Karl kann að verða krýndur konungur í nafni fleiri trúarbragða en kristni

Karl Bretaprins.
Karl Bretaprins.

Karl Bretaprins kann að verða krýndur konungur í nafni fleiri trúarbragða en kristni, og hefð þannig rofin, segir háttsettur breskur kirkjuembættismaður, John Hall, sem tekur þátt í skipulagningu krýningarinnar. Sjálfur hefur Karl prins sagt að hann vilji verða „verjandi trúar“, en ekki „verjandi trúarinnar“, þ.e.a.s. kristni, sem er einn af hefðbundnum titlum breska þjóðhöfðingjans.

Móðir Karls, Elísabet II, var krýnd drottning 1953, og þótt hún sé við hestaheilsu er þegar farið að ræða hugsanlegar breytingar á krýningunni þegar Karl tekur við af henni, að því er bresk blöð greina frá í dag.

Hall er kanúki og prófastur við Westminster Abbey, þar sem krýningin mun fara fram. Hann segir að „finna verði rétta aðferð til að ná til fólks af öðrum trúarbrögðum“. Krýningin hljóti að verða með breyttu sniði vegna þess hvernig samfélagið sé samsett og þeirra breytinga er orðið hafi, segir Hall í viðtali við Sunday Telegraph.

Karl hefur lýst miklum áhuga sínum á trúarbrögðum og lagt áherslu á samræðu milli trúarhópa, einkum þörf Vesturlandabúa til að skila íslam betur. Talsmaður Clarence Hall, bústaðar Karls, segir þessi mál enn ekki hafa verið rædd sérstaklega.

mbl.is