Hengdir fyrir nauðganir

Fjórir karlmenn sem dæmdir voru fyrir að hafa ráðist inn í einkasamkvæmi í Isfahan-héraði í Íran þar sem þeir nauðguðu nokkrum konum, voru í dag hengdir opinberlega. Samkvæmt fréttum íranskra fjölmiðla fylgdust þúsundir með aftökunni.

Mennirnir, sem eru á aldrinum 20-25 ára, voru hluti af fimmtán manna hóp sem réðst inn í samkvæmið sem haldið var bænum Khomeni Shahr í maí. Ógnuðu þeir gestum með hnífum og kylfum, samkvæmt frétt Fars- fréttastofunnar.

Eftir að hafa keflað karlmennina í samkvæminu höfðu mennirnir nokkrar konur á brott með sér og nauðguðu þeim.

Mennirnir sem voru teknir af lífi í morgun voru allir á sakaskrá fyrir að selja áfengi sem er bannað í Íran, ólöglegan vopnaburð og mannrán. Fjórir sem einnig eru grunaðir um árásina ganga enn lausir.

Alls hafa 223 verið teknir af lífi í Íran það sem af er ári, samkvæmt upplýsingum AFP fréttastofunnar en mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja að 388 hafi verið teknir af lífi í Íran í fyrra. Aftur á móti telur Amnesty International að 252 hafi verið teknir af lífi í fyrra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina