Umdeilt stríðsminnismerki í Tallinn flutt á leyndan stað

Rússneskumælandi Eistlendingar mótmæltu því harðlega í vikunni að flytja ætti …
Rússneskumælandi Eistlendingar mótmæltu því harðlega í vikunni að flytja ætti sovéskt minnismerki á brott úr miðborg Tallinn. Reuters

Eistnesk stjórnvöld fluttu sovéskt stríðsminnismerki frá miðborg Tallinn á leyndan stað í nótt. Miklar óeirðir urðu í borginni í gær eftir að minnismerkið hafði verið girt af og undirbúningur hófst við að fjarlægja það. Einn maður lést og tugir særðust í átökum við lögreglu og yfir 300 manns voru handteknir. Eru þetta mestu óeirðir sem orðið hafa í landinu frá því það fékk sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991.

Sérstök nefnd kom saman í nótt og fyrirskipaði, að minnismerkið, stytta af hermanni, skyldi flutt án tafar. Það hafði þá staðið utan við umferðarmiðstöð í borginni áratugum saman.

Um þúsund manns komu saman við styttuna síðdegis í gær eftir að svæðið var girt af. Lögregla beitti vatnsbyssum, táragasi, kylfum og hljóðsprengjum til að dreifa mannfjöldanum og koma í veg fyrir að tugir ungmenna ryddu sér braut gegnum raðir lögreglu að styttunni.

Stjórnvöld í Eistlandi samþykktu á síðasta ári að flytja minnismerkið á annan stað í Tallinn. Var ákvörðunin tekin eftir að átök brutust út við minnismerkið milli hópa rússneskumælandi íbúa og annarra Eistlendinga, sem telja minnismerkið tákn um 50 ára hersetu Sovétríkjanna.

Áformin um að flytja styttuna vöktu hörð viðbrögð stjórnvalda í Moskvu, sem telja styttuna vera minnismerki um þá sem unnu sigur á nasistum í síðari heimsstyrjöld. Voru eistnesk stjórnvöld sökuð um að ýta undir fasisma með því að fjarlægja styttuna.

Óeirðalögregla reynir að hafa hemil á mótmælendum í miðborg Tallinn.
Óeirðalögregla reynir að hafa hemil á mótmælendum í miðborg Tallinn. Reuters
mbl.is