Manni sem brenndist á Glasgowflugvelli ekki hugað líf

Logandi bíllinn í anddyri flugstöðvarinnar í Glasgow.
Logandi bíllinn í anddyri flugstöðvarinnar í Glasgow. Reuters

Manni, sem brenndist mikið þegar hann ók logandi jeppa á flugstöðvarbygginguna í Glasgow í Skotlandi nýlega, er ekki hugað líf. Maðurinn hlaut 3. stigs bruna á stórum hluta líkamans og segir læknir á Royal Alexandra sjúkrahúsinu að ólíklegt sé að hann lifi af.

Læknirinn, sem vildi ekki láta nafns síns getið, sagði að vegna áverkanna sé afar erfitt að koma í veg fyrir sýkingu.

Maðurinn, sem heitir Kafeel Ahmed og er 27 ára flugvélarverkfræðingur frá Indlandi, ók logandi Jeep Cherokee bíl inn í anddyri flugstöðvarbyggingarinnar í Glasgow þann 30. júní. Eldur kviknaði í fötum mannsins og birtust myndir í fjölmiðlum þar sem lögreglumenn yfirbuguðu Ahmed á meðan eldurinn logaði enn. Annar maður var í bílnum og var hann handtekinn. Sá heitir Bilal Abdullah, 27 ára gamall læknir sem fæddist í Bretlandi en var alinn upp í Írak.

Lögreglu grunar, að Abdullah og Ahmed hafi einnig komið fyrir sprengjum í tveimur bílum í Lundúnum 29. júní en þær sprengjur sprungu ekki. Abdullah hefur verið ákærður fyrir sprengjutilræði. Sex aðrir eru í haldi lögreglu vegna málanna.

Indversk dagblöð skýrðu frá því í síðustu viku, að Ahmed hefði hringt í móður sína frá Íslandi vikuna áður en árásirnar voru gerðar og sagt henni, að ekki yrði hægt að ná sambandi við hann á næstunni.

Meðal þeirra sem hafa verið handteknir eru bróðir og frændi Ahmeds.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert