu brölti mínu og óttaðist að þetta „kvennastúss“ tæki tíma frá heimilinu og fjölskyldunni. Nú er það hann sem rekur mig af stað ef ég nenni ekki að mæta. Því hann finnur hvað SADA gerir mér gott. Ég er sjálfstæðari og öruggari með mig en ég hef nokkurn tíma verið.“

Þetta er meðal þess sem kom fram í máli sýrlenskra kvenna þegar blaðamaður Morgunblaðsins og mbl.is var nýverið á slóðum flóttafólks í Gaziantep í Tyrklandi.

SADA-miðstöðin hefur breytt lífi þessara kvenna. Gert þær sjálfstæðari og kynnt þær fyrir öðrum konum sem deila svipaðri sorg og gleði. Þær eru konur framtíðarinnar í nýju landi.

SADA-miðstöðin er rekin af ASAM-hjálparsamtökunum með stuðningi frá UN Women, japönskum yfirvöldum, Alþjóðavinnumálastofnuninni, héraðsstjórninni í Gaziantep og fleiri aðilum, þar á meðal íslenskum stjórnvöldum. Strax í upphafi var áherslan lögð á stuðning við konur í viðkvæmri stöðu.

ASAM-samtökin voru stofnuð árið 1995 í Ankara sem sjálfstæð samtök sem hafa jafnrétti og mannúð að leiðarljósi í stuðningi sínum við flóttafólk og hælisleitendur í Tyrklandi. Samtökin eru stærstu sjálfstætt starfandi mannúðarsamtökin í Tyrklandi.

Khetam Alhamami og Hind Hammde kynntust í SADA-miðstöðinni en þær koma frá Aleppo og Homs í Sýrlandi. „Við komum hingað til Gaziantep því Tyrkland var eina landið sem tók virkilega vel á móti okkur og bauð okkur velkomin. Við tvær kynntumst hér í SADA-miðstöðinni yfir tebolla. Við fórum að ræða saman, hvað stríðið hefði gert okkur og hvað við gætum gert til þess að leysa vandamál sem við glímum allar við,“ segja þær og vísa þar til stofnunar hóps kvenna sem gengur undir nafninu Konur framtíðarinnar, (Syrian Women of the Future Committee).

Hind Hammde og Khetam Alhamami kynntust yfir tebolla í SADA-miðstöðinni …
Hind Hammde og Khetam Alhamami kynntust yfir tebolla í SADA-miðstöðinni en þær koma frá Homs og Aleppo í Sýrlandi. mbl.is/Gúna

„Við ræðum málefni kvenna og ekki síst flóttakvenna. Hvernig okkur gengur að koma okkur fyrir í tyrknesku samfélagi og reynum að styðja hver aðra. Meðal þess sem við höfum tekið fyrir eru fjármál og staða okkar sem kynverur. Við ræðum um börn okkar, vinnu þeirra, skólakerfið og hvernig hægt að er að koma í veg fyrir að börn séu gefin í hjónabönd,“ segir Hind. Þær segja að í upphafi hafi aðeins örfáar konur mætt á fundina en í dag hafa kvennafundirnir sprengt húsnæðið utan af sér.

Hind kom til Tyrklands fyrir þremur árum en flóttinn frá Homs var miklu lengri. „Við fórum frá Homs þar sem ástandið var óbærilegt þar. Stöðugar árásir sem héldu fyrir okkur vöku allar nætur og börnin voru svo skelfingu lostin að þau voru að missa vitið.“

„Ríkis íslams réð ríkjum þegar við vorum í Raqqa og við urðum að hylja okkur algjörlega og fara eftir öllu sem þeir sögðu. Þetta var ömurlegur tími og dóttir mín sem var sjö ára á þessum tíma varð einnig að hylja sig frá toppi til táar. Við urðum báðar að vera svartklæddar, alltaf. Mjög algengt var að vígamenn Ríkis íslams tækju dætur okkar og kvæntust þeim þrátt fyrir að þær væru á barnsaldri. Við foreldrarnir höfðum ekkert um þetta að segja,“ segir Hind þegar hún lýsir lífi Sýrlendinga á stríðstímum.

Að hennar sögn flúðu þau Homs ásamt fleirum úr fjölskyldu hennar og héldu þau hópinn allt þangað til þau komu til Idlib. „Þau eru lokuð þar inni enn þá. Eins og staðan er núna er ekki möguleiki fyrir þau að flýja,“ segir Hind.

Kortið sýnir leiðina sem Khetam Alhamami og Hind Hammde fóru …
Kortið sýnir leiðina sem Khetam Alhamami og Hind Hammde fóru á flóttanum. mbl.is/Kristinn Garðarsson

Líkt og fram hefur komið í fréttum er Idlib er í herkví stjórnarhersins sem situr um uppreisnarmennina sem stjórna héraðinu. Stöðugar árásir eru gerðar á héraðið og hefur stjórnarherinn, með stuðningi Rússa, drepið yfir eitt þúsund almenna borgara í Idlib síðustu fjóra mánuði. Heldur hefur dregið úr loftárásum frá því vopnahlé var samþykkt í lok ágúst en þess í stað hefur aukin áhersla verið lögð á landhernað.

Íbúar Idlib eru um þrjár milljónir talsins, þar af helmingur börn. Loftárásir stjórnarhersins og Rússa hafa meðal annars beinst að sjúkrahúsum, skólum, bakaríum og öðrum mikilvægum innviðum samfélagsins.

Hundruð þúsunda íbúa sofa undir berum himni í Idlib án aðgangs að rennandi vani og salernum. Margar konur velja frekar að ganga í allt að 20 mínútur í myrki til þess að létta á sér í skjóli í stað þess að nota sameiginlega kamra þar sem þær eru í hættu á kynferðislegu ofbeldi og áreitni.

Hind og eiginmaður hennar eiga þrjú börn en Khetam og eiginmaður hennar eiga fjórar dætur. Þær eru báðar atvinnulausar og eiginmenn þeirra líka. Þar sem þau eru öll komin yfir fertugt er mjög erfitt fyrir þau að fá vinnu. „Maðurinn minn er rafmagnsverkfræðingur en það er enga vinnu að fá fyrir hann vegna þess að við erum í öðru landi en okkar eigin og því er ekki hægt að byggja á fyrri sögu á vinnumarkaði,“ segir Khetam. Hann er líka kominn yfir fimmtugt og nánast útilokað fyrir fólk komið á miðjan aldur að fá vinnu.

Yfir 400 þúsund Sýrlendingar hafa hrakist á vergang undanfarna mánuði …
Yfir 400 þúsund Sýrlendingar hafa hrakist á vergang undanfarna mánuði vegna árásanna í Idlib-héraði. AFP

Khetam er eins og áður sagði frá Aleppo og þurfti eins og flestir borgarbúar að yfirgefa heimili sitt þegar barist var um borgina. Hún er menntuð á heilbrigðissviði og eftir að stríðið hófst starfaði hún sem sjálfboðaliði í læknamiðstöð. Á þessum tíma voru nánast allir læknar farnir frá borginni.

Þegar dóttir hennar var fimm ára missti hún hluta af annarri hendinni í árás stjórnarhersins. Khetam segir að þar sem enginn læknir var til staðar þurfti hún að búa um sárið sjálf. „Hún missti einn fingur og ég bjó um sárið og annaðist það. Mér tókst að bjarga hinum fjórum fingrunum en hún missti mikið blóð og lófinn er laskaður,“ segir Khetam.

Ástandið í Idlib er ólýsanlega skelfilegt.
Ástandið í Idlib er ólýsanlega skelfilegt. AFP

Khetam og fjölskylda var á vergangi víða í Aleppo og eftir að vopnahlé komst á fengu þau að yfirgefa borgina með rútum skömmu fyrir árslok 2016. Þaðan fóru þau til bæjarins Herbel í norðurhluta Aleppo-héraðs og svo í úthverfi Idlib-borgar. Að sögn Khetam fékk hún að fara ásamt dóttur sinni á sjúkrahús í Tyrklandi þar sem dóttir hennar komst í aðgerð. Eiginmaður hennar fékk ásamt öðrum dætrum þeirra að fara yfir landamærin hálfu ári síðar. „Þegar við komum hingað var ekkert hægt að gera frekar við lófann á henni og fingurinn. Okkur var tjáð að við yrðum að bíða eftir því að hún kæmist til erlends sérfræðings sem gæti gert betur. Að geta ekki aðstoðað dóttur mína nístir hjarta mitt,“ segir Khetam en hluti fjölskyldu hennar býr enn í Aleppo og aðrir í Idlib.

„Mamma mín er enn í Sýrlandi og ég hef ekki hitt hana í fjögur ár. Idlib er hryllingur og við getum ekki talað um ástandið þar því það er of skelfilegt til að það sé hægt. Við treystum okkur ekki til þess. Enginn möguleiki að komast úr því helvíti og mamma mín er orðin gömul og treystir sér ekki í erfitt og hættulegt ferðalag. Þeir íbúar Idlib sem vilja komast yfir landamærin til Tyrklands þurfa að greiða smyglurum háar fjárhæðir fyrir og það á enginn pening lengur. Allt fé er gengið til þurrðar. Það er engin lögleg leið út úr helvíti aðeins með aðstoð smyglara sem hagnast á hörmungum okkar Sýrlendinga.

Aleppo árið 2013.
Aleppo árið 2013. AFP

Ástandið er enn mjög slæmt í Aleppo og þrátt fyrir að búið sé að opna einhverja skóla eru þeir sárafáir og búa við þröngan kost. Heilbrigðisþjónusta er nánast engin og rafmagn af skornum skammti. Fólk sveltur ekki lengur í borginni líkt og var þegar umsátrið stóð yfir en enga vinnu er að fá í Idlib og Aleppo,“ segir Khetam.

Þær segja báðar að lífið sé erfitt þrátt fyrir að vera komnar frá Sýrlandi. Þær berjast í bökkum og fyrsta árið hafi verið erfiðast. Þegar þú ert á flótta ferðu yfirleitt án alls. Við áttum ekki neitt og það tók tíma að komast inn í kerfið, segja þær.

Besta við starfið er að sjá konurnar blómstra

Frá Aleppo.
Frá Aleppo. AFP

Seda Dolaner hefur stýrt SADA Center undanfarin tvö ár en áður starfaði hún hjá Flóttamannamiðstöð Sameinuðu þjóðanna. Seda segir að þegar henni bauðst þetta starf hafi hún ákveðið að breyta til. Hún sjái ekki eftir því enda sé unnið ótrúlegt starf innan miðstöðvarinnar. Þar skipti öllu máli hvað allt starfsfólkið er ákveðið í að gera allt sem í þess valdi stendur til þess að bæta líf þeirra kvenna sem þangað koma. „Eins áhugi og vilji þeirra sem reka miðstöðina. Þetta hefur allt áhrif. Ég lít ekki á þetta sem vinnu heldur er ég þarna af áhuga og það sama á við um fólkið sem starfar með mér. Allt frá upphafi hefur þetta verið svona. Hvergi annars staðar í Tyrklandi er konum boðin slík þjónusta. Það besta við starfið mitt er að sjá þessar konur blómstra. Eitthvað sem ekki er sjálfgefið en þegar konum eru gefin réttindi og vald geta þær allt,“ segir Seda. Alls starfa 32 hjá miðstöðinni, allt konur fyrir utan bílstjóra og hluta af öryggisgæslunni. Enda á SADA að vera griðastaður kvenna, segir Seda.

Liðsmenn björgunarsveitar Hvítu hjálmanna að störfum í Idlib-héraði eftir loftárás …
Liðsmenn björgunarsveitar Hvítu hjálmanna að störfum í Idlib-héraði eftir loftárás stjórnarhersins nýverið. AFP

Miðstöðin er opnuð klukkan 9 á morgnana og er opin til 17.30. Að sögn Sedu byrja konur yfirleitt að safnast saman fyrir utan á milli kl. 5 og 6 á morgnana til þess að komast að í fyrsta viðtal. Því myndast oft löng biðröð á fyrstu hæð miðstöðvarinnar og eru um 400 konur í þjónustu hjá SADA á sama tíma. Á námskeiðum og í viðtölum. Flestar þeirra eru ungar því námskeiðin byggjast á því að veita þeim stuðning við að komast út á vinnumarkaðinn.

„Vegna ástandsins á vinnumarkaði verðum við því miður að setja aldurshámark á þau námskeið. Aftur á móti geta allar konur komið til okkar í ókeypis ráðgjöf, bæði hjá sálfræðingum, félagsráðgjöfum og lögfræðingi og eins í tyrkneskunám,“ segir Seda.

Íris Björg Kristjánsdóttir og Sada Doloner hafa starfað saman í …
Íris Björg Kristjánsdóttir og Sada Doloner hafa starfað saman í tvö ár að uppbyggingu SADA-miðstöðvarinnar í Gaziantep. mbl.is/Gúna

Að hennar sögn er mjög algengt að konur lokist inni á heimilinu, ekki síst flóttakonur og þess vegna heimsæki starfsmenn SADA þær og kynni miðstöðina fyrir þeim og að hún sé öruggur staður fyrir þær. Þar hafa þær aðgang að sálgæslu og úrvinnslu úr áfallastreituröskun. „Þegar þær koma í fyrsta skipti er oft eins og þær séu að brjótast út úr búri. Þær hitta aðrar konur sem tala sama tungumál, eða líkt tungumál og þær, læra tyrknesku og eiga í samskiptum við tyrkneskar kynsystur sínar sem er gríðarlega mikilvægt til þess að tengja hópa saman. Það verður til samstaða og stuðningur sem þær kannski vissu ekki að væri til þar sem þær voru einar heima og töldu að þeirra vandi væri einstakur. Sem hann er alls ekki. Að hitta aðrar öflugar konur sem eru komnar í vinnu og reyna að hafa áhrif skiptir gríðarlega miklu máli. Þær hugsa með sér; bíddu, af hverju ekki ég? Þess vegna er svo stórkostlegt að sjá breytingarnar sem verða á konum,“ segir Seda.

SADA-miðstöðin var sett á laggirnar í Gaziantep árið 2017 en …
SADA-miðstöðin var sett á laggirnar í Gaziantep árið 2017 en þangað hafa komið þúsundir kvenna síðan þá. mbl.is/Gúna

Innan raða hópsins Konur framtíðarinnar er mikið rætt um barnahjónabönd. „Þarna eru konur að tala saman sem þekkja aðstæður hver annarrar, koma úr sama umhverfi og vita hvaða áhrif þetta hefur á framtíð ungra stúlkna. Ein úr þessum hópi kvenna kom til að mynda fyrst til okkar á námskeið og þar kom fram að hún ætti 16 ára gamla dóttur sem gengi í hjónaband fljótlega. Við ræddum þetta fram og til baka við hana. Hvaða hörmulegu afleiðingar þetta gæti haft á dóttur hennar, ekki bara andlega heldur einnig heilsufarslega. Hún hlustaði á okkur en sannfærðist ekki. Þá fengum við konur úr framtíðarhópnum til að sækja hana heim. Konur sem höfðu skilning á stöðu hennar en um leið höfðu þær sjálfar verið gefnar í hjónaband á barnsaldri. Eftir þessa heimsókn fór hún að koma á hverjum föstudegi á fundi hópsins hjá okkur og er núna orðin ein þeirra sem stýra starfi hópsins,“ segir Seda en vart þarf að taka fram að dóttir konunnar gekk ekki í hjónaband 16 ára eins og til stóð.

Þorpið Kafr Nabl í Idlib-héraði, myndin er tekin á sunnudaginn.
Þorpið Kafr Nabl í Idlib-héraði, myndin er tekin á sunnudaginn. OMAR HAJ KADOUR

Seda segir að margar kvennanna átti sig á því að þær eiga leið út úr ömurlegum aðstæðum þegar þær fara að sækja miðstöðina. Til að mynda konur sem eru beittar heimilisofbeldi. Mikilvægt er að veita þessum konum allan mögulegan stuðning. „Frá upphafi hefur það verið eitt það erfiðasta að sannfæra konur um þann rétt sem þær eiga. Eitthvað sem við ræðum alltaf á öllum fundum. Oft verða þær fyrir áfalli á fyrstu fundunum þar sem þær hafa ekki hugmynd um réttindi sín. Að sjá konur styrkjast á þann hátt sem við sjáum hér í SADA-miðstöðinni fyllir okkur gleði og hamingju og sýnir að starf okkar skilar góðum árangri. Því miður eru margar konur sem aldrei koma til okkar þar sem þær búa við þannig aðstæður að þær komast ekki. Vonandi eigum við eftir að ná til sem flestra þeirra í framtíðinni,“ segir Seda Dolaner.

Flóttakonur oft þolendur ofbeldis

Íris Björg Kristjánsdóttir og Sada Doloner ásamt þremur konum sem …
Íris Björg Kristjánsdóttir og Sada Doloner ásamt þremur konum sem taka þátt í starfi hópsins Konur framtíðarinnar. mbl.is/Gúna
Ezgt Turgot og Ela Yigit starfa báðar í SADA-miðstöðinni. Ezgt er ein þeirra sem taka á móti konum í fyrsta viðtal, greinir þarfir þeirra og fylgir síðan málum þeirra eftir. Ela starfar náið með Sedu Dolaner, forstöðukonu SADA.

Spurð út í hvort það taki ekki oft á þær að heyra sögur kvenna sem hafa oft gengið í gegnum ólýsanlegar þjáningar segir Ezgt að það sé oft mjög erfitt og starfsfólk mætti gera meira af því að ræða sína líðan.

„En ég elska starfið mitt og að verða vitni að valdeflingu kvenna. Að sjá brotnar manneskjur verða sterkar,“ segir Ezgt.

Eitt af því sem ítrekað kom upp í samræðum blaðamanns við starfsfólk hjálpar- og mannúðarsamtaka auk flóttakvenna í Gaziantep eru barnahjónabönd. Ela segir að í Sýrlandi sé fremur algengt að stúlkur séu gefnar í hjónaband 15-16 ára gamlar. Jafnvel enn yngri.

Ela segir að starfskonur SADA reyni að útskýra fyrir konum og stúlkum sem koma í miðstöðina að í Tyrklandi sé ólöglegt að ganga í hjónaband fyrir 18 ára aldur og að það sé ekki eðlilegt að ganga í hjónaband fyrr. „Við útskýrum fyrir þeim hvaða afleiðingar það getur haft fyrir stúlkur um alla tíð. Að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig og þær samþykki að dætur þeirra og synir gangi í hjónaband á barnsaldri.“

Reynt að búa sér til skjól í helli. Frá Idlib.
Reynt að búa sér til skjól í helli. Frá Idlib. AFP

Stundum giftar til að forða þeim undan kynferðisofbeldi

Í fyrstu tali konurnar oft um menningarmun en fljótlega skipta flestar um skoðun og gera sér grein fyrir hættunni fyrir börn þeirra. Stundum koma börn í hjónabandi hingað. Þá hafa jafnvel foreldrar þeirra komið hjónabandi á til þess að koma í veg fyrir að stúlkur verði fyrir kynferðislegu ofbeldi, til að mynda af hálfu liðsmanna Ríkis íslams eða stjórnarhersins. „Allar vilja þær það besta fyrir börn sín og það er þeirra helsta markmið á flóttanum og í lífinu að gera líf barnanna betra. Að þau komist í skóla og í frístundastarf. Við kennum börnum hér og beinum sjónum meðal annars að ofbeldi og barnahjónaböndum,“ segir Ela.
Ezgt Turgot og Ela Yigit starfa báðar í SADA-miðstöðinni.
Ezgt Turgot og Ela Yigit starfa báðar í SADA-miðstöðinni. mbl.is/Gúna

Atvinnuleysi er mikið í Gaziantep og það gerir flóttakonum enn erfiðara fyrir með lífsbjargir. Konur eiga mjög erfitt með að fá vinnu og algengt að börn þurfi að vinna langan vinnudag til þess að aðstoða við framfærslu fjölskyldunnar.

Ela segir að hjá SADA-miðstöðinni sé reynt að upplýsa og koma í veg fyrir að brotið sé á konum og börnum á vinnumarkaði. Ekki er óalgengt að þeim sé gert að vinna 10-12 tíma á dag alla daga vikunnar fyrir smánarlaun. Konur fá oft 50 lírur á dag og börn ekki nema 20 lírur fyrir dagsverkið. Það svarar til þess að konurnar fái eitt þúsund krónur í laun fyrir 10-12 tíma vinnudag og börn 420 krónur.

Matarmarkaður í Idlib-borg.
Matarmarkaður í Idlib-borg. AFP

Flestar kvennanna eru frá Sýrlandi og þeim fer fjölgandi sem koma hingað og þurfa mikla aðstoð, segir Ezgt. „Oft svipuð vandamál sem þær glíma við og hafa oft upplifað skelfilega hluti. Ekki bætir úr skák þegar þær hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi en því miður gerist það oft á flóttanum, bæði í heimalandinu og þegar komið er hingað til Tyrklands. Sálrænn stuðningur er því gríðarlega mikilvægur og oft eru þær ekki reiðubúnar til þess að fá slíka aðstoð fyrr en eftir að nokkurn tíma. Þegar þær fara að treysta okkur,“ segir Ezgt Turgot, félagsráðgjafi hjá SADA-miðstöðinni í Gaziantep.

Matreiðslunámskeiðin njóta mikilla vinsælda og þegar blaðamaður var í Gaziantep …
Matreiðslunámskeiðin njóta mikilla vinsælda og þegar blaðamaður var í Gaziantep voru tveir matreiðslumenn að kenna konun matarskreytingar. Maturinn í Gaziantep er á heimsminjaskrá UNESCO. mbl.is/Gúna
Vegna þess mikla fjölda sem hefur komið til Gaziantep undanfarin …
Vegna þess mikla fjölda sem hefur komið til Gaziantep undanfarin ár er mjög erfitt að finna húsnæði. mbl.is/Gúna
mbl.is