Páfi beinir athygli að flóttamönnum

Giusi Nicolini, bæjarstjóri í Lampedusa, stillir sér upp fyrir framan …
Giusi Nicolini, bæjarstjóri í Lampedusa, stillir sér upp fyrir framan mynd af Frans páfa. ANDREAS SOLARO

Íbúar á ítölsku eyjunni Lampedusa á Miðjarðarhafi eru bæði hissa og glaðir yfir fregnum að Frans páfi ætli að heimsækja eyjuna, en þúsundir flóttamanna frá Afríku gera árlega tilraun til að komast til eyjarinnar. Margir hafa farist við að reyna að sigla þangað á litlum og lélegum bátum.

Á skilti fyrir framan verslun á eyjunni stendur: „Þakka þér Frans páfi“. Íbúar Lampedusa hafa í mörg ár þurft að takast á við mikinn straum flóttamanna til eyjarinnar. Þangað kemur fólk á alls kyns fleytum og í misjöfnu ástandi. Ekki er óalgengt að íbúar gangi fram á lík við ströndina af flóttamönnum sem farist hafa á leiðinni yfir Miðjarðarhafið. Íbúar eyjunnar finnst að umheimurinn hafi ekki veitt erfiðleikum þeirra og flóttamannastraumnum frá Afríku næjanlega athygli og eru ánægðir með að páfi hafi ákveðið að hlusta á þá.

Páfi ætlar að leiða athöfn á strönd eyjarinnar þar sem eru bátar út um allt sem flóttamenn hafa notað til að komast yfir hafið. Þar eru líka fatnaður, skór og tóm vatnsílát í haugum.

Páfagarður segir í yfirlýsingu að með heimsókn páfa til Lampedusa vilji hann biðja fyrir flóttamönnum og syrgja flóttamenn sem látist hafa.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch telja að frá árinu 1998 hafi um 13.500 flóttamenn látist í tilraunum við að komast til Evrópu. Flestir hafi látist árið 2011 eða um 1.500, en flóttamannastraumurinn jókst í kjölfar arabíska vorsins í N-Afríku. Talið er að um 30 þúsund flóttamenn hafi reynt að komast til Lampedusa á fyrsta ársfjórungi ársins 2011.

Við höfnina í Lampedusa eru fjölmargir bátar sem flóttamenn hafa …
Við höfnina í Lampedusa eru fjölmargir bátar sem flóttamenn hafa notað til að komast til eyjarinnar. ANDREAS SOLARO
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert