Sorg í Rússlandi eftir blóðugan endi gíslatöku

Hjálparstarfsmaður virðir fyrir sér rústir leikifimisalarins í skólanum í Beslan …
Hjálparstarfsmaður virðir fyrir sér rústir leikifimisalarins í skólanum í Beslan í morgun. AP

Mikil sorg ríkir í Rússlandi eftir blóðugan endi gíslatöku í barnaskóla í Beslan í sjálfstjórnarlýðveldinu Suður-Ossetíu. Um 250 börn og fullorðnir létust þar í gær þegar umsátri um skólann lauk með blóðsúthellingum. Meira en 1.000 manns liggja særðir á sjúkrahúsi. Rússnesk yfirvöld hafa greint frá því að 32 þeirra hryðjuverkamanna sem náðu skólanum á vald sitt á miðvikudag, hafi verið drepnir.

Vladimír Pútín, Rússlandsforset, sem hafði ítrekað haldið því fram að öryggi gíslanna væri forgangsatriði, kom í óvænta heimsókn til Beslan fyrir dögun þar og sagði að sorg ríkti um allt Rússland vegna málsins.

Þriggja daga umsátri um skólann lauk með blóðsúthellingum sem fjölmiðlar hafa lýst sem „því versta sem hefði getað gers.“ Hálfnakin, blóðug börn flúðu út úr skólanum og lík voru borin út úr byggingunni. Í morgun var enn verið að bera lík út úr leikfimisal þar sem gíslunum var haldið af uppreisnarmönnum sem kröfðust sjálfstæðis Tétsníu.

Tugir sprengja sem uppreisnarmennirnir höfðu skilið eftir fundust inni í skólabyggingunni. Sprengjurnar hafa tafið vinnu við að flytja öll líkin út úr byggingunni.

„Allir Rússar þjást með ykkur og biðja saman fyrir fólkinu í lýðveldinu,“ sagði Pútín er hann kom til Beslan. Hann heimsótti um 700 manns sem særðust í gær, þegar bardagar hófust umhverfis bygginguna.

Enn er á huldu hvað varð til þess að bardagar milli rússneskra sérsveita og gíslatökumanna hófust í gær.

Íbúar í Ossetíu fara yfir lista yfir fólk sem tókst …
Íbúar í Ossetíu fara yfir lista yfir fólk sem tókst að flýja út úr skólanum eftir að til átaka kom í gær. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert