Ekki hægt að horfa á fólk deyja

Frá Sýrlandi til Evrópu | 25. maí 2017

Ekki hægt að horfa á fólk deyja

Við komuna til Lesbos minnir fátt á að þangað hafi, á rúmu ári, komið ein og hálf milljón flóttamanna. Eyju þar sem íbúarnir eru um 90 þúsund talsins. Þórunn Ólafsdóttir er ein þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem tóku þátt í björgunarstarfinu á Lesbos árið 2015 og 2016.

Ekki hægt að horfa á fólk deyja

Frá Sýrlandi til Evrópu | 25. maí 2017

Oft er lítið við að vera í flóttamannabúðum og þá …
Oft er lítið við að vera í flóttamannabúðum og þá kemur sér vel að eiga hund sem góðan vin. mbl.is/Gúna

Við komuna til Lesbos minnir fátt á að þangað hafi, á rúmu ári, komið ein og hálf milljón flóttamanna. Eyju þar sem íbúarnir eru um 90 þúsund talsins. Þórunn Ólafsdóttir er ein þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem tóku þátt í björgunarstarfinu á Lesbos árið 2015 og 2016.

Við komuna til Lesbos minnir fátt á að þangað hafi, á rúmu ári, komið ein og hálf milljón flóttamanna. Eyju þar sem íbúarnir eru um 90 þúsund talsins. Þórunn Ólafsdóttir er ein þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem tóku þátt í björgunarstarfinu á Lesbos árið 2015 og 2016.

Hún er núna á Lesbos í fyrsta skipti síðan samningur Evrópusambandsins og Tyrklands um að Grikkir megi senda aftur til Tyrklands flóttamenn án tilskilins leyfis yfirvalda tók gildi 4. apríl 2016 þrátt fyrir mótmæli mannréttindasamtaka.

Þórunn Ólafsdóttir starfaði við hjálparstarf á Lesbos í marga mánuði …
Þórunn Ólafsdóttir starfaði við hjálparstarf á Lesbos í marga mánuði þegar hundruð þúsunda flóttamanna komu þangað frá Tyrklandi. Litla stúlkan er tæplega ársgömul og hefur verið á flótta nánast frá fæðingu. mbl.is/Gúna

Þórunn segir það skrýtna tilfinningu að vera komin aftur og minningarnar streyma upp á yfirborðið. Sumar ljúfar aðrar sárar. Þrátt fyrir að færri flóttamenn komi til Lesbos núna þá reyna daglega einhverjir að koma þangað enda aðbúnaður flóttafólks í Tyrklandi ömurlegur.

Þórunn kom til Lesbos sem fararstjóri fyrir danska ferðaskrifstofu árið 2015. Fljótlega var hún farin að taka þátt í hjálparstarfinu enda neyðin gríðarleg. „Mér var gjörsamlega ómögulegt annað en að leggja mitt af mörkum enda sváfu stóru hjálparsamtökin á verðinum á meðan sífellt fjölgaði þeim sem hættu lífi og limum við að komast til Evrópu.“

Samtökin sem Þórunn starfaði með heita Starfish en stofnandi þeirra er Melinda McRostie, eigandi veitingastaðarins The Captain‘s Table í bænum Molyvos. Þau settu meðal annars á laggirnar búðir fyrir flóttafólk á bílastæði við vinsælasta skemmtistað Lesbos, OXY. Þar fengu þúsundir aðstoð á hverjum degi um margra mánaða skeið.

„Ég man að fyrstu dagana var ekkert þarna. Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) lagði fljótlega til stórt tjald þar sem einhverjir gátu gist enda farið að kólna á nóttunni. Annað byggðum við upp úr engu,“ segir Þórunn þegar hún sýnir blaðamanni autt bílastæðið þar sem engin ummerki sjást um flóttafólkið sem þar dvaldi.

Hún segir að það sé eiginlega magnað hvernig starfið byggðist upp þrátt fyrir litlar sem engar undirstöður. Allt byggðist á baráttuvilja eyjarskeggja og sjálfboðaliða sem tóku þátt í að bjarga mannslífum dag eftir dag. Bjarga fólki sem jafnvel hafði greitt smyglurum aleiguna til þess að komast yfir sundið sem skilur Lesbos og Tyrkland að. Aðeins örfáir kílómetrar.

Smyglararnir gæta þess yfirleitt að setja eins lítið eldsneyti á bátana og mögulegt er og má því ekkert út af bregða á siglingunni. „Fyrir þetta greiðir fólk allt að 1.500 bandaríkjadali auk þess að greiða jafnvel 250 dali fyrir björgunarvestið,“ segir Þórunn og hugsar með hryllingi til smyglaranna sem nýta sér eymd fólks sem á engra annarra kosta völ en að flýja undan stríði sem geisar í heimalandinu.

Stúlka sem býr í PIKPA-flóttamannabúðunum.
Stúlka sem býr í PIKPA-flóttamannabúðunum. mbl.is/Gúna

Þegar þúsundir og aftur þúsundir komu að landi á hverjum degi varð að beita ýmsum úrræðum til þess að tryggja jafnt aðgengi að aðstoð. Til að mynda flutningi frá ströndinni í flóttamannabúðirnar Moria þar sem flóttafólkið er skráð inn í landið.

„Við fórum í föndurbúð og keyptum mislit blöð sem við klipptum niður í litla miða. Liturinn á miðanum sýndi hvenær þú komst að landi og hvenær þinn rútutími væri kominn,“ segir Þórunn.

Magnað sé að hugsa til þess hvernig þetta gekk upp með góðri samvinnu fólks á öllum aldri. „Yngsti sjálfboðaliðinn í OXY var ellefu ára gamall strákur sem kom ásamt fjölskyldu sinni til Lesbos að taka þátt í hjálparstarfinu,“ segir Þórunn og bætir við að það sé lýsandi fyrir fjölskylduna þegar móðir drengjanna var spurð hvort þetta væri ekki erfitt fyrir þann 11 ára. Þá svaraði hún: „Nei, að sjálfsögðu ekki. Hann fer heim á kvöldin og sefur í hreinu rúmi. Hann er að læra hvernig heimurinn er í raun og veru.“

Frá OXY-búðunum 

Það er fátt sem minnir á flóttamenn hér við OXY-skemmtistaðinn …
Það er fátt sem minnir á flóttamenn hér við OXY-skemmtistaðinn í dag. mbl.is/Gúna

Íbúar Lesbos tóku almennt vel á móti flóttafólkinu og voru tilnefndir til friðarverðlauna Nóbels fyrir framlag sitt. „Þetta fólk upplifir á sama tíma að lífsviðurværi þess hrynur þegar ferðamenn hætta að ferðast til eyjunnar en á sama tíma blasir mannlegur harmleikur við fólkinu dag hvern,“ segir Þórunn og bendir á að velferðarkerfið á Grikklandi er mjög laskað eftir efnahagskreppuna og því viðkvæmt fyrir öllum sveiflum.

Margir þeirra sem blaðamaður ræddi við á Lesbos minnast 28. október 2015 með hryllingi en þá fórst bátur með 300 flóttamenn úti fyrir ströndum Lesbos. Af þeim drukknuðu um 70 manns.

Krakkarnir rækta grænmeti með foreldrum sínum í PIKPA-flóttamannabúðunum.
Krakkarnir rækta grænmeti með foreldrum sínum í PIKPA-flóttamannabúðunum. mbl.is/Gúna

„Á þessum tíma voru margir hjálparstarfsmenn á Lesbos en fólk var dreift um eyjuna og ekki nógu margir sérhæfðir hjálparstarfsmenn í seilingarfjarlægð til þess að bregðast við á sama tíma og ströndin var þakin flóttafólki sem ýmist var aðframkomið eða látið.

Allir eyjarskeggjar sem vettlingi gátu valdið reyndu að aðstoða, blása lífi í fólk á sama tíma og skyndihjálparkunnáttan var rifjuð upp.

„Þegar fór að kólna í veðri og skilyrði til sjósóknar versnuðu voru margir illa haldnir þegar þeir komust í land. Það litla sem smyglararnir höfðu leyft þeim að taka með um borð var jafnvel horfið í hafið og margir misstu ættingja í vota gröf,“ segir Þórunn.

Þúsundir björgunarvesta er minnisvarði um það sem gerðist hér á …
Þúsundir björgunarvesta er minnisvarði um það sem gerðist hér á Lesbos. Ekki má gleyma því að hvert vesti segir flóttasögu einhverrar manneskju. mbl.is/Gúna

Erfiðast að sjá börn deyja

Mikael er þjónn á veitingastaðnum The Captain‘s Table í bænum Molyvos. Hann segir að árið 2015 muni seint líða úr huga hans sem og flestra annarra íbúa Lesbos.

Strax í nóvember 2014 voru flóttamennirnir byrjaðir að streyma til eyjunnar í þeirri von að komast þaðan til meginlandsins. Í apríl 2015 voru bátar með flóttafólki orðnir daglegur viðburður á Lesbos á sama tíma og ferðamennirnir streymdu til þangað.

Hann segir að þetta vor hafi yfirleitt 100-150 flóttamenn komið að landi í Molyvos, en alls búa 2.500 manns í bænum. Veitingastaðurinn er við höfnina og vann Mikael þar langt fram á kvöld og tók þá til við að aðstoða við hjálparstarfið.

Þrátt fyrir að komum flóttafólks til Lesbos hafi fækkað mikið …
Þrátt fyrir að komum flóttafólks til Lesbos hafi fækkað mikið þá eru enn að koma þangað yfirfullir flóttabátar. mbl.is/Gúna

„Það er skylda okkar að hjálpa fólki í neyð,“ segir Mikael og bætir við að það hafi verið erfið lífsreynsla ekki síst þegar ekki tókst að bjarga fólki og það dó á ströndinni eða líkum skolaði á land.

„Það var erfiðast að sjá börn deyja. Þau voru svo mörg og sum þeirra voru svo lítil. En það var ekkert annað í boði en að halda áfram og reyna að veita fólki aðstoð. Því á hverjum degi kom til okkar fólk sem þurfti á hjálp að halda.“

Grikkir minnast þess 28. október ár hvert að þann dag neitaði þjóðin að gefast upp fyrir Ítölum í seinni heimsstyrjöldinni (Ochi-dagur). En ekki 2015.

„Ég gleymi því aldrei þegar ég stóð fyrir utan veitingastaðinn og var að gefa fólki heitt te að drekka og við hliðina á mér var kona sem hafði misst fjögur börn sín þennan dag. Harmur hennar á alltaf eftir að fylgja mér. Ég reyndi að einbeita mér að því að gefa fólki te en hvernig er það hægt þegar þú verður vitni að svo mikilli sorg? Hvað getur maður gert í aðstæðum sem þessum?“ segir Mikael.

Höfnin í Molyvos. Dag eftir dag komu þarna flóttamenn að …
Höfnin í Molyvos. Dag eftir dag komu þarna flóttamenn að landi þar sem hjálparstarfsmenn Starfish gáfu þeim að borða og létu þá fá þurr föt. mbl.is/Gúna

Hann segir að ekki hafi allir verið sáttir við komu alls þessa flóttafólks til eyjunnar og ekki síst vegna þess hversu lengi alþjóðasamfélagið og stórar hjálparstofnanir gerðu lítið sem ekkert til að aðstoða.

„En flestir vildu veita aðstoð. Þú getur ekki bara staðið hjá með krosslagðar hendur og horft á fólk drukkna. Þeir sem mótmæltu háværast stóðu ekki vaktina við að bjarga mannslífum alla daga líkt og við hin.

Ég var svo heppinn – ef það er hægt að orða það þannig – að hafa verið hér og upplifað þetta. Því þetta hefur breytt mér til framtíðar og ég kann betur að meta það sem ég á og hef. Því við megum ekki gleyma því að þrátt fyrir að gríska þjóðin hafi gengið í gengum miklar efnahagslegar þrengingar þá er ekki stríð hér. Fólkið sem kemur hingað á flótta er flest að flýja sprengjuregn og er án allra nauðsynja sem okkur finnast kannski sjálfsagður hlutur. Ég vona bara að stríðinu fari að ljúka í Sýrlandi því það er stríðið sem er vandamálið en ekki flóttafólkið. Það er fórnarlömb stríðs og reynir að lifa af,“ segir Mikael.

Masud er frá Afganistan - hann er kominn með leyfi …
Masud er frá Afganistan - hann er kominn með leyfi til þess að fara til Þýskalands þar sem bróðir hans býr. mbl.is/Gúna

Biðin tærir mann og lamar

Nokkur þúsund flóttamenn eru á Lesbos og í stað þess að vera nokkra daga á eyjunni á leið til meginlandsins þurfa þeir að bíða mánuðum saman eftir því að fá svar um hvort þeir fái hæli í Grikklandi eða heimild til þess að halda för sinni áfram í Evrópu, meðal annars á grundvelli fjölskyldusameiningar. Margir þeirra fá einfaldlega synjun sem þýðir að þeir eru sendir annaðhvort til Tyrklands eða heimalandsins þar sem þeir falla ekki undir skilgreininguna um flóttafólk.

PIKPA-flóttamannabúðirnar eru í úthverfi Mytilini, höfuðstað Lesbos. Þetta eru opnar búðir sem reknar eru af sjálfstæðum samtökum með stuðningi frá yfirvöldum.

Þegar flóttamennirnir voru sem flestir á Lesbos dvöldu oft fleiri hundruð manns í PIKPA tímabundið en í dag eru íbúarnir 60-80 talsins, þar af um 20-30 börn.

Feðgin frá Írak en þau eru meðal rúmlega þrjú þúsund …
Feðgin frá Írak en þau eru meðal rúmlega þrjú þúsund flóttamanna á Lesbos sem bíða þess að fá svör við umsókn um hæli eða sameiningu við fjölskyldu í öðru ríki Evrópu. mbl.is/Gúna

Búðirnar eru ætlaðar þeim berskjölduðustu: fólki sem missti ástvini á flóttanum yfir hafið, fjölskyldufólki, fötluðum eða þeim sem glíma við alvarleg veikindi af ýmsu tagi.

Einn þeirra er Masud frá Afganistan. Hann hefur búið í PIKPA í fjórtán mánuði en loks sér fyrir endann á dvölinni því hann hefur fengið heimild til þess að sameinast bróður sínum í Þýskalandi. Þar starfar bróðir hans á veitingastað.

Sýrlensk hjón sem hafa beðið í ár ásamt börnum sínum …
Sýrlensk hjón sem hafa beðið í ár ásamt börnum sínum að komast frá Lesbos. Þeirra draumur er að komast til Hollands. mbl.is/Gúna

Masud, líkt og aðrir sem blaðamaður ræddi við í PIKPA, segja búðirnar með þeim bestu á Lesbos og hugsa með hryllingi til Moria-búðanna sem eru yfirleitt fyrsti viðkomustaðurinn, en nánar verður fjallað um þær búðir og líf barna á flótta í tveimur greinum sem birtast í Morgunblaðinu í næstu viku.

Í PIKPA getur fólk eldað sjálft og fjölskyldur búa í litlum timburhúsum en Masud býr í tjaldi þar sem hann er einn á flóttanum.

Börnin ganga í skóla í búðunum og fá börnin, sem eru á öllum aldri, kennslu í ensku og grísku auk listgreina og fleiri greina.

PIKPA eru þriðju flóttamannabúðirnar sem fjölskylda frá Írak sem blaðamaður ræddi við býr í á Lesbos. Þau eru ákaflega fegin því að hafa komist þangað enda aðbúnaðurinn mun betri en víða annars staðar.

Þórunn Ólafsdóttir horfir enn yfir hafið til Tyrklands í hvert …
Þórunn Ólafsdóttir horfir enn yfir hafið til Tyrklands í hvert skipti sem hún fer niður á strönd og kannar hvort hún sjái bát í vanda. mbl.is/Gúna

Fjölskyldan er hjón og tvær dætur, sú eldri er þriggja ára og sú yngri 11 mánaða. Hún hefur verið nánast alla ævina á flótta og engin trygging fyrir því að þau fái að halda flóttanum áfram. Það fer eftir því hvaða mat stjórnvöld leggja á mál þeirra.

Þeirra draumur er að komast til Svíþjóðar þar sem þau eiga ættingja og telja sig geta fengið vinnu.

Sýrlensk fjölskylda sem hefur verið í PIKPA í eitt ár er orðin mjög örvæntingarfull og að sögn mannsins er biðin skelfileg, hún tærir mann og lamar. En þau eiga samkvæmt öllum skilgreiningum að vera í forgangi um hæli í Evrópu.

„Þegar við lögðum af stað frá Sýrlandi þá sagði ég dætrum mínum að við myndum að hámarki þurfa að vera einn mánuð í flóttamannabúðum en hér erum við enn ári síðar.“

Biðin tekur á en þeirra draumur er að komast til Hollands þótt þau vilji helst af öllu vera heima í Sýrlandi en ekki Evrópu því það er neyð sem rak þau hingað, ekki ævintýraþrá.

„Í Sýrlandi deyrðu bara einu sinni þegar sprengjurnar falla en hér deyrðu innra með þér á hverjum degi þar sem þú situr og bíður og bíður og ekkert gerist,“ segir hann við blaðamann Morgunblaðsins.

Þessar flóttamannabúðir eru ekki starfandi lengur en þær eru við …
Þessar flóttamannabúðir eru ekki starfandi lengur en þær eru við ströndina á Lesbos. Þarna fengu flóttamenn fyrstu aðstoðina við komuna til eyjunnar eftir flóttann yfir hafið. mbl.is/Gúna

Þau líkt og margir aðrir flóttamenn í Grikklandi eru uggandi um sinn hag og hafa þau heyrt því fleygt að PIKPA-búðunum verði jafnvel lokað því mörgum finnist svo óþægilegt að horfa upp á flóttafólkið svo nálægt sér.

Í næstu viku munu birtast fleiri greinar frá Lesbos þar sem fjallað er um flóttamannabúðirnar sem fólkið dvelur í og það starf sem unnið er á eyjunni. Ekki síst um stöðu barna sem eru á flótta. 

Hluti af björgunarvestafjallinu sem hefur safnast upp á Lesbos.
Hluti af björgunarvestafjallinu sem hefur safnast upp á Lesbos. mbl.is/Gúna
Spænskir hjálparstarfsmenn að störfum í síðasta mánuði við Lesbos.
Spænskir hjálparstarfsmenn að störfum í síðasta mánuði við Lesbos. AFP
mbl.is