„Ég þarf klárlega að vera duglegri í styrktaræfingum“

Heilsurækt | 18. september 2022

„Ég þarf klárlega að vera duglegri í styrktaræfingum“

Steinunn Þórðardóttir öldrunarlæknir og formaður Læknafélags Íslands segist ekki vera fædd nein sérstök íþróttatýpa. Hún hefur vanið sig á að reyna að hreyfa sig eitthvað á hverjum degi. 

„Ég þarf klárlega að vera duglegri í styrktaræfingum“

Heilsurækt | 18. september 2022

Steinunn Þórðardóttir.
Steinunn Þórðardóttir. Ljósmynd/Aðsend

Steinunn Þórðardóttir öldrunarlæknir og formaður Læknafélags Íslands segist ekki vera fædd nein sérstök íþróttatýpa. Hún hefur vanið sig á að reyna að hreyfa sig eitthvað á hverjum degi. 

Steinunn Þórðardóttir öldrunarlæknir og formaður Læknafélags Íslands segist ekki vera fædd nein sérstök íþróttatýpa. Hún hefur vanið sig á að reyna að hreyfa sig eitthvað á hverjum degi. 

„Mér finnst langbest að hreyfa mig utandyra og uppáhaldslíkamsræktin eru fjallgöngur og göngur í náttúrunni. Ég er síðan að reyna að venja mig á að fara á gönguskíði á veturna, hef alltaf haft mjög gaman af svigskíðum, en skíðagangan kemur sterk inn sem frábær alhliða þjálfun og skemmtileg leið til að hreyfa sig utandyra að vetrarlagi. Ætli maður endi síðan ekki líka í sjósundi einhvern tímann í framtíðinni, hef trú á því að kæling sé góð fyrir ónæmiskerfið og ekki síður fyrir andlega líðan. Hversdagslífið getur oft verið mjög snúið þar sem við hjónin vinnum bæði mikið og erum með þrjú börn þannig að skipulögð líkamsrækt á fyrirfram ákveðnum tímum gengur illa upp hjá okkur eins og er. Væri annars örugglega líka í jóga, en tek stundum hugleiðslutarnir heima þegar ég er undir miklu álagi og finnst það hjálpa mikið við að draga úr streitu,“ segir Steinunn.

Hún segir að hreyfing sé alltaf að verða sjálfsagðari hluti af sínum lífsstíl.

„Ég finn að mér líður ekki vel ef ég fæ ekki daglegan skammt af fersku lofti og hreyfingu. Hef aldrei verið íþróttatýpan og virkilega þurft að beita mig hörðu til að halda mig til dæmis við að fara út að hlaupa, sem ég hef tekið í nokkrum skorpum í gegnum tíðina. Með aldrinum finnur maður betur og betur að maður kemst ekkert upp með að sleppa þessu og vellíðanin sem fylgir hreyfingunni er hvati til að halda sig við efnið,“ segir hún.

Hvað værir þú til í að bæta varðandi eigin heilsu? Ertu með einhver markmið til að bæta þig?

„Ég þarf klárlega að vera duglegri í styrktaræfingum og stefni á að gefa hlaupunum enn eitt tækifærið. Ég er ekki með nein sérstök markmið önnur en að viðhalda styrk, þoli, jafnvægi og liðleika, þ.e. bara almennt góðri hreyfigetu. Tilgangurinn væri þá að geta notið þess enn betur að ferðast fótgangandi um fjöll og firnindi.“

Hugsa læknar almennt meira um heilsuna heldur en hinn almenni borgari?

„Ég held að læknar séu eins mismunandi eins og þeir eru margir, en það er reyndar mikið af mjög flottu íþróttafólki innan stéttarinnar. Tveir læknar, Elsa Valsdóttir og Jórunn Atladóttir, syntu til dæmis yfir Ermarsundið um daginn. Margir læknar hafa klárað Landvættina, stundað ofurmaraþon o.s.frv. Á hinn bóginn er líka rólyndisfólk í stéttinni sem hefur meira gaman af grúski en hoppi og skoppi. Læknar eru almennt meðvitaðir um að þeir þurfa að vera fyrirmyndir og mikilvægt að þeir séu vel að sér þegar kemur að forvörnum og heilsueflingu.“

mbl.is