Að óbreyttu með 14% af aflaheimildum

Fiskveiðistjórnunin | 15. júlí 2022

Að óbreyttu með 14% af aflaheimildum

Með kaupunum á Vísi hf. í Grindavík fer hlutdeild samstæðu Síldarvinnslunnar hf. í úthlutuðum þorskígildum í 13,97%. Þetta kemur fram í svari Fiskistofu við fyrirspurn blaðamanns um hlutdeildir fyrirtækja eins og staðan var 14. júlí.

Að óbreyttu með 14% af aflaheimildum

Fiskveiðistjórnunin | 15. júlí 2022

Með kaupunum á Vísi hf. í Grindavík verður Síldarvinnslan komin …
Með kaupunum á Vísi hf. í Grindavík verður Síldarvinnslan komin með 13,97% hlutdeild í úthlutuðum þorskígildum. Hámark samkvæmt lögum er 12%. mbl.is/Sigurður Bogi

Með kaupunum á Vísi hf. í Grindavík fer hlutdeild samstæðu Síldarvinnslunnar hf. í úthlutuðum þorskígildum í 13,97%. Þetta kemur fram í svari Fiskistofu við fyrirspurn blaðamanns um hlutdeildir fyrirtækja eins og staðan var 14. júlí.

Með kaupunum á Vísi hf. í Grindavík fer hlutdeild samstæðu Síldarvinnslunnar hf. í úthlutuðum þorskígildum í 13,97%. Þetta kemur fram í svari Fiskistofu við fyrirspurn blaðamanns um hlutdeildir fyrirtækja eins og staðan var 14. júlí.

Þessi hlutdeild er umfram lögbundið hámark sem samkvæmt í lögum um stjórn fiskveiða er 12%. Það er hins vegar ekki víst að Síldarvinnslan þurfi að aðhafast mikið vegna þessa þar sem miklar breytingar geta átt sér stað í samsetningu þorskígilda á næstu mánuðum.

Í lögum um stjórn fiskveiða segir að „samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila ekki nema meira en 12% af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla“. Þá eru einnig lögbundin hámörk fyrir einstaka tegundir og eru þau skilgreind sem 12% í þorski en 20% í ýsu, ufsa, grálúðu, síld, loðnu og úthafsrækju, en 35% í grálúðu. Tengdir aðilar teljast þeir aðilar þar sem einstaklingur eða lögaðili á beint eða óbeint meirihluta í öðrum eða fer með meirihluta atkvæðisréttar.

Þegar aflahlutdeild fer yfir lögbundið hámark er gefinn sex mánaða frestur til að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að koma aflahlutdeildinni niður fyrir mörkin.

Stuðullinn gagnrýndur

Brim hf. lenti í því að vera komið yfir hlutdeildarmörkin fyrir tilviljun þegar óvænt var gefinn út óvenjumikill loðnukvóti, sá mesti í tvo áratugi, en þorskígildin reiknuðust þá á grundvelli ársins á undan þegar verð voru há og fá tonn veidd. Hafði félagið þá, í samræmi við lög, sex mánuði til að gera viðeigandi ráðstafanir.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, sagði við Morgunblaðið í nóvember í fyrra að þetta sýndi hve rangur mælikvarði þorskígildisstuðullinn væri og benti á að verðmæti loðnukvótans í þorskígildum væri orðið 30% meira en allra heimilda í þorski. „Ég myndi vilja að þak í hverri fisktegund myndi ráða hámarkinu. Það er einfalt og gagnsætt kerfi,“ sagði Guðmundur.

Var gripið til þess ráðs að selja Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf. 5,84% aflahlutdeild í loðnu sem skráð var á togarann Sólborg RE, en skipið var keypt í fyrra til að veiða ufsa og karfa í Barentshafi.

Forsendur geta breyst

Í tilfelli Síldarvinnslunnar er óvíst hvort grípa þurfi til einhverra ráðstafanna og hverra ef þess er þörf. Ekki hefur endanlega verið gengið frá kaupunum, en beðið er eftir samþykkt hluthafa sem og Samkeppniseftirlitsins og er það fyrst þegar kaupin hafa átt sér stað að hlutdeild samstæðu Síldarvinnslunnar fer yfir mörk laganna. Ef til að mynda er gengið út frá því að kaupin séu framkvæmd mánudaginn 18. júlí og Fiskistofa tilkynnir Síldarvinnslunni að félagið sé komið yfir viðmiðunarmörk hefur fyrirtækið til 18. janúar að koma sér niður fyrir 12% mörkin og á þeim tíma getur margt breyst.

Hafrannsóknastofnun hefur þegar gefið út ráðgjöf fyrir flesta nytjastofna vegna fiskveiðiársins 2022/2023 sem hefst 1. september, en aflamarkinu hefur enn ekki verið úthlutað. Þegar úthlutun á sér stað breytast eðlilega útreikningar hlutdeildar sjávarútvegsfyrirtækja af heildarverðmæti.

Jafnframt hefur ráðgjöf vegna næstu loðnuvertíð sem og loðnukvóti ekki verið gefinn út, en það gerist í kringum mánaðamótin október/nóvember. Þá verður byggt á þorskígildisstuðli sem reiknast á grundvelli síðastliðinnar loðnuvertíðar. Búist er við annarri stórri vertíð en þó líklega ekki jafn stórri og þeirri sem lauk í vor.

Teljast ekki tengd í lögum

Aflahlutdeild tengdra aðila reiknast saman í tengslum við ákvæði um hámarkshlutdeild, en tengdir aðilar teljast þeir aðilar þar sem einstaklingur eða lögaðili á beint eða óbeint meirihluta í öðrum eða fer með meirihluta atkvæðisréttar.

Á þessum grundvelli telst Samherji ekki félag tengt Síldarvinnslunni, en Samherji á 32,64% hlut í félaginu. Þá fer Útgerðarfélag Reykjavíkur beint og óbeint með 43,95% hlut í Brimi, en þau félög teljast ekki tengd í lögum um stjórn fiskveiða.

mbl.is