Beitti dóttur sína kynferðislegu ofbeldi áratugum saman

Kona, sem var haldið fanginni af föður sínum í tæp 24 ár, hefur greint lögreglu frá því að faðir hennar hafi nauðgað henni ítrekað en hann byrjaði að beita hana kynferðislegu ofbeldi þegar hún var 11 ára gömul. Hún er nú 42 ára gömul og á að minnsta kosti sex börn með föður sínum. 

Í tilkynningu frá austurrísku lögreglunni kemur fram að ekkert hafi spurst til konunnar, sem nefnd er Elísabet F., frá því 29. ágúst 1984. Hún fannst í bænum Amstetten í gærkvöldi eftir að lögreglu barst ábending um hana. Faðir konunnar, en hann er nefndur Josef F og er 73 ára, er í haldi lögreglu.

Í gögnum lögreglu kemur fram að bréf hafi borist til foreldra Elísabetar mánuði eftir hvarf hennar þar sem hún biður þau um að hætta leitinni. Í dag sagði hún lögreglu að faðir hennar hafi tælt hana niður í herbergið í kjallara hússins í Amstetten þar sem hann handjárnaði hana og lokaði inni þann 28. ágúst 1984. 

Næstu 24 árin nauðgaði hann henni ítrekað og fæddi hún sex börn á tímabilinu. Árið 1996 eignaðist hún tvíbura en annar þeirra lést nokkrum dögum síðar. Faðir hennar tók líkið úr kjallaranum og brenndi það, að því er segir í tilkynningu lögreglunnar. Ekki kemur skýrt fram í tilkynningu lögreglu hvort barnið sem lést sé talið með í fjölda barna eða hvort börnin hafi verið sjö alls.

Í kvöld fannst svæðið þar sem konunni var haldið fanginni ásamt þremur barnanna en að sögn lögreglu komst lögregla inn á svæðið í kjallaranum eftir að faðirinn gaf þeim kóðann að leynihurðinni inn á svæðið sem er afar þröngt og lofthæðin hæst 1,7 metrar.

Lögregla fann Elisabetu með föður sínum í gærkvöldi í nágrenni sjúkrahússins í Amstetten en Josef hafði látið Elísabetu lausa og tvö af þremur barnanna úr kjallaranum. Hafði hann sagt eiginkonu sinni að dóttirin væri komin heim á ný. Þriðja barnið í kjallaranum, Kerstin F., fannst meðvitundarlaus þann 19. apríl í íbúðabyggingu þar sem afi hennar og um leið pabbi og amma búa. Við hlið stúlkunnar var miði frá Elísabetu þar sem hún biður um að henni sé veitt aðstoð. Kerstin er á sjúkrahúsi alvarlega veik en ekki er gefið upp hvað amar að henni.

Að sögn lögreglu sýndi Elísabet alvarlegar geðraskanir á meðan hún var yfirheyrð. Hún samþykkti að svara spurningum eftir að lögregla sannfærði hana um að hún þyrfti aldrei framar að hitta föður sinn aftur og að barnanna yrði gætt. 

Þrjú barnanna bjuggu hjá afa sínum og ömmu en samkvæmt lögreglu sögðu þau, Josef F og eiginkona hans Rosemarie, að þau hafi fundið börnin fyrir utan hús sitt árið 1993, 1994 og 1997. Í öll skiptin hafði móðir þeirra skilið eftir miða hjá börnunum. Börnin sex, þrír drengir og þrjár stúlkur, eru á aldrinum 5-20 ára. DNA sýni munu leiða í ljós hvort Josef F er faðir barnanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert