Fimm látnir eftir lestarslys á Skáni

Frá vettvangi lestarslyssins á Skáni í morgun.
Frá vettvangi lestarslyssins á Skáni í morgun. AP

Fimm manns létust að minnsta kosti þegar farþegalest skall á vöruflutningabíl nálægt bænum Kristianstad á Skáni í suðurhluta Svíþjóðar í morgun. Um þrjátíu manns slösuðust. Margir farþeganna voru börn og unglingar á leið í skóla.

Slysið varð þar sem flutningabíll ók yfir lestarteinana í Nosaby á Skáni. Tveir lestarvagnanna fóru á hliðina og að sögn talsmanns lögreglunnar í Kristianstad, Bo Widell, slösuðust margir en hann vildi ekki tilgreina fjölda látinna nákvæmlega, þeir væru margir, allt að fimm.

Fólk lokaðist inni í lestinni og samkvæmt upplýsingum sænsku fréttastofunnar TT voru 37 sjúkrabílar sendir á vettvang og fluttu slasaða á sjúkrahús.

Sænska ríkisútvarpið hefur eftir vitnum að bílstjóri flutningabílsins hafi reynt að komast yfir lestarsporið í sömu mund og hliðið lokaðist.

Að sögn Bo Widell voru um áttíu manns í lestinni þegar slysið varð en sænskir fjölmiðlar segja að þar af hafi verið mörg börn og unglingar á leið í skóla.

mbl.is