„Auðvelt að leggjast niður og breyta þessu í eitt stórt partí“

„Auðvelt að leggjast niður og breyta þessu í eitt stórt partí“

Valsmenn unnu Tindastól í fjórða leik úrslitaeinvígis Íslandsmótsins í körfubolta karla í kvöld og liðin þurfa því að mætast í hreinum úrslitaleik á fimmtudag.

„Auðvelt að leggjast niður og breyta þessu í eitt stórt partí“

Úrslitaeinvígi Vals og Tindastóls | 15. maí 2023

Stuðningsmenn Vals fagna í kvöld.
Stuðningsmenn Vals fagna í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Valsmenn unnu Tindastól í fjórða leik úrslitaeinvígis Íslandsmótsins í körfubolta karla í kvöld og liðin þurfa því að mætast í hreinum úrslitaleik á fimmtudag.

Valsmenn unnu Tindastól í fjórða leik úrslitaeinvígis Íslandsmótsins í körfubolta karla í kvöld og liðin þurfa því að mætast í hreinum úrslitaleik á fimmtudag.

Tindastóll gat með sigri í kvöld unnið Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti. Öllu var tjaldað til í troðfullu Síkinu og sjálfur forseti Íslands heiðraði samkomuna.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, gat verið stoltur af sínum leikmönnum eftir leik. Tindastóll virtist ætla að valta yfir Valsmenn og komust heimamenn mest í 17 stiga mun í byrjun annars leikhlutans.

Valsmenn komu sér smám saman inn í leikinn með góðri vörn og Stólarnir hættu alveg að hitta. Valur vann að lokum 82:69 og hafði Finnur þetta að segja eftir leik:

„Þetta leit ekki vel út í byrjun og Stólarnir voru að hitta vel og Sigtryggur Arnar [Björnsson] alveg óstöðvandi. Mér fannst við góðir að halda bara áfram og missa ekki hausinn. Það hefði verið mjög auðvelt að leggjast bara niður og breyta þessu í eitt stórt partí.“

Það er vörnin ykkar sem gerir útslagið. Tindastóll skorar 38 stig í fyrsta leikhluta en aðeins 31 stig eftir það.

„Það sást alveg að það var mikið undir og skotin urðu öðruvísi, eiginlega á báða bóga. Menn hittu ekki vel. Fegurðin fór dálítið úr leiknum og þessi fallega tölfræði fyrir skot og körfur þar sem allt lítur rosalega vel út.

Við höfum spilað góða vörn í vetur og mér fannst við gera það vel í þessum leik. Við náðum að takmarka atriði í þeirra leik eftir fyrsta leikhlutann og náðum svo að mjatla þetta áfram.“

Taiwo Badmus og Kristófer Acox eigast við í kvöld.
Taiwo Badmus og Kristófer Acox eigast við í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Það er einmitt málið. Þið fóruð ekkert á taugum og tókuð þetta í smáum skrefum.

„Það eru fræði sem segja að maður geti bara skorað þrjú stig í hverri sókn, í mesta lagi fjögur. Það var lítið í stöðunni annað en að halda bara áfram og reyna að komast inn í leikinn.“

Fjórði leikur búinn og sá fimmti fram undan. Það má alveg sjá á leikmönnum beggja liða að menn eru lerkaðir og pínu þreyttir. Þið eruð að spila meira og minna á sjö mönnum. Hefur þú áhyggjur af lokaleiknum?

„Nei. Það verður enginn þreyttur á fimmtudaginn. Mér finnst við eiga eitthvað inni frá leikmönnum og ég vil bara fá góða frammistöðu í næsta leik.

Er það ekki draumauppsetning að fá oddaleik í troðfullu Valsheimilinu?

„Það eru viss forréttindi að vera í þessari stöðu. Að standa úti á miðju gólfi með allt þetta fólk í kringum sig.

Ég hef verið heppinn að fá að vera í þessari stöðu áður og maður veit aldrei hvenær það er í síðasta skipti. Svo maður er bara þakklátur og ég hlakka til fimmtudagsins,“ sagði hinn margreyndi þjálfari Vals að lokum.

mbl.is