Seldi hálfan fataskápinn til að eignast draumakápuna

Fatastíllinn | 5. nóvember 2023

Seldi hálfan fataskápinn til að eignast draumakápuna

Rúna Magdalena Guðmundsdóttir, eigandi Hárgallerís á Laugaveginum, er þekkt fyrir fallegan fatastíl. Í dag bætir hún ekki flík við fataskápinn nema losa sig við aðra flík á móti. Rúna er einstaklega sniðug í að grafa upp gullmola í verslunum sem selja notað. 

Seldi hálfan fataskápinn til að eignast draumakápuna

Fatastíllinn | 5. nóvember 2023

Brúna kápan er í miklu uppáhaldi en hún er frá …
Brúna kápan er í miklu uppáhaldi en hún er frá Saks Potts. mbl.is/Árni Sæberg

Rúna Magdalena Guðmundsdóttir, eigandi Hárgallerís á Laugaveginum, er þekkt fyrir fallegan fatastíl. Í dag bætir hún ekki flík við fataskápinn nema losa sig við aðra flík á móti. Rúna er einstaklega sniðug í að grafa upp gullmola í verslunum sem selja notað. 

Rúna Magdalena Guðmundsdóttir, eigandi Hárgallerís á Laugaveginum, er þekkt fyrir fallegan fatastíl. Í dag bætir hún ekki flík við fataskápinn nema losa sig við aðra flík á móti. Rúna er einstaklega sniðug í að grafa upp gullmola í verslunum sem selja notað. 

„Fatastíllinn minn er mjög fjölbreyttur, ég elska vintage-föt og hringrásarkerfið, allt svart eða fullt af bleiku eða hermannagrænum. En fyrst og fremst klæði ég mig eftir tilfinningu hverju sinni og ákveð aldrei „outfit“ fyrirfram en það fer eftir deginum og skapinu,“ segir Rúna Magdalena þegar hún lýsir fatastílnum sínum.

Hefur stíllinn þinn þróast með árunum?

„Já, hann hefur þróast mikið undanfarin ár og í dag snýst þetta allt um hringrásina. Ég kaupi mér einungis flík þegar ég hef selt aðra í staðinn,“ segir Rúna sem á hringrásarverslunina Ekta með dóttur sinni Írenu Líf en þar eru seldar notaðar merkjavörur.

„Tískumistök hafa sannarlega komið fyrir, ég man sérstaklega eftir einum bleikum smekkbuxum sem ég keypti fyrir allar krónurnar mínar 18 ára gömul, en notaði þær svo aldrei. Ef eitthvað er tek ég meiri áhættu með árunum, er ekki hrædd við að tjá mig með fatastílnum og hefur áhugi minn á fötum og hönnun einungis aukist.“

Stutt kápa frá Saks Potts sem Rúna fann í Hringekjunni.
Stutt kápa frá Saks Potts sem Rúna fann í Hringekjunni. mbl.is/Árni Sæberg

Er eitthvað sem þú ert sérstaklega veik fyrir?

„Ég er einstaklega veik fyrir yfirhöfnum, það er ekkert betra en að klára fatavalið með geggjaðri yfirhöfn. Svo er ég mjög veik fyrir öllu frá vörumerkinu Aftur og allt vintage Christian Dior er í miklu uppáhaldi.“

Rúna er hrifin af eldri hönnun Dior en þessi taska …
Rúna er hrifin af eldri hönnun Dior en þessi taska er einmitt gömul Dior-taska mbl.is/Árni Sæberg
Hundurinn Skuggi er ánægður með Rúnu sína sem keypti þennan …
Hundurinn Skuggi er ánægður með Rúnu sína sem keypti þennan Aftur-kjól notaðan í Ekta.Store. mbl.is/Árni Sæberg

Áttu uppáhaldsflík?

„Brúna Saks Potts-kápan mín sem ég seldi hálfan fataskápinn til þess að eignast.“ 

Hvað keyptir þú þér síðast?

„Ég fékk mér vintage Sonia Rykiel-seðlaveski og Vic Matie-stígvél frá Ekta.store.“

Seðlaveski frá Sonia Rykiel keypti Rúna notað
Seðlaveski frá Sonia Rykiel keypti Rúna notað mbl.is/Árni Sæberg

Elskar að ráfa um og skoða notað

Hvar finnst þér skemmtilegast að versla?

„Mér finnst æði að skoða vintage á netinu og versla þar, en veit ekkert skemmtilegra en að vera erlendis að skoða mismunandi vintage-búðir og get gleymt mér þar tímunum saman. Um helgar hérlendis er ekkert betra en að taka rúnt og kíkja í Verzlanahöllina og Hringekjuna, þar hef ég fundið alls konar gersemar.“ 

Manstu eftir einhverjum sérstaklega góðum kaupum?

„Fyrsta sem mér dettur í hug er fjálublá vintage Louis Vuitton-taska sem ég fann í Verzlanahöllinni. Þar næst er fallegasti pels sem ég hef séð, en hann fann ég í London, ég vona að ég verði einhvern tímann svona heppin í kaupum aftur.“

Fjálublá taskan frá Louis Vuitton en hún er smart og …
Fjálublá taskan frá Louis Vuitton en hún er smart og öðruvísi. mbl.is/Árni Sæberg
Pelsinn var Rúna svo heppin að finna í London.
Pelsinn var Rúna svo heppin að finna í London. mbl.is/Árni Sæberg

Áttu uppáhaldsmerki eða -hönnuð?

„Aftur, það er í uppáhaldi. Svo hef ég alltaf haldið mikið upp á Anine Bing.“

Er eitthvað á óskalistanum fyrir veturinn?

„Mig vantar góða vetrarskó og vonast eftir að finna þá fyrir veturinn.“

Síði pelsinn er fjársjóður sem Rúna fann í Madrid.
Síði pelsinn er fjársjóður sem Rúna fann í Madrid. mbl.is/Árni Sæberg

Leggur áherslu á náttúrulegt útlit

Hvert er ódýrasta fegrunarráðið?

„Fyrir mér er það svefn. Svo líður mér aldrei jafn vel og þegar ég er nálægt sjó eða vatni, mæli einstaklega með sjósundi eða kalda pottinum. Ég hef verið að hlusta mikið á Barbara O'Neill en hún kynnti mér Castor-olíu, það bjargar alveg húðinni og það er eitt ódýrasta fegrunarráð sem ég get gefið.“

Hvað er að finna í snyrtibuddunni þinni?

„Ég dýrka merkin Youth to the People og Rare Beauty. Ég farða mig lítið en þá reyni ég að nota hrein og góð vörumerki. Ég nota líka Charlotte Tilbury, sérstaklega varalitinn svo hann fylgir mér alltaf í snyrtibuddunni. Sumarilmurinn Solstice frá Andreu Maack fylgir mér alltaf líka.“

Hvernig málar þú þig þegar þú ferð út í daginn?

„Alltaf eins, lítið og sem náttúrulegast. Ég set á mig C-vítamín og gott rakakrem, svo Rare Beauty Tinted Moisturizer, Rare Beauty Bronzer Stick, kinnalit, smá maskara og smá varalit. Ég elska líka að halda góðum raka í húðinni og spreyja La Roche-Posay Thermal Spring Water-andlitsúða. Þegar ég fer eitthvað fínt bæti ég kannski eyeliner við.“

Uppáhaldssnyrtivörur Rúnu.
Uppáhaldssnyrtivörur Rúnu. mbl.is/Árni Sæberg

Hitavörn er nauðsynleg

„Fyrir ári fór ég í bráðaaðgerð og þar af leiðandi féllu þó nokkur hár af höfðinu vegna álags, ég klippti það stutt og byrjaði upp á nýtt. Ég nota K18 og Olaplex frá Hárgalleríi og Nourkrin-vítamín fyrir konur sem ég mæli með! Húðin hefur aldrei verið betri eftir að ég fór að lesa mér til um alls konar vörumerki og hvað það er mikilvægt að passa upp á svefn, næringu og vatn þar sem skortur á því getur valdið vandamálum sem birtast í húðinni og hárinu, það er líka gott að læra á sína eigin húð. Yinyoga hefur líka haldið andlegri heilsu minni í jafnvægi, það hjálpar til með kvíða, stress og spennu. Það hjálpar mér líka líkamlega þar sem ég er með liðagigt,“ segir Rúna.

Hvað gerir þú til að halda hárinu líflegu á veturna?

„Ég nota djúpnæringu til að hárið fái sem mestan raka, og umfram allt nota ég góð sjampó, næringu og hárolíu. Ein hárvara sem er nauðsynleg til að passa upp á hárið er hitavörn, en sú frá Maria Nila er geggjuð.“

Áttu uppáhaldshárvöru?

„Í dag er það K18-sjampó og hármaskinn. Eftir að ég kynntist því hef ég horft á hárið á mínum nánustu síkka og þykkna og verða heilbrigðara en nokkru sinni fyrr.“

Ert þú sérstaklega heit fyrir einhverju í hártískunni í vetur?

„Ég fíla bæði mjúkar línur og fallegan náttúrulegan hárlit eða geggjaða pönkaða „wolf cut“. Mér finnst látlaus „bob“ búin að ráða svolítið ríkjum í sumar, sem ég elska!“

Rúna heldur mikið upp á íslenska merkið Aftur en þessi …
Rúna heldur mikið upp á íslenska merkið Aftur en þessi galli er einmitt þaðan. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is