Vopnum Írska lýðveldishersins hefur verið eytt

Nafn IRA er víða málað á hús og veggi í …
Nafn IRA er víða málað á hús og veggi í Belfast á Norður-Írlandi. AP

Alþjóðlegir vopnaeftirlitsmenn munu tilkynna á morgun, að vopnum Írska lýðveldishersins (IRA), helstu samtökum herskárra aðskilnaðarsinna á Norður-Írlandi, hafi verið eytt. Er þetta mikilvægur áfangi í friðarferlinu á Norður-Írlandi. Boðað hefur verið til blaðamannafundar í Belfast á morgun og að sögn aðstoðarmanns kanadíska fyrrum hershöfðingjans John de Chastelain, sem hefur stýrt vopnaeftirlitsnefndinni, verða þar birtar nákvæmar upplýsingar um málið.

Aðstoðarmaðurinn, sem vildi ekki láta nafns síns getið, sagði að mörgum tonnum af vopnum hefði verið eytt á leynilegum stað á Írlandi á undanförnum viku. Aðstoðarmaðurinn sagði, að IRA hefði leyft tveimur prestum að fylgjast með vopnaeyðingunni sem embættismenn frá Kanada, Finnlandi og Bandaríkjunum sáu um.

Báðir prestarnir, sr. Harold Good, fyrrum forseti meþódistakirkjunnar á Írlandi, og sr. Alex Reid, kaþólskur prestur sem er náinn vinur Gerry Adams, leiðtoga stjórnmálaflokksins Sinn Féin, muna gefa yfirlýsingar á fundinum að sögn aðstoðarmannsins. Einnig er von á yfirlýsingum frá ríkisstjórnum Bretlands og Írlands, frá Adams og stjórn IRA, á næsta sólarhring.

Tregða IRA til að afvopnast hefur verið helsti Þrándur í Götu friðarferlisins á Norður-Írlandi. Vopnaeyðingin nú nægir væntanlega ekki til að endurvekja heimastjórn Norður-Írlands, sem sett var á fót í kjölfar friðarsamkomulags árið 1998 en forsenda þess samkomulags var að IRA afvopnaðist fyrir maí 2000. Bresk stjórnvöld sviptu heimastjórnina völdum eftir að deilur innan hennar gerðu hana óstarfhæfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert