Öllum aftökum í Flórída frestað eftir mistök við aftöku fyrr í vikunni

Jeb Bush, ríkisstjóri í Flórída í Bandaríkjunum, hefur frestað um óákveðinn tíma öllum aftökum í ríkinu eftir að réttarlæknir komst að þeirri niðurstöðu að fangaverðir hafi gert mistök við að setja nál í dauðamann sem tekinn var af lífi fyrr í vikunni.

Í Kaliforníu hefur alríkisdómari framlengt bann við aftökum á þeim forsendum að það brjóti gegn banni stjórnarskrár Bandaríkjanna við grimmilegum og óvenjulegum refsingum að taka fólk af lífi með því að sprauta það með eitri. Dómarinn sagði að aðferðin sem beitt væri í Kaliforníu væri gölluð, en hægt væri að lagfæra hana.

Aftökum með eitri er beitt í 37 ríkjum Bandaríkjanna, en þessi aðferð hefur sætt gagnrýni um land allt undafarið og sögð flokkast undir grimmilegar og óvenjulegar refsingar. Í síðasta mánuði úrskurðaði dómari að aðferðin sem beitt er í Missiouri - sem er svipuð því sem tíðkast í Kaliforníu - stangaðist á við stjórnarskrána.

Réttarlæknirinn í Flórída sagði að það hefði tekið 34 mínútur að lífláta Angel Nieves Diaz sl. miðvikudag, eða tvöfalt lengri tíma en venjulega, og grípa hefði þurft til þess ráðs að gefa honum annan skammt af eitri vegna þess að nálin sem sett hafði verið í handlegginn á honum hafði farið í gegnum æðar og inn í vöðva. Eitrið á að gefa í æð.

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur sagt aftökur réttlætanlegar - með eitri í æð, hengingu, aftökusveit, rafmagnsstól eða í gasklefa - þrátt fyrir þann sársauka sem þær kunni að valda, en hefur ekki skorið úr um hvort sársaukinn teljist það mikill að það stangist á við stjórnarskrána.

Angel Diaz
Angel Diaz Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert