Einn hinna handteknu látinn laus í Lundúnum

Lögregla stendur vörð við hús í Birmingham þar sem húsleit …
Lögregla stendur vörð við hús í Birmingham þar sem húsleit fór fram í dag í tengslum við sprenguárásina í Lundúnum 21. júlí. Reuters

Maður, sem handtekinn var í síðustu viku í kjölfar misheppnaðrar sprengjuárásar í Lundúnum 21. júlí sl. hefur verið látinn laus. Segir lögregla að maðurinn sé laus allra mála. Fjórir menn aðrir, sem handteknir voru um síðustu helgi, eru enn í haldi lögreglu sem og fjórir menn sem handteknir voru í Birmingham í morgun.

Ekki kom fram í tilkynningu lögreglu hvað maðurinn heitir en hann var handtekinn 22. júlí í Stockwell hverfinu í Lundúnum skammt frá þeim stað þar sem lögregla skaut Brasilíumann til bana þar sem hún taldi hann vera hryðjuverkamann. Í ljós kom að Brasilíumaðurinn var saklaus.

Tveir menn voru handteknir í gærkvöldi þar sem þeir voru á ferð í lest í Lincolnshire. Lögregla sagði í dag, að í ljós hefði komið að mennirnir hefðu engin tengsl við hryðjuverkastarfsemi og að þeim hefði verið sleppt.

Snemma í morgun voru fjórir menn handteknir í Birmingham í tengslum við sprengjuárásirnar 21. júlí. Einnig var maður handtekinn á flugvellinum í Luton en honum var síðan sleppt. Eru því átta manns í haldi lögreglu í tengslum við rannsókn á sprengjutilræðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert