„Maðurinn minn og ég höfum oft haft opið hús á Þorláksmessu“

Jóla jóla ... | 22. desember 2022

„Maðurinn minn og ég höfum oft haft opið hús á Þorláksmessu“

Eldamennska er það skemmtilegasta sem Edda S. Jónasdóttir veit en hún er höfundur bókarinnar Eftirlætisréttir Eddu. Hún segir ómissandi hluta af jólunum að gefa vinum og vandamönnum gómsæt sætindi í aðdraganda jólanna.

„Maðurinn minn og ég höfum oft haft opið hús á Þorláksmessu“

Jóla jóla ... | 22. desember 2022

Edda Jónasdóttir elskar að búa til mat.
Edda Jónasdóttir elskar að búa til mat. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eldamennska er það skemmtilegasta sem Edda S. Jónasdóttir veit en hún er höfundur bókarinnar Eftirlætisréttir Eddu. Hún segir ómissandi hluta af jólunum að gefa vinum og vandamönnum gómsæt sætindi í aðdraganda jólanna.

Eldamennska er það skemmtilegasta sem Edda S. Jónasdóttir veit en hún er höfundur bókarinnar Eftirlætisréttir Eddu. Hún segir ómissandi hluta af jólunum að gefa vinum og vandamönnum gómsæt sætindi í aðdraganda jólanna.

„Ég er alin upp við rjúpur og frómas frá mömmu sem ég gerði sjálf þegar ég byrjaði að búa. Á aðfangadag förum við í mat til barnanna,“ segir Edda sem segir dásamlegt að vera boðið í mat.

Eldhúshæfileikar Eddu fá að njóta sín alla aðra daga og fá vinir að njóta þess á aðventunni.

„Ég baka kannski 25 stykki af döðlubrauðunum sem eru í bókinni minni og færi vinum mínum og segi gleðileg jól. Ég fer líka með til þeirra sem hafa hjálpað mér eða hafa átt um sárt að binda. Þetta hef ég gert í mörg, mörg ár. Ég fer líka oft með hnetur í krukku en ég baka undantekningarlaust döðlubrauð í massavís. Þetta er svona minn jólasiður.“

Sörubakstur með góðri vinkonu er líka órjúfanlegur hluti af undirbúningi jólanna hjá Eddu en ekki endilega vegna þess að smákökurnar séu í uppáhaldi hjá henni.

„Það er samveran með vinkonu minni sem er aðalmálið, ekki endilega hvað við bökum, við vinkonurnar eyðum deginum saman. Ég tilheyri þremur saumaklúbbum og einn þeirra, sem er bráðum að verða fjörutíu ára gamall, fer alltaf í jólahádegisverð á veitingahúsi. Við byrjum klukkan tólf og sitjum til fjögur eða fimm og trítlum síðan í búðirnar og skoðum jólin í bænum. Maðurinn minn og ég höfum oft haft opið hús á Þorláksmessu af því við búum í miðbænum. Ég hafði reyndar ekki tíma í það í fyrra,“ segir Edda.

Það var sérstaklega mikið að gera fyrir jólin í fyrra en þá gaf Edda út uppskriftabókina sína Eftirlætisrétti Eddu. Edda segir að vinkonur hennar hafi alltaf verið að spyrja hvort hún gæti ekki gefið þeim uppskriftahefti með uppskriftunum sínum. „Þú heftar ekkert í hefti. Þú gerir bók handa þessum stelpum,“ sagði maður Eddu við hana. Edda viðurkennir með mikilli ánægju að verkefnið hafi stækkað töluvert og úr varð vegleg matreiðslubók.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mamma var alveg svakalegur kokkur. Svo fór ég til Seattle sem skiptinemi þegar ég var 17 ára í eitt ár árið 1971 til 1972. Það héldu allir að ég færi í einhverja hamborgara en ameríska mamma mín var alveg þvílíkt flottur kokkur líka. Ég lærði voða mikið af þeim báðum,“ segir Edda um hvernig áhuginn kviknaði en síðan þá hefur eldamennska verið hennar stærsta áhugamál og ver hún öllum lausum stundum í eldhúsinu.

Edda upplifði jól í Bandaríkjunum skiptinemaárið góða og er símtal frá Íslandi sérstaklega minnisstætt.

„Á jólunum var eina skiptið sem mamma og pabbi hringdu í mig og ég náttúrlega bara grenjaði í símann. Annars leið mér rosalega vel þarna og ég var heppin að vera hjá góðu fólki. Konan var sænskættuð þannig að þau voru með aðfangadagskvöld. Langalangamma amerísku mömmu minnar kom frá Svíþjóð. Það gat ekki verið betra.“

Spínatsalat með jarðarberjum er fastur liður á jólunum hjá Eddu og dætrum hennar. Sumum finnst óvenjulegt að bjóða upp á ferskt salat á aðfangadagskvöld en salatinu kynntist Edda þegar hún var skiptinemi.

„Uppskriftin er frá amerísku mömmu minni. Dætur mínar eru aldar upp við þetta. Ég gerði salatið með rjúpunum, það var rosalega gott af því það er sykur í dressingunni,“ segir Edda. Hún segir það passa einstaklega vel með villibráð. Núna borða Edda og fjölskylda hreindýr á jólunum og að sjálfsögðu jarðarberja- og spínatsalatið fræga. Skiptinemaárið svífur því enn yfir vötnum á jólunum hálfri öld eftir heimkomu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Rauðrófumauk

„Til tilbreytingar set ég stundum smátt skorið epli út í maukið áður en ég ber það fram. Maukið ber ég fram með góðu hrökkkexi eða brauði á smáréttahlaðborði á jólunum.“

200 g rauðrófur

2 greinar ferskt dill

40-50 g sólkjarnafræ

1 dl grískt jógúrt

2 msk. sítrónusafi

¼ tsk. sjávarsalt

1 grænt epli gróft í bitum eins og hálfur sykurmoli.

Aðferð

Ef tími er til þá er best að leggja fræin í bleyti yfir nótt. Sjóðið rauðrófurnar þar til þær verða mjúkar, í 45-60 mínútur, fer eftir stærð. Afhýðið þær og skerið í bita þegar þær kólna. Sigtið vatnið frá fræjunum og skolið fræin. Setjið allt í matvinnsluvél og maukað vel saman. Ýmist hef ég þetta grófmaukað eða ég læt vélina ganga þar til maukið er silkimjúkt.

Hnetuæði

„Í jólaísinn minn nota ég hnetuæði. Dætur mínar bæta jafnvel æðinu einnig ofan á ísinn. Eftir að góðgætið er orðið hart sker ég það í bita og mulninginn sem eftir verður nota ég í ísinn.“

250 g suðusúkkulaði

250 g mjólkursúkkulaði

350 g kasjúhnetur, saltaðar

110 g smjör

175 g sykur

3 msk. síróp

Þekið 24x33 sentímetra form með álpappír og smyrjið vel. Súkkulaðið er brotið upp og botninn á forminu þakinn með því.

Aðferð

Blandið saman smjöri, sykri og sírópi í stórri þykkbotna pönnu. Hitið á háum hita, hrærið í af og til þar til smjör og sykur hefur bráðnað. Hrærið stöðugt í þar til blandan verður fallega gyllt á lit. Bætið hnetum út í og lækkið hitann þegar þetta fer að þykkna. (Svipuð aðferð og er notuð við að brúna kartöflur.)

Hnetu-karamellublöndunni er dreift yfir allt súkkulaðið. Kælið þar til góðgætið er orðið að hörðum klumpi. Fjarlægið álpappírinn og brjótið/skerið í mola. Geymið í kæli fram að notkun.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Sírópsbakaðar hnetur

„Þessar hnetur útbý ég alltaf fyrir jólin. Eins og hjá svo mörgum er eins og sólarhringurinn sé styttri á aðventunni og þá er gott að grípa til fljótlegra uppskrifta eins og þessi er.“

¼ dl + 1½ msk. hlynsíróp

¼ dl síróp í flöskum frá Lyles

2 msk. púðursykur

½ tsk. salt

¼ tsk. tabascosósa eða önnur sterk sósa

230 g valhnetur eða pekanhnetur eða blanda af báðum tegundum

Aðferð

Blandið öllu nema hnetunum saman í stórri skál. Hrærið með sleif þar til allt hefur blandast vel saman. Bætið hnetum út í og þekið þær vel með blöndunni. Dreifið hnetunum á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Vökvinn leggst misjafnlega á plötuna en það dreifist úr honum við baksturinn. Bakið við 175°C í 15 til 17 mínútur. Hrærið í með spaða á plötunni allavega einu sinni til að koma í veg fyrir að þær brenni. Fylgist mjög vel með þar sem það gerist mjög hratt að þær ofbakast. Geymist í ísskáp.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ungverska kakan

„Síðustu ár hefur Góa systir mín gert þessa köku fyrir hver jól. Ef ég á að lýsa kökunni þá er hún dásemdar konfektkaka með kaffibragði.“

Botnar

6 eggjahvítur

225 g sykur

1 tsk. cream of tartar frá McCormick

225 g hnetur

Kremið

6 eggjarauður

75 g flórsykur

100 g suðusúkkulaði

100 g smjör, kalt

skyndikaffiduft eftir smekk

1 msk. vatn

Aðferð

Grófsaxið hneturnar. Þeytið eggjahvítur, sykur og cream of tartar þar til deigið „stendur“. Bætið hnetunum út í með sleikju. Þekið tvö 24 cm form með bökunarpappír. Bakið við 160°C í 45 mínútur. Á meðan kakan er í ofninum er kremið útbúið.

Saxið suðusúkkulaðið. Þeytið eggjarauður og flórsykur vel þar til falleg áferð kemur á blönduna. Leysið kaffiduftið upp í einni matskeið af heitu vatni og kælið. Bætið því út í kremið. Það er smekksatriði hve mikið kaffibragð hver og einn vill hafa af kreminu – mér finnst kakan best með frekar sterku kaffibragði. Að lokum er smjörið sett út í í litlum bitum ásamt súkkulaðinu og hrært saman við. Kremið er sett á milli botnanna og ofan á kökuna.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Eggaldin- og tómatbaka

„Þetta er bakan sem er sú allra vinsælasta hjá mínu fólki – dásamleg volg jafnt sem köld. Það er svo gott að hafa grænmetisrétti um jólin líka, ekki bara reykt kjöt og sætindi. Eggaldin drekkur í sig mikla olíu við steikingu þannig að nauðsynlegt er að bæta olíu á pönnuna. Leggið sneiðarnar á eldhúspappír eftir steikingu. Farið gætilega með saltið þar sem salt er í ostunum.“

1 hluti bökudeig

50-100 ml ólífuolía

2 laukar

6 hvítlauksrif

2 x 400 g saxaðir tómatar í dós

1 lítil dós tómatmauk

nokkur fersk basilíkulauf

½ msk. sykur

salt og pipar

1 stórt eggaldin

4 stórir tómatar

200 g mozzarellaostur

100 g ferskur parmesanostur

Aðferð

Saxið laukinn og merjið hvítlaukinn og mýkið í um 2 msk. af olíu. Sigtið safann af tómötunum og bætið þeim út í ásamt tómatmauki, basilíku, sykri, salti og pipar. Sjóðið við vægan hita í 20 mínútur. Skerið eggaldin og tómata í sneiðar. Rífið parmesanostinn. Eggaldinsneiðarnar eru steiktar í olíu þar til þær brúnast aðeins.

Þekið 30 sentímetra smurt bökuform með deiginu. Forbakið botninn í 7 mínútur á 200°C. Setjið tómatfyllinguna á botninn, stráið parmesanosti yfir, síðan eru eggaldinsneiðar settar þar yfir og að lokum tómatsneiðar. Þekið með rifnum mozzarellaosti.

Bakið við 200°C í 30 mínútur eða þar til deigbarmar verða ljósbrúnir.

Skreytið með heilum basilíkublöðum rétt áður en bakan er borin fram.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hægeldaðir tómatar

„Hægeldaðir tómatar eru góðir með nánast öllu.Ég baka alltaf fulla ofnplötu í stóra ofninum mínum.“

18 tómatar

70 g flórsykur

75 ml ólífuolía

salt og pipar

Aðferð

Skerið tómatana í tvennt, raðið á bökunarplötu, skorna hliðin snýr upp. Sigtið sykur jafnt yfir tómatana, dreifið ólífuolíu yfir. Það er hægt að nota venjulegan sykur en flórsykur bráðnar jafnar. Saltið og piprið eftir smekk. Bakið í ofni við 140°C í 3½ klukkustund. Leyfið tómötunum að brúnast aðeins að ofan, þá bragðast þeir best.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Jarðarberja- og spínatsalat

„Mér finnst salatið passa einstaklega vel á jólum þar sem það er rautt og grænt.“

400 g spínat

1-2 öskjur jarðarber

120 ml ólífuolía

100 g sykur

30 ml gott vínedik eða gott eplaedik

½ tsk. rifinn rauðlaukur

2 msk. kalt vatn

2 msk. sesamfræ

1 msk. birkifræ, ljós eða dökk

¼ tsk. gott paprikuduft

¼ tsk. worcestershiresósa

Aðferð

Jarðarberin skorin í sneiðar. Spínat og jarðarber eru sett á stórt fat. Blandið saman því sem eftir er og hellið yfir rétt áður en salatið er borið fram.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Franskar vöfflur

„Ég gaf móður minni oft dós með frönskum vöfflum fyrir jólin. Hjá henni voru kökurnar ekki í boði fyrir hvern sem er.“

Kökur

220 g mjúkt smjör

80 ml rjómi

300 g hveiti

Krem

115 g mjúkt smjör

210 g flórsykur

2 eggjarauður

2 tsk. vanilludropar

rauður og grænn matarlitur

Aðferð

Hrærið saman smjöri, rjóma og hveiti. Kælið að lágmarki í fjóra tíma. Fletjið hluta af deiginu út á hveitistráð borð. Það sem eftir er geymist í ísskáp á meðan verið er að vinna með fyrsta hlutann. Það er nauðsynlegt að deigið sé frekar kalt þegar það er flatt út. Kælið því aftur það sem eftir verður af deiginu þegar búið er að skera út. Þykktin á útflöttu deigi á að vera aðeins ¼ cm.

Þekið bökunarpappír vel með sykri. Skerið litlar kringlóttar kökur út. Það er hægt að gera með glasi eða þar til gerðum formum. Flytjið þær yfir á bökunarpappírinn, snúið hverri köku við með spaða svo hún fái sykur á báðar hliðar. Pikkið með gaffli u.þ.b. þrisvar í hverja köku. Setjið kökurnar á bökunarplötu með bökunarpappír og bakið við 175°C í 8 til 10 mínútur. Gætið þess að ofbaka ekki, þær eiga að vera frekar ljósar.

Skiptið kreminu í tvær skálar. Setjið grænan matarlit í aðra skálina og rauðan í hina. Smyrjið kreminu varlega á eina köku og setjið aðra ofan á. Geymist í kæli eða frysti.

Sjölaga kökur

„Kökurnar eru vinsæl jólagjöf hjá mér. Þær er auðvelt og fljótlegt að búa til og tilvalið að láta ungu kynslóðina aðstoða við baksturinn.“

115 g smjör

130 g heilhveitikex, McVitie's

100 g kókosmjöl

240 g suðusúkkulaði eða súkkulaðidropar

250 g butterscotch-dropar

150 g pekanhnetur

1 dós 397 g niðursoðin (condensed) mjólk

Aðferð

Myljið kexið fínt í matvinnsluvélinni eða setjið það í plastpoka og myljið með kökukefli. Saxið hnetur og suðusúkkulaði frekar gróft eða notið súkkulaðidropa. Bræðið smjörið í forminu og gætið þess að smyrja hliðarnar á forminu með smjöri. Stráið kexinu jafnt yfir smjörið og þrýstið því aðeins ofan í smjörið. Kókosmjölinu er því næst stráð yfir kexið og þar á eftir súkkulaðibitunum og butterscotch-dropunum og síðan hnetunum. Hellið dósamjólkinni jafnt yfir hneturnar. Bakað í 25-27 mínútur við 175°C. Gætið þess mjög vel að ofbaka ekki því þá verður kakan of þurr. Kælið í ísskáp áður en kakan er skorin. Skerið í litla bita. Kökurnar geymast best í frysti en það er allt í lagi að geyma þær í eina til tvær vikur í kæliskáp sé þeim vel pakkað inn í plastfilmu.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is