Stjórnmálaflokkar N-Írlands velja sér ráðherra í nýja ríkisstjórn

Mitchel McLaughlin, formaður þingflokks Sinn Fein, (t.v.), Gerry Adams, leiðtogi …
Mitchel McLaughlin, formaður þingflokks Sinn Fein, (t.v.), Gerry Adams, leiðtogi Sinn Fein og Martin McGuinness, helsti samningamaður Sinn Fein. AP

Stjórnmálaflokkar kusu í dag ráðherra í fyrstu ríkisstjórn Norður-Írlands. Tíu ráðherrar verða í ríkisstjórninni og munu þeir koma úr röðum mótmælenda og kaþólskra, þar með talið úr Sinn-Fein, stjórnmálaflokki Írska lýðveldishersins (IRA).

Reg Empey, úr flokki sambandssinna Ulster, var fyrstur til að hljóta tilnefningu í embætti ráðherra með fjárfestingum og fyrirtækjarekstri. Því næst var Mark Durkan, úr flokki SDLP sem er flokkur hófsamra kaþólikka, tilnefndur í embætti fjármálaráðherra og Peter Robinson, úr flokki Lýðræðissinnaðra sambandssinna, sem ráðherra þróunarmála á N-Írlandi. Sú tilnefning sem kom næst er líklega sú umdeildasta en það var útnefning Martin McGuinness, helsta samningamanns Sinn Fein og meints fyrrverandi yfirmanns í IRA, í embætti menntamálaráðherra. Sambandssinninn Sammy Foster var tilnefndur í embætti umhverfisráðherra og Sean Farren úr SDLP var skipaður í embætti ráðherra framhaldsmenntunar og atvinnumála. Michael McGimpsey, einn helsti maður í samninganefnd undir stjórn David Trimble, var tilnefndur í embætti ráðherra menningarmála, lista og tómstunda. Bairbre de Brun, úr Sinn Fein, var valin í embætti heilbrigðis- og félagsmálaráðherra. Hún er önnur tveggja kvenna í ríkisstjórninni. Hin konan er úr flokki SDLP, Brid Rodgers, og var hún valin í embætti landbúnaðarráðherra. Nigel Dodds, úr flokki sambandssinna, var valinn ráðherra þjóðfélagsþróunar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert