Vill að faðirinn fái lífstíðardóm

Josef Fritzl mætir í dómssalinn í dag
Josef Fritzl mætir í dómssalinn í dag AP

Elisabeth Fritzl vill að faðir hennar verði á bak við lás og slá þar til hann deyr. Þetta sagði lögfræðingur hennar, Eva Plaz, í réttarsalnum í morgun. Saksóknari fer fram á að Josef Fritzl verði dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir glæpi sína gagnvart dóttur sinni sem hann hélt fanginni í 24 ár. 

Fritzl játaði sig sekan um barnsmorð og þrælahald fyrir rétti í gær eftir að hafa haldið því fram að hann væri saklaus af ákærunum.

Áður hafði Fritzl viðurkennt að hafa gerst sekur um sifjaspell og nauðganir og að hafa haldið dóttur sinni fanginni í gluggalausum kjallara í 24 ár, en neitað ákærunum um barnsmorð og þrælahald.

Líklegt þykir að dómurinn yfir Fritzl verði kveðinn upp í dag.
mbl.is