Sprengingarnar í lestunum í Lundúnum urðu nær samtímis

Slasað fólk flutt á brott frá King's Cross lestarstöðinni á …
Slasað fólk flutt á brott frá King's Cross lestarstöðinni á fimmtudag.

Aðeins liðu „nokkrar sekúndur“ á milli sprengnanna þriggja sem sprungu í jarðlestum í Lundúnum á fimmtudag. Brian Paddick, yfirmaður í Lundúnalögreglunni skýrði frá þessu á blaðamannafundi í dag. Breska lögreglan segir líklegt að sérstökum tímasetningarbúnaði hafi verið komið fyrir í sprengjunum sem sprengdar voru í lestunum. Lögreglan segir afar erfitt verkefni blasa við í lestargöngum í námunda við lestarstöðina Russell Square, en þar vinnur lögregla í heitum, sótugum göngum við leit að líkum fólks sem lést í einni af sprengjuárásunum.

Lögreglan segir ekki vitað hversu mörg lík séu í lestinni. „Við vitum ekki hversu margir eru eftir í vögnunum,“ sagði Paddick á blaðamannafundinum í dag. „Aðstæðurnar eru mjög erfiðar,“ sagði Paddick.

Spurður um hvort hann teldi að sprengjurnar sem notaðar voru í árásunum hefðu verið heimagerðar sagðist Paddick að svo hefði sennilega ekki verið. „Við getum aðeins sagt að þetta eru öflug sprengiefni. Það bæti bent til þess að þetta séu ekki heimatilbúnar sprengjur,“ sagði Paddick. Hann sagðist ekki vilja segja til um það á þessu stigi málsins um hvers konar sprengiefni hefði verið að ræða. „Sumt viljum við segja ykkur en um aðra hluti sem skipta miklu máli í rannsókninni viljum við ekki tjá okkur.“

Enginn verið handtekinn

Lögregla hefur hingað til engan handtekið vegna sprengjuárásanna, að því er fram kom í máli Paddicks. „Við höfum engan handtekið í tengslum við málið,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert