Herská samtök mótmælanda á Norður-Írlandi boða afvopnun

Varnarbandalag Ulsters (UDA) lýsti því yfir í dag að það væri hætt vopnuðum aðgerðum og myndi leggja sitt að mörkum til að allir herskáir hópar í landinu afvopnist. UDA eru öflugustu herskáu samtök mótmælanda á Norður-Írlandi.

Tommy Kirkham, talsmaður pólitísks arms UDA, sagði í dag á minningarathöfn um hermenn sem féllu í fyrri heimsstyrjöldinni, að frá og með deginum í dag muni bandalagið hætta öllum hernaði og þess í stað leggja sitt að mörkum við félagslega og efnahagslega uppbyggingu Norður-Írlands.

Paul Murphy, Norður-Írlandsmálaráðherra bresku stjórnarinnar, sagði á föstudag að hann væri þess fullviss að UDA væri reiðubúið að breyta um stefnu. Fyrir þremur árum lýstu bresk stjórnvöld því yfir, að UDA virti ekki lengur vopnahlé en að undanförnu hefur Murphy átt viðræður við háttsetta félaga í bandalaginu.

UDA og systursamtökunum Frelsishetjum Ulsters er kennt um dauða allt að 400 kaþólikka á síðustu þremur áratugum. Að mestu tókst að stöðva ofbeldisverkin með friðarsamkomulagi árið 1998 þótt UDA og aðrir hópar, svo sem Írski lýðveldisherinn, helstu vopnuðu samtök kaþólikka, hafi ekki afvopnast.

Í byrjun nóvember fullyrti eftirlitsnefnd með friðarsamkomulaginu, að UDA hefði breyst í samtök sem stunduðu skipulagða glæpastarfsemi af ýmsu tagi og væru fullfær um að standa fyrir ofbeldisverkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert