Dóttirin kemur heim frá Ástralíu

Uppskriftir | 23. desember 2023

Dóttirin kemur heim frá Ástralíu

Hannes Birgir Hjálmarsson kennari og ástríðukokkur verður með alla fjölskylduna í mat á aðfangadagskvöld. Önnur dóttir hans er grænmetisæta og eins og góðum föður sæmir ætlar hann að töfra fram hátíðargrænmetisrétt sérstaklega fyrir hana.

Dóttirin kemur heim frá Ástralíu

Uppskriftir | 23. desember 2023

Hannes Birgir Hjálmarsson elskar að elda fyrir sína nánustu.
Hannes Birgir Hjálmarsson elskar að elda fyrir sína nánustu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hannes Birgir Hjálmarsson kennari og ástríðukokkur verður með alla fjölskylduna í mat á aðfangadagskvöld. Önnur dóttir hans er grænmetisæta og eins og góðum föður sæmir ætlar hann að töfra fram hátíðargrænmetisrétt sérstaklega fyrir hana.

Hannes Birgir Hjálmarsson kennari og ástríðukokkur verður með alla fjölskylduna í mat á aðfangadagskvöld. Önnur dóttir hans er grænmetisæta og eins og góðum föður sæmir ætlar hann að töfra fram hátíðargrænmetisrétt sérstaklega fyrir hana.

„Ég man ekki eftir mér öðruvísi en að vera að elda. Ég nýt þess að borða en ekki síst elda fyrir mína nánustu. Ég segi að leynihráefnið sé ást. Ef maður eldar af ást þá verður maturinn alltaf betri,“ segir Hannes Birgir þegar hann er spurður út í áhugann á matargerð.

Hannes Birgir er skapandi í eldhúsinu og segir leiðinlegt að fara eftir uppskrift. Ítölsk matargerð heillar og fyrir nokkrum árum byrjaði hann að baka, nokkuð sem hann hélt að hann myndi aldrei gera. „Ég hafði aldrei treyst mér í það áður,“ segir hann. Hannes Birgir heldur líka í gamlar hefðir og eldar iðulega sunnudagslæri eða -hrygg og býður fjölskyldunni í mat.

Hvað eruð þið með í matinn á jólunum?

„Við erum með mjög hefðbundinn jólamat; hamborgarhrygg. Með því erum við með brúnaðar kartöflur, grænar baunir, rauðkál og góða sósu. Þetta er það sem ég sé um. Halla Sigrún Arnardóttir eiginkona mín sér um rækjukokteil í forrétt. Svo er frómas í eftirrétt og í honum er ein mandla og möndlugjöf. Við höldum í allar þessar hefðir.“

Hluti af því að leggja ást í matinn

Þau Hannes Birgir og Halla Sigrún voru vön að fara í svokallaða jólasveinaleiðangra með jólapakkana á aðfangadag. Nú hafa börnin þeirra þrjú tekið við og á meðan fá hjónin tíma til þess að sinna matargerðinni.

Grænkerinn Halla Kristín býr í Ástralíu en kemur heim um jólin. Halla Kristín flutti til Ástralíu eftir að hún kynntist áströlskum manni í háskóla á Íslandi. Nú eiga þau tvö börn saman og mikill spenningur að fá fjölskylduna til Íslands.

„Þegar við höfum verið með grænkera í mat höfum við prófað sveppa-wellington, vegan hamborgarhrygg og vegan hangikjöt en núna ákvað ég að gera sveppaböku sem má segja að minni á sveppa-wellington. Halla Kristín fær sveppabökuna sem aðalrétt en við hin höfum réttinn sem meðlæti.“

Hannes Birgir segir lítið mál að bæta við aukarétti fyrir dóttur sína. „Þetta er hluti af því að leggja ást í matinn, þá fer maður bara og athugar hvernig hægt er að leysa málin.“

Hannes Birgir og Halla Sigrún hafa prófað að dvelja í Ástralíu yfir jólin. „Við fórum þangað einu sinni yfir jól. Það var svolítið öðruvísi. Við fundum eitthvað sem var líkt hamborgarhrygg, við gerðum það til að halda í okkar hefðir. Við vorum líka með grillaðar risarækjur,“ segir Hannes Birgir sem ætlar að bjóða upp á það yfir jólahátíðina. Hann segir hefð að grilla risarækjur um jólin í Ástralíu og þá jafnvel á ströndinni enda sumar hinum megin á hnettinum.

Sveppabakan er girnilega og bragðgóð.
Sveppabakan er girnilega og bragðgóð.

Best að hlusta á jólatónlist í eldhúsinu

Hefur eitthvað farið úrskeiðis í eldhúsinu um jólin?

„Jájá! Ég hef til dæmis brennt uppstúf. Þá þurfti ég að byrja upp á nýtt í nýjum potti. Sem betur fer voru til aukakartöflur. Hver einustu jól spyr ég líka: hvernig brúnar maður kartöflur? Ég geri þetta svo sjaldan að ég þarf alltaf að rifja það upp.“

Ertu með eitthvert gott ráð í eldamennskunni um jólin?

„Það er að vera með dúndrandi jólatónlist þegar maður er að elda til að koma sér í jólaskapið. Husta á James Brown og Elvis Presley, það er það allra besta.“

Hátíðarsveppabaka

  • 250 g íslenskir flúðasveppir – skornir í tvennt og svo sneiðar
  • 200 g kastaníusveppir – skornir smátt
  • ½ laukur (eða 1 lítill) – smátt skorinn
  • 1 ferskur rauður chili-pipar – fræhreinsaður og skorinn smátt
  • 25 ml púrtvín (má sleppa)
  • 3 hvítlauksrif – pressuð
  • ½ tsk. salt
  • ½ tsk. svartur pipar
  • 1 msk. steinselja og til skreytingar á böku
  • 40 ml rjómi
  • 1 tsk. hunang
  • ólífuolía
  • smjör
  • 1 egg
  • Smjördeig
  1. Steikið sveppi á pönnu með olíu og smjöri.
  2. Bætið lauk við, chili-pipar og hvítlauk ásamt salti og pipar.
  3. Lækkið á lægsta hita.
  4. Púrtvíni og rjóma er að lokum bætt út í ásamt hunangi.
  5. Setjið í eldfast mót og smjördeig sett yfir. Penslið með eggjahræru.
  6. Sett í ofn á 180 gráður í 15 til 20 mínútur og skreytt með steinselju.

Hátíðarsósa Hannesar – passar með sveppaböku og hamborgarhrygg

  • 3 dl vatn
  • 45 g suðusúkkulaði
  • 40 g gráðostur
  • ½ tsk. salt
  • 2-3 msk. chili-sulta
  • 1 dl rjómi
  • sósujafnari eftir þörfum og smekk
  1. Setjið allt nema chili-sultu, rjóma og sósujafnara í pott.
  2. Hrærið vel á meðan hitnar þar til súkkulaði og gráðostur bráðnar.
  3. Þá er chili-sultu bætt við (gott að smakka til).
  4. Sósujafnara er síðan bætt við (2-3 msk. er fínt, þá verður sósan ekki of þykk). Hrærið mjög vel undir suðu.
  5. Slökkvið á hellunni áður en bera á fram, bætið rjóma út í og munið að hræra!
mbl.is