Óttast að fuglaflensa hafi smitast milli manna

Flestir sem dáið hafa úr fuglaflensu voru Asíubúar.
Flestir sem dáið hafa úr fuglaflensu voru Asíubúar. Reuters

Alþjóða heilbrigðisstofnunin, WHO, sagði í dag að tveir úr sömu kínversku fjölskyldunni hefðu smitast af fuglaflensuveirunni H5N1 og óttast væri, að smit hefði borist að milli þeirra. Sonurinn lést á sunnudag en faðirinn byrjaði að sýna einkenni á mánudag og er nú á sjúkrahúsi.

Talsmaður WHO sagði, að stofnunin fylgdist grannt með málinu vegna þess að ekki væri hægt að útiloka, að veiran hefði borist milli feðganna þótt engar beinar vísbendingar væru um það. Hugsanlegt væri einnig, að feðgarnir hafi báðir smitast af sömu fuglunum.

Fylgst er með 68 manneskjum,. sem áttu samneyti við soninn fyrir lát hans en engin þeirra er með sjúkdómseinkenni.

Til þessa er ekki vitað til, að fuglaflensuveiran hafi smitast milli manna en sérfræðingar óttast, að veiran muni taka stökkbreytingum og valda heimsfaraldri inflúensu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert