Ísland sleppur betur en önnur Evrópuríki

Bandaríski hagfræðingurinn Paul Krugman.
Bandaríski hagfræðingurinn Paul Krugman. STR

Bandaríski nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Paul Krugman, segir í pistli á vefsíðu New York Times að þrátt fyrir að Íslendingar hafi orðið fyrir miklum efnahagshremmingum, og þurfi nú að greiða niður miklar skuldir vegna ábyrgðarlausrar skuldasöfnunar fárra auðkýfinga, þá hafi þeir sloppið mun betur en aðrar Evrópuþjóðir sem glími við alvarlega efnahagserfiðleika.

Krugman segir að vegna þess hversu alvarleg kreppan hafi orðið á Íslandi hafi verið gripið til þeirra ráða að leyfa gjaldmiðlinum að falla og innleiða samhliða því gjaldeyrishömlur í stað þess t.a.m. að reyna að halda gengi gjaldmiðilsins uppi eins og víðar annars staðar. Þetta hafi skilað árangri og fyrir vikið hafi kreppan komið vægar niður á Íslendingum en öðrum þjóðum.

Krugman segir að boðskapurinn sé sennilega sá að ef ríki lenda á annað borð í efnahagskreppu sé eins gott að hún verði nógu slæm svo þau fari ekki að þiggja ráð af þeim sem vilja halda því fram að því meiri sársauka sem fólk þarf að þola því fyrr batni fólki.

mbl.is