Flugferð í frosti og súrefnisleysi

Flugvél
Flugvél mbl.is

Sextán ára drengur lifði af fimm klukkustunda flugferð í hjólabúnaði flugvélar frá Kaliforníu til Maui-eyjar á Hawaii á sunnudag. Vitað er til þess að 96 aðrir hafi reynt að gera slíkt hið sama á árunum 1947 til 2012 en 23 þeirra lifað þrekraunina af.

Á meðan á hinu fimm klukkustunda flugi stóð fór vélin upp í 11.600 metra hæð þar sem drengurinn missti meðvitund vegna súrefnisskorts. Um 62 gráðu frost er í slíkri hæð.

Samkvæmt skýrslu Flugmálastofnunar Bandaríkjanna eru um 24% líkur á að lifa þrekraunina af.

Kuldinn einn er lífshættulegur en líkaminn ofkælist við þessar aðstæður og hjartsláttur hægist. Mikil hætta er einnig á lífshættulegri hæðarveiki sem orsakast meðal annars af loftþrýstingnum og súrefnisskortinum. Þá er mikil hætta á að slasast í hjólabúnaðinum þegar flugvélin býr sig til lendingar.

Ungmenni eiga betri möguleika

Ungmenni eru frekar talin líkleg til að lifa af slíkar aðstæður, en samkvæmt skýrslunni eru þeir sem ungir eru og grannir taldir eiga betri lífslíkur en þeir sem þybbnari eru og eldri.

Talið er að það sé meðal annars ofkælingunni að þakka að fólk geti lifað slíkt af þar sem líkaminn hægir á allri starfsemi sinni.

Árið 2012 laumaði 11 ára gamall drengur sér inn í hjólabúnað flugvélar í Manchester í Englandi. Hann hafði strokið frá móður sinni í verslunarmiðstöð og farið á flugvöllinn þar sem honum tókst að koma sér í gegnum öryggisgæslu án þess að vera með flugmiða eða vegabréf. Flugliðar tóku hins vegar eftir drengnum þegar vélin var komin hálfa leið til Rómar á Ítalíu og sneru henni við í snatri. Drengurinn lifði ferðina af.

Struku að heiman

Árið 1985 lifðu tveir ungir drengir af flugferð í hjólabúnaði vélar frá Dyflinni í Írlandi til New York í Bandaríkjunum. Drengirnir voru tíu og þrettán ára gamlir og struku að heiman. Þeir húkkuðu sér far með bíl og lest rúmlega 600 kílómetra leið á Heathrow-flugvöllinn.

Þar komu þeir sér í gegnum öryggisgæslu, hvorki með flugmiða né vegabréf, og komu sér fyrir í lendingarbúnaði vélarinnar og fóru með henni til New York. Öryggisvörður á JFK-flugvellinum kom auga á þá þar sem þeir ráfuðu áttavilltir um flugbrautina. Voru þeir sendir beint aftur heim til Írlands eftir eina nótt á hóteli í boði flugfélagsins.

Fyrsti maðurinn sem laumaði sér í hjólabúnað vélar var hinn nítján ára gamli Clarence Terhune árið 1928. Vélin var á leið frá New Jersey í Bandaríkjunum til Friedrichshafen í Þýskalandi. Hann kom sér hins vegar upp í farrými vélarinnar þegar hún var yfir Atlantshafinu og var látinn vinna í eldhúsinu það sem eftir var af ferðinni.

Frétt mbl: Faldi sig í hjólabúnaði og lifði af

Frétt CNN um málið.

Um 24% líkur eru á því að lifa af flug …
Um 24% líkur eru á því að lifa af flug í hjólabúnaði vélar. Transaero
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert