Sinn Féin á undir högg að sækja í Bandaríkjunum

Gerry Adams ávarpar hóp írskættaðra Bandaríkjamanna í Cincinnati á laugardag.
Gerry Adams ávarpar hóp írskættaðra Bandaríkjamanna í Cincinnati á laugardag. AP

Bandarískir embættismenn hafa bannað írska stjórnmálaflokknum Sinn Féin að safna fé í Bandaríkjunum meðan fulltrúar flokksins eru þar í heimsókn í tilefni af degi heilags Patreks. Stjórnvöld í Washington þrýsta á flokkinn að slíta tengsl sín við Írska lýðveldisherinn (IRA) á Norður-Írlandi að sögn breska blaðsins The Times.

Bandarískir embættismenn létu leiðtoga Sinn Féin, sem er stjórnmálaarmur IRA, vita af því að tilraunir til að safna fé meðal bandarískra stuðningsmanna flokksins yrðu ekki liðnar.

Sinn Féin hefur átt erfitt uppdráttar upp á síðkastið vegna glæpa, sem IRA er kennt um, m.a. bankarán í Belfast fyrir jól og morð á Robert McCartney, kaþólskum tveggja barna föður í Belfast í janúar.

Fjölskylda McCartneys hefur sakað félaga í IRA um morðið og vill að þeir verði dregnir fyrir dóm. IRA hefur boðist að skjóta hina seku en lögregla hefur ekki komist áfram með rannsókn málsins vegna skorts á sönnunargögnum.

Árið 2000 var breskum stjórnmálaflokkum, nema norður-írskum flokkum, bannað að safna fé í útlöndum. Norður-írsku flokkunum, Sinn Féin þar á meðal, var einnig leyft að halda nöfnum þeirra sem lögðu fram fé leyndum af öryggishagsmunum.

The Times sagði að Sinn Féin hefði aflað 15-20 milljóna punda í Bandaríkjunum frá því Bill Clinton, þáverandi Bandaríkjaforseti, aflétti banni við slíkum fjársöfnunum árið 1995. Sinn Féin má hins vegar ekki, frekar en aðrir flokkar í írska lýðveldinu, taka við framlögum frá stuðningsmönnum erlendis.

Gerry Adams, leiðtogi Sinn Féin, er í heimsókn í Bandaríkjunum og þar hefur hann fengið kuldalegar móttökur. George W. Bush, Bandaríkjaforseti, neitaði að ræða við hann og fulltrúar Sinn Féin fá ekki að taka þátt í hátíðahöldum í tilefni af degi heilags Patreks í Washington. Bush mun hins vegar eiga fund í vikunni með systrum Roberts McCartneys.

Edward Kennedy, öldungadeildarþingmaður, aflýsti einnig fyrirhuguðum fundi með Adams. Þeir Kennedy og Adams hafa átt árlega fundi frá árinu 1998 þegar samkomulag um friðarferli á Norður-Írlandi var gert, en talsmaður Kennedys sagði að enginn fundur yrði í ár vegna glæpaverka IRA.

Þá kom fram í bandarískum fjölmiðlum að Peter King, öldungadeildarþingmaður, sem hefur verið helsti stuðningsmaður Sinn Féin á Bandaríkjaþingi, hafi hvatt til þess að IRA verði leyst upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert