Snowden á leiðinni til Moskvu

Edward Snowden.
Edward Snowden.

Edward Snowden, fyrrverandi starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA, er á leið til Moskvu frá Hong Kong þar sem hann hefur dvalist að undanförnu. Hann hyggst halda ferð sinni áfram þaðan samkvæmt frétt dagblaðsins South China Morning Post í dag en ekki liggur fyrir hvert.

Fram kemur í fréttinni að Snowden hafi yfirgefið Hong Kong með flugvél frá rússneska flugfélaginu Aeroflot og haldið til Moskvu samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins. Frá Moskvu ætli hann að halda ferð sinni áfram og er sett fram sú tilgáta að þaðan fari hann hugsanlega annað hvort til Íslands eða Ekvadors. Í fréttinni segir að gert sé ráð fyrir að flugvélin lendi í Moskvu klukkan 13:05 að íslenskum tíma. Fram kemur í frétt AFP að Snowden hafi yfirgefið Hong Kong með löglegum hætti samkvæmt yfirlýsingu frá þarlendum stjórnvöldum og af fúsum og frjálsum vilja.

Höfðu ekki aflað nægjanlegra upplýsinga

Snowden fór til Hong Kong fyrr á árinu þar sem hann upplýsti um víðtækt eftirlit Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) með síma- og netnotkun fjölda Bandaríkjamanna. Hann upplýsti einnig fyrir helgi að breskar leyniþjónustustofnanir stunduðu einnig slíkt eftirlit og gengju jafnvel lengra en bandarísk stjórnvöld. Þá hefur hann sagt að Bandaríkjamenn hafi að sama skapi fylgst með síma- og netnotkun í Kína.

Bandaríkin gáfu út ákæru á hendur honum fyrir helgi og fóru fram á það við yfirvöld í Hong Kong að þau tækju hann höndum. Í yfirlýsingu stjórnvalda Hong Kong kemur fram að þau hafi ekki verið búin að afla sér nægjanlegra upplýsinga um málið til þess að taka afstöðu til beiðni Bandaríkjamanna þegar Snowden fór úr landi. Fram kemur í frétt AFP að málið gæti haft í för með sér stirðari samskipti í framtíðinni á milli Bandaríkjanna og Hong Kong.

Ekki með flugvél á vegum Wikileaks?

Snowden hefur meðal annars viðrað áhuga sinn á því að sækja um hæli hér á landi en íslensk stjórnvöld hafa lýst því yfir að til þess að geta það verði hann að vera í landinu. Fulltrúar uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks höfðu lýst yfir vilja til þess að aðstoða Snowden. Þar á meðal að komast til Íslands ef hann kysi að gera það. Höfðu þeir útvegað einkaflugvél til þess að fljúga beint með hann til Íslands en ef marka má frétt South China Morning Post virðist hann ekki hafa nýtt sér það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

HARMÓNIKUHURÐIR SPARA MIKIÐ PLÁSS
Smíðum eftir máli, oft afgreiddar samdægurs, verð frá kr. 13.900,- Sími 615 175...
Infrarauðir Hitalampar fyrir allskyns verki 300w
Stórkostleg jákvæð áhrif á gikt, eykur virkni ýmissa ensíma sem bæta blóðrás og ...
Greinakurlari
Glussastýrður greinakurlari fyrir traktor, www.hardskafi.is Sími 896 5486...
Sumar í Biskupstungum...
Eigum laust sumarhús frá 10. ágúst, 2-3 dagar í senn.. Falleg hús með heitum pot...