Lést úr fuglaflensu eftir útskrift á sjúkrahúsi

Indónesísk kona lést úr fuglaflensu í síðustu viku en alls hafa 95 látist úr fuglaflensu í landinu. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti Indónesíu var konan lögð inn á sjúkrahús í Jakarta á miðvikudag en fjölskylda hennar krafðist þess að hún yrði útskrifuð daginn eftir. Klukkutíma eftir útskrift lést konan.

Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar var konan sýkt af H5N1 afbrigði fuglaflensu. Ekki liggur fyrir hvers vegna fjölskyldan krafðist þess að hún yrði útskrifuð af sjúkrahúsi þrátt fyrir að vera alvarlega veik, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu.

Hvergi í heiminum hafa jafn margir látist úr fuglaflensu og í Indónesíu. Í flestum tilvikum hafa þeir sem hafa látist úr H5N1 verið í nánu samneyti við alifugla sem eru smitaðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert