Páfagarður lofar konu sem dó eftir að hafa neitað að fara í fóstureyðingu

Kaþólska kirkjan telur fóstureyðingar alvarlega synd.
Kaþólska kirkjan telur fóstureyðingar alvarlega synd. AP

Páfagarður lofaði í dag ítalska konu sem neitaði að fara í fóstureyðingu svo hún gæti fengið meðferð við krabbameini. Konan dó þremur mánuðum eftir að hún fæddi barnið.

Dagblað Páfagarðs L´Osservatore Romano bar ákvörðun konunnar, Ritu Freizzi, saman við Gianna Beretta Molla barnalækni sem Jóhannes Páll páfi II gerði að dýrlingi árið 2003. Hún dó af barnsförum árið 1962 eftir að hafa neitað að fara í fóstureyðingu þrátt fyrir að læknar vöruðu hana við því að eiga barnið því hugsanlega myndi hún ekki lifa það af. Molla hefur orðið hetja þeirra sem berjast gegn fóstureyðingum. Rómansk kaþólska kirkjan telur fóstureyðingar alvarlega synd.

Rita Fedrizzi var borin til grafar í dag en hún frétti að hún væri með krabbamein á sama tíma og hún frétti að hún væri með barni. „Hún vissi að ef hún myndi fæða barnið ætti hún enga von um að lifa af,“ sagði í blaði Vatíkansins í dag. „Þrátt fyrir það hélt hún sig við val sitt, valið um að bjóða nýtt líf velkomið þrátt fyrir að það þýddi að hún dó.“

mbl.is