Alþjóða ólympíunefndin óánægð með auglýsingar í kosningabaráttu Bush

Æðstu fulltrúar Alþjóða ólympíunefndarinnar (IOC) eru ævareiðir vegna þess að nafn Ólympíuleikanna hefur verið notað í kosningaherferð vegna framboðs George W. Bush, Bandaríkjaforseta, sem sækist eftir endurkjöri í kosningum vestra í haust. Gerhard Heiberg, yfirmaður markaðsmála hjá IOC, reyndi þó að gera sem minnst úr málinu í dag. Hann sagði að nefndin vildi að birtingu viðkomandi auglýsinga yrði hætt.

„Við fylgjumst með framvindu mála og vonum að herferðinni verði hætt,“ sagði Heiberg. „Bandaríska ólympíunefndin er að skoða málið. Við eigum einkarétt á nafninu og enginn hefur beðið um leyfi,“ bætti hann við.

Undir niðri kraumar þó í mönnum í nefndinni. Í auglýsingum til stuðnings Bush eru orð og myndir sem minna á leikana notuð. Í einni þeirra segir: „ Á þessum Ólympíuleikum...verða tvær frjálsar þjóðir til viðbótar,“ og er greinilega vísað til Afganistans og Íraks.

Auglýsingarnar hafa verið birtar á MSNBC, CNBC og öðrum kapalstöðvum á vegum NBC meðal á útsendingum þeirra frá Ólympíuleikunum stendur. Heiberg sagði að eftir að hafa séð auglýsinguna vildi nefndin að henni yrði breytt örlítið.

Aðrir fulltrúar eru ekki jafn fámálir. „Hroki Bandaríkjastjórnar er ótrúlegur. Að stela nafni Ólympíuleikanna...það er erfitt að lýsa þessu,“ sagði einn háttsettur félagi í IOC.    

mbl.is