Mörgum spurningum enn ósvarað um fjöldamorðið í Virginíu

Lögregla í Virginíuríki í Bandaríkjunum hefur ekki enn birt nafn mannsins, sem talinn er hafa orðið 32 manns að bana í Virginia Tech háskólanum og skaut síðan sjálfan sig. Breska Sky fréttastofan segir, að hugsanlega kunni æði mannsins að hafa stafað af afbrýðisemi. Fréttaritari Sky í Bandaríkjunum segir að maðurinn virðist hafa skrifað ljóð á bloggsíður um ástarsorg.

Sky segir, að talið sé að maðurinn hafi verið námsmaður við skólann. Hann kom heimavist skólans snemma í gærmorgun í leit að vinkonu sinni og sakaði hana um að vera með öðrum manni. Starfsmaður skólans reyndi að lægja öldurnar og þá tók ungi maðurinn upp tvær skammbyssur og skaut karl og konu til bana.

Um tveimur tímum síðar réðist hann inn í Norris Hall, byggingu í um 800 metra fjarlægð frá heimavistinni þar sem verkfræðideild skólans er til húsa. Þar réðist hann inn í skólastofu og skaut á fólk. Einnig er hann sagður hafa skipað fólki að stilla sér upp við vegg þar sem hann skaut á það. Þegar lögregla kom í bygginguna fann hún manninn, sem hafði þá stytt sér aldur.

Á blaðamannafundi í gærkvöldi sagði Wendell Flinchum, lögreglustjóri skólasvæðisins, að þegar síðari skotárásin var gerð hafi lögregla verið að rannsaka tiltekinn einstakling, karlmann sem ekki tengdist skólanum en þekkti annað fórnarlambanna í fyrri árásinni. Sá maður hefði þó ekki verið handtekinn en væri að aðstoða lögregluna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert