Forseti Brasilíu fékk ekki hreinan meirihluta í kosningum

Geraldo Alckmin fagnar árangri sínum í nótt.
Geraldo Alckmin fagnar árangri sínum í nótt. Reuters

Luiz Inácio Lula da Silva, forseta Brasilíu, tókst ekki að tryggja sér endurkjör í fyrri hluta forsetakosninga sem fóru fram um helgina. Verður kosið aftur þann 29. október milli forsetans og Geraldo Alckmins, sem fékk næst flest atkvæði í gær.

Yfirkjörstjórn Brasilíu tilkynnti í nótt, að Lula hefði fengið 48,79% atkvæða en Alckmin 41,43%.

Lula, sem er sextugur að aldri hefur notið vinsælda frá því hann var kjörinn forseti árið 2003, einkum þó meðal fátækari íbúa landsins. En að undanförnu hefur dregið úr vinsældum hans vegna hneykslismála, sem háttsettir embættismenn í stjórn hans og Verkamannaflokknum tengdust.

Lula þykir hafa tekist nokkuð vel til við stjórn efnahagsmála Brasilíu og Alckmin, sem er fyrrum ríkisstjóri Sao Pulo, hefur ekki lagt til miklar breytingar á efnahagsstefnu landsins. Hann hefur hins vegar nýtt hneykslismálin sér til framdráttar og sagt að Lula þurfti að útskýra margt í tengslum við þau.

Luiz Inácio Lula da Silva eftir að hafa greitt atkvæði …
Luiz Inácio Lula da Silva eftir að hafa greitt atkvæði í gær. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert