„Hættulegir dagar“ framundan

Bræðralag múslíma í Egyptalandi varar við því að „hættulegir dagar“ séu framundan en í gær dæmdi stjórnlagadómstóll þar í landi niðurstöður þingkosninga sem fram fóru á síðasta ári ólögmætar.

Bræðralag múslíma segir að niðurstaðan ógni þeim viðkvæmu lýðræðisumbótum sem þó hefur verið komið á í landinu undanfarna mánuði. Egyptar gætu því séð fram á „hættulega daga“.

Formaður samtakanna, Mohammed Mursi, er í framboði gegn sitjandi forseta, Ahmed Shafiq, og fara kosningar fram nú um helgina.

Óvissa ríkir þó með stjórnarfar landsins eftir dómsúrskurðinn. Niðurstaða þessa æðsta stjórnlagadómstóls landsins er sú að kosningarnar í fyrra, sem voru fyrstu frjálsu kosningarnar í landinu í áratugi, hafi ekki fylgt stjórnarskrá landsins. Því þurfi að endurtaka kosningarnar.

Með ákvörðuninni er stjórn landsins komin aftur í hendur hersins sem fór tímabundið með stjórn landsins eftir að Hosni Mubarak var steypt af stóli í febrúar í fyrra.

Andófsmenn í landinu óttast að herinn muni nú reyna að auka völd sín og hafa lýst niðurstöðu dómsins sem valdaráni sem hafi þann tilgang að grafa undan byltingunni í landinu.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert