Konan fær ekki áfengan kokteil í ár

Jóla jóla ... | 22. desember 2022

Konan fær ekki áfengan kokteil í ár

Ivan Svanur Corvasce kokteilgerðarmaður segir að allt sem minnir á jólin passi í kokteil en hann bjó til tvo jólakokteila fyrir jólablaðið í ár. Mandarínu- og riz à l'amande-kokteilarnir hans ættu að slá í gegn á föndurkvöldum á aðventunni og jafnvel koma í stað eftirréttar á aðfangadagskvöld. 

Konan fær ekki áfengan kokteil í ár

Jóla jóla ... | 22. desember 2022

Ivan Svanur Corvasce er töframaður þegar kemur að drykkjum.
Ivan Svanur Corvasce er töframaður þegar kemur að drykkjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ivan Svanur Corvasce kokteilgerðarmaður segir að allt sem minnir á jólin passi í kokteil en hann bjó til tvo jólakokteila fyrir jólablaðið í ár. Mandarínu- og riz à l'amande-kokteilarnir hans ættu að slá í gegn á föndurkvöldum á aðventunni og jafnvel koma í stað eftirréttar á aðfangadagskvöld. 

Ivan Svanur Corvasce kokteilgerðarmaður segir að allt sem minnir á jólin passi í kokteil en hann bjó til tvo jólakokteila fyrir jólablaðið í ár. Mandarínu- og riz à l'amande-kokteilarnir hans ættu að slá í gegn á föndurkvöldum á aðventunni og jafnvel koma í stað eftirréttar á aðfangadagskvöld. 

Ivan Svanur segir að það sé stemning í að fá sér góðan kokteil á veturna og þegar líða fer að jólum er vinsælt að fá sér kokteila sem minna á jólin. „Það eru svo skemmtilegar bragðtegundir sem hægt er að leika sér með á jólunum; möndlur, kanill, mandarínur, vanilla, koníak, rjómi og kirsuber,“ segir Ivan Svanur sem er duglegur að búa til nýja kokteila og annar tveggja höfunda Heimabarsins.

„Alltaf þegar við gerum jólakokteila förum við í minningarnar. Hvað minnir mann á jólin? Greni minnir á jólin, ananas minnir suma á jólin, fyrir aðra er það riz à l'amande með möndlum og svoleiðis. Hjá mér er það þetta klassíska bökunarkrydd; múskat, negull, kanill og mandarína. Það er það sem við notum í öðrum drykknum sem ég bjó til. Það er mandarínukokteill með bökunarkryddssírópi. Þá gerum við rosalega einfalt síróp úr þessum helstu bökunarkryddum,“ segir Ivan Svanur. Hinn kokteillinn sem hann bjó til minnir á möndlugrautinn sem mörgum finnst ómissandi á aðfangadag.

Allir geta hrist sinn kokteil

„Það er alltaf gaman að drekka kokteil ef maður er í jólaföndri, að gera kransa eða eitthvað svoleiðis. Ég mæli með að fólk undirbúi allt áður. Segjum að þú sért að fá fólk í jólakransaföndur klukkan sex. Í staðinn fyrir að setja kremið á kökuna útbýrðu sítrónusafann, mandarínusafann og sírópið fyrir mandarínukokteilinn.

Það sem mér finnst sniðugt að gera ef ég er með partí og nenni ekki að hrista fyrir alla gestina er að stilla upp í litla stöð. Þar er hægt að vera með hristarann, glösin, klakana og allt það dót. Við keyptum A5-ramma í Rúmfatalagernum og setjum uppskriftina í rammann. Þetta er ógeðslega flott. Þá þarftu ekki að vera inni í eldhúsi að búa til kokteila fyrir alla.“

Það er hægt að drekka meira en bara malt og …
Það er hægt að drekka meira en bara malt og appelsín. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ivan Svanur segir að dökkur spíri á borð við koníak, Old Tom-gin, dökkt romm og bourbon-viskí sé vinsæll í jólalega drykki. Einn vinsælasti jólakokteill í heimi er eggjapúns. Ivan Svanur ætlar meðal annars að kenna þennan vinsæla jóladrykk á námskeiði í Kokteilaskólanum fyrir jólin. Það eru hrá egg í kokteilnum en það er alls ekki neitt til að hræðast að sögn Ivans Svans. „Þetta er mjög einfalt, svipað og tiramisu. Eggjarauður eru hrærðar saman með sykri og í annarri skál er eggjahvítum og sykri blandað saman. Það er léttþeyttur rjómi í þessu og öllu blandað saman með koníaki eða rommi. Svo er kryddað að vild, mér finnst best að setja múskat.“

Þarf maður að vera ótrúlega flinkur til að blanda kokteil?

„Nei, alls ekki. Við til dæmis kennum í Kokteilaskólanum ótrúlega einfaldan grunn á bara tveimur tímum. Kokteilaskólinn er bara ein kvöldstund og við gerum saman þrjá kokteila. Þú þarft ekkert að vera að búa til plómusíróp í „sous vide“! Það er nóg að vera með góð og fersk hráefni og að aðaláfengistegundin sé í háum gæðaflokki. Ég mæli með að eyða auka tvö þúsund krónum í flösku af sterku víni. Ekki kaupa bara ódýrasta rommið heldur eitthvað aðeins fínna, áfengið er í rauninni drykkurinn sjálfur. Það er svipað og elda steik og kaupa bara ódýrasta kjötið, þú gerir það ekkert. Þótt þú sért með geggjaða maríneringu og flott meðlæti er kjötið samt stjarnan á diskinum.“

Það er óþarfi að eiga heilan skáp af sterku víni og líkjörum til að blanda góðan kokteil. Ivan Svanur mælir með að eiga eina flösku af grunnspíra og á þar við gin, romm, tekíla, vodka eða bourbon-viskí. „Ég segi líka alltaf við gesti Kokteilaskólans að ákveða fyrir fram hvað þú ætlar að gera. Ef þú ert búin að ákveða að fá vinkonurnar í heimsókn og búin að ákveða að gera espresso-martini þá þarftu ekki að kaupa mintu og romm. Þú þarft bara að kaupa kaffilíkjör og vodka, svo býrðu bara til espresso. Þetta er ekkert flóknara en það,“ segir Ivan Svanur og mælir með að eiga góð baráhöld en bendir á að þau þurfi ekki að vera af dýrustu sort.

Konan fær óáfengan þessi jólin

„Ég var að vinna í eldhúsi og fannst mjög gaman að búa til mat. Ég var ekki kokkur en aðstoðarmaður. Ég þjónaði samhliða og fannst það líka ótrúlega skemmtilegt. Ég gat eiginlega ekki ákveðið hvoru ég ætti að einbeita mér að í lífinu. Þjónustan fannst mér pínu þurr en mér fannst vanta samskiptin við fólk í matreiðslunni, var lokaður inni í eldhúsi að elda allan daginn. Mér fannst þetta sameina þessa tvo þætti. Þú ert að búa til hluti í höndunum, vinna með hráefni og færð að vera með fólkinu í partíinu,“ segir Ivan Svanur þegar hann er að lokum spurður hvernig hann leiddist út í að verða barþjónn og búa til kokteila.

Ivan Svanur er ekki bara góður í að blanda kokteila, hann er líka liðtækur í eldhúsinu á jólunum. „Ég og Ásthildur konan mín, sem er með mér í Kokteilaskólanum, vorum bara tvö í fyrra út af kórónuveirufaraldrinum. Ég sá um að elda andabringur, mér finnst gaman að elda og vinna með höndunum,“ segir Ivan.

Þau Ivan og Ásthildur eiga von á barni og ætlar Ivan Svanur ekki að hrista áfenga kokteila fyrir konuna sína í ár. Hann segir þó ekkert mál að gera kokteila óáfenga. Hann bendir á að það sé mikið af óáfengu sterku víni í boði í búðum, meðal annars frá Lyres. Það er einfalt að breyta uppskriftunum hans að jólakokteilunum í óáfenga með rétta óáfenga víninu.

Það er sniðugt að vera með allt tilbúið fyrir veislurnar …
Það er sniðugt að vera með allt tilbúið fyrir veislurnar um jólin þannig að fólk geti blandað sjálft. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Uppskriftir

Old Tom X-mas Sour

Kramið bök­un­ar­krydd (t.d. neg­ull, kanill, kar­dimomm­ur)
35 ml Him­brimi Old Tom-gin

25 ml fersk­ur manda­rínusafi

25 ml fersk­ur sítr­ónusafi

20 ml syk­urs­íróp*

rifið múskat

*syk­urs­íróp 600 ml

Við blönd­um sam­an 500 g af sykri og 333 ml af vatni í pott, hit­um upp og hrær­um þar til syk­ur­inn er bráðinn.

Við byrj­um á að setja þurrt bök­un­ar­krydd í hrist­ar­ann og merja það niður í smærri ein­ing­ar með kokteil­merj­ara.

Svo setj­um við öll hin hrá­efn­in, fyr­ir utan múskatið, í hrist­ar­ann, fyll­um hann upp með klaka og hrist­um fast í 10-15 sek­únd­ur. Að lok­um sigt­um við drykk­inn í gegn­um fínt sigti í glas á fæti og ríf­um múskat yfir með rif­járni.

Old Tom X-mas Sour.
Old Tom X-mas Sour. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Riz à l'am­ande

50 ml ljóst romm

15 ml fersk­ur sítr­ónusafi

25 ml möndlus­íróp (möndl­umjólk/​syk­ur)*

½ msk maraschino-síróp**

15 ml aquafaba***

maraschino-ber á pinna

*möndlus­íróp 500 ml

Við blönd­um 300 ml af bragðmik­illi möndl­umjólk sam­an við 300 g af hvít­um sykri, hit­um og hrær­um þar til syk­ur­inn er bráðinn.

**Maraschino-síróp er sírópið úr maraschino-berjakrukku. Ber­in fást á heimasíðu okk­ar, www.kokteila­skól­inn.is , og eru al­veg ómót­stæðileg í kokteil­inn og eft­ir­rétt­inn.

***Aquafaba er vatnið úr kjúk­linga­bauna­dós en það er efnið sem gef­ur drykkn­um þykka froðu á topp­inn. Við sigt­um baun­irn­ar frá og not­um ein­ung­is vatnið úr dós­inni.

Við setj­um öll hrá­efn­in, nema maraschino-berið, í hrist­ar­ann, fyll­um hann upp með klaka og hrist­um kröft­ug­lega í 10-15 sek­únd­ur. Að lok­um sigt­um við drykk­inn í gegn­um fínt sigti í glas á fæti, þræðum ber á kokteilp­inna og leggj­um á barma glass­ins.

Riz à l’amande-kokteill.
Riz à l’amande-kokteill. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is