Afneita 8 ára dóttur eftir nauðgun

Hjálparbeiðnum rignir nú yfir 8 ára gamla líberska stúlku sem búsett er í Bandaríkjunum ásamt foreldrum sínum, en hefur verið afneitað af fjölskyldu sinni eftir að henni var nauðgað af fjórum drengjum. 

Stúlkan er nú í fóstri hjá barnaverndaryfirvöldum Arizona fylkis þar sem foreldrar hennar hafa lýst því yfir að hún hafi kallað skömm yfir fjölskylduna, og þau vilji hana ekki aftur. Lögreglan í Phoenix segir að þeim hafi borist símtöl alls staðar af frá Bandaríkjunum frá fólki sem vill bjóða peningaaðstoð eða býðst jafnvel til að taka litlu stúlkuna í sína umsjá.

Drengirnir, sem einnig eru líberskir innflytjendur, eru á aldrinum 9 til 14 ára gamlir og hafa verið kærðir fyrir nauðgun. Málið hefur valdið reiði um öll Bandaríkin og jafnvel fordæmingu frá forseta Líberíu, Ellen Johnson-Sirleaf sem barist hefur hatrammlega gegn nauðgunum í heimalandinu.

„Ég tel að fjölskyldan hafi rangt fyrir sér. Þau eiga að hjálpa barninu sem hefur orðið fyrir miklu áfalli,“ sagði Johsnon-Sirleaf í viðtali við CNN. „Þau þurfa einnig á ráðgjöf að halda því þau eru augljóslega að gera nokkuð sem er ekki lengur ásættanlegt í okkar samfélagi hér.“

Að sögn bandarískra fjölmiðla lokkuðu drengirnir fjórir stúlkuna inn í kofahreysi þann 16. júlí með loforðum um að hún fengi tyggigúmmí. Þar héldu þeir henni niðri og skiptist á að misþyrma henni í 10-15 mínútur, eða þar til angistaröskrin í henni vöktu athygli lögreglumanna sem áttu leið hjá.

Réttað verður yfir þeim elsta, 14 ára gömlum, sem fullorðnum manni en hinir þrír, 9, 10 og 13 ára gamlir, eru kærðir sem ólögráða ungmenni. Foreldrar stúlkunnar verða hinsvegar ekki ákærð að sögn lögreglu í Phoenix. „Þau hafa ekki yfirgefið barnið og því í raun ekki framið neinn glæp. Þau vilja hinsvegar ekki veita henni stuðning, sem varð til þess að barnaverndaryfirvöld skárust í leikinn.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina