Særður hnúfubakur aflífaður á Grænlandi

Lögreglan í Upernavik á Vestur-Grænlandi varð í fyrradag að aflífa helsærðan hnúfubak. Segir hún hann hafa verið særðan af mannavöldum. Farþegaskipið Disko II sigldi fram á hvalinn og sagði lögreglu af honum.

Tíðindin hafa vakið hörð viðbrögð í Grænlandi, að sögn grænlenska útvarpsins, þar sem hnúfubakur er alfriðaður við Grænland. Ole Heinrich, skrifstofustjóri Veiði- og fiskistofu Grænlands, segir að með þessu sé orðspor Grænlendinga á alþjóðavettvangi skaðað.

Hann segir atvikið geta haft áhrif á möguleika heimamanna til þess að nýta hvali sér til lífsviðurværis í framtíðinni. Hvetur Heinrich fólk til að láta vita verði það vitni að eða fái vitneskju um veiðar á vernduðum dýrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert