Hugðust nýta COP28 til olíusamninga

Loftslagsvá | 27. nóvember 2023

Hugðust nýta COP28 til olíusamninga

Stjórnvöld Sameinuðu arabísku furstadæmanna lögðu að sögn BBC á ráðin um að notfæra sér loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, sem hefst í Dúbaí á fimmtudaginn og stendur til 12. desember, til að ná samningum um olíu- og gasviðskipti við fulltrúa fimmtán af þeim 167 ríkjum sem senda fulltrúa sína á ráðstefnuna.

Hugðust nýta COP28 til olíusamninga

Loftslagsvá | 27. nóvember 2023

Dr. Sultan Ahmed al-Jaber talar á alþjóðlegu olíusýningunni í Abú …
Dr. Sultan Ahmed al-Jaber talar á alþjóðlegu olíusýningunni í Abú Dabí í byrjun október. BBC hefur undir höndum skjöl sem sýna ráðabrugg doktorsins og samstarfsmanna hans um að lauma viðskiptaumræðum um jarðefnaeldsneyti inn í fundadagskrá þjóðarleiðtoga er sækja COP28 í Dúbaí. AFP/Bryan Bedder

Stjórnvöld Sameinuðu arabísku furstadæmanna lögðu að sögn BBC á ráðin um að notfæra sér loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, sem hefst í Dúbaí á fimmtudaginn og stendur til 12. desember, til að ná samningum um olíu- og gasviðskipti við fulltrúa fimmtán af þeim 167 ríkjum sem senda fulltrúa sína á ráðstefnuna.

Stjórnvöld Sameinuðu arabísku furstadæmanna lögðu að sögn BBC á ráðin um að notfæra sér loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, sem hefst í Dúbaí á fimmtudaginn og stendur til 12. desember, til að ná samningum um olíu- og gasviðskipti við fulltrúa fimmtán af þeim 167 ríkjum sem senda fulltrúa sína á ráðstefnuna.

Meðal þeirra sem boðað hafa komu sína eru Frans páfi og Karl Englandskonungur en eftir því sem breska ríkisútvarpið BBC kveðst hafa heimildir fyrir, af skjölum sem lekið var út, hafa dr. Sultan Ahmed al-Jaber, forseti ráðstefnunnar í ár, og samstarfsmenn hans ráðlagt og gert skriflegar áætlanir um viðskiptaviðræður við fulltrúa allt að fimmtán ríkja sem fyrr segir, þar á meðal Þýskalands, Kína og Egyptalands.

„Umræðupunktar“ á minnisblöðum

Í skjölunum leknu, sem eru eins konar minnisblöð, megi sjá svokallaða umræðupunkta, „talking points“ sem BBC kallar, sem snúist um ýmis tilboð frá Adnoc, ríkisolíufyrirtæki Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Meðal þess sem punktarnir snúist um sé tilboð til kínverskra stjórnvalda um að Adnoc sé allt af vilja gert til að íhuga með Kínverjum möguleika á jarðgasvinnslu í Ástralíu, Kanada og Mósambík.

Bráðnandi ísjaki á reki í Scoresby-sundi við Grænland 16. ágúst. …
Bráðnandi ísjaki á reki í Scoresby-sundi við Grænland 16. ágúst. Loftslagsráðstefnan COP28 stendur nú fyrir dyrum í Dúbaí, tveggja vikna umræður sem síðustu ár hafa vakið skiptar skoðanir hvað gagnsemi snertir. AFP/Oliver Morin

Þá standi til að tilkynna kólumbískum ráðherra að Adnoc sé reiðubúið að aðstoða Kólumbíu við að þróa vinnslu jarðefnaeldsneytis í Suður-Ameríkuríkinu. Auk þessa séu viðræður á prjónunum við fulltrúa 20 ríkja um ýmis viðskiptatækifæri tengd Masdar, ríkisfyrirtæki furstadæmanna sem sinnir þróun og vinnslu endurnýjanlegra orkugjafa.

Að sögn BBC voru minnisblöðin undirbúin sem hjálpargögn fyrir dr. al-Jaber fyrir viðræður við þjóðarleiðtogana en auk þess að veita COP28 forsæti er hann stjórnarformaður Adnoc og talar því tveim tungum á ráðstefnunni gangi áætlanir gestgjafa ráðstefnunnar eftir.

„Einfaldlega ósatt“

Þá kveðast fréttamenn BBC einnig hafa fengið að sjá tölvupósta til starfsmanna ráðstefnunnar þar sem brýnt sé fyrir þeim að umræðupunktarnir frá Adnoc og Masdar verði alltaf að vera til staðar á minnisblöðunum fyrir þau ríki sem ætlunin sé að sverma fyrir.

Neita umræddir starfsmenn því staðfastlega, að sögn BBC, að hafa móttekið nokkur fyrirmæli á borð við þau sem ríkisútvarpið breska fjallar um og kveða það „einfaldlega ósatt“ svo notuð séu þeirra eigin orð.

Kýrhræ í þorpinu Hargududo í Eþíópíu í fyrravor þar sem …
Kýrhræ í þorpinu Hargududo í Eþíópíu í fyrravor þar sem þurrkur og hiti eirir engu. AFP/Eduardo Soteras

Hafa fulltrúar Sameinuðu arabísku furstadæmanna þegar fundað með fulltrúa fjölda ríkja nú áður en ráðstefnan sjálf hefst og tjá þeir fyrrnefndu BBC að þar hafi verið um einkafundi að ræða. Vísa þeir því ekki á bug að jarðefnaeldsneytisviðskipti hafi verið rædd en gefa annars ekkert upp, „einkafundir eru einkafundir“ hefur BBC eftir talsmanni gestgjafanna.

Fulltrúar tólf ríkja sem BBC hefur sett sig í samband við segja hins vegar að annaðhvort hafi engar umræður viðskiptalegs eðlis átt sér stað á fundum þeirra eða fundirnir hafi hreinlega fallið niður og ekki verið haldnir.

Óttast að ekkert komi út úr viðræðum

Miðað við reglur SÞ um framgang COP-ráðstefnanna er það alvarlegt brot gegn þeim að forseti ráðstefnu geri reka að einhvers konar viðskiptum milli þjóða meðan á dagskrá ráðstefnunnar stendur.

Skógareldar í Evrópu og víðar síðustu sumur hafa geisað af …
Skógareldar í Evrópu og víðar síðustu sumur hafa geisað af áður óþekktum krafti og tjón vegna þeirra og annarra veðurtengdra öfga hlaupið á löngum talnarunum. Slökkviliðsþyrlur demba vatni yfir skógareld nærri Alexandroupoli í Norður-Grikklandi 21. ágúst í sumar. AFP/Sakis Mitrolidis


Manuel Pulgar-Vidal, forseti COP20 í Perú árið 2014, hefur viðrað áhyggjur sínar af því að glatist traustið gagnvart heilindum COP28 gæti það orðið til þess að ekkert komi út úr loftslagsviðræðunum á ráðstefnunni í Dúbaí. „Forseti COP er leiðtogi heimsins, honum er ætlað að skapa samhljóm meðal allrar plánetunnar,“ sagði Pulgar-Vidal við BBC.

BBC

BBCII (COP28 „augnablik sannleikans“)

BBCIII (umdeilt að halda COP28 í Dúbaí)

The National (sitt sýnist hverjum um gagnsemi COP-ráðstefna)

mbl.is