15 börn með staðgöngumæðrum

Lögreglustjórinn, Naiyawat Phadermchit, ræddi við fjölmiðla um niðurstöðu DNA rannsóknarinnar.
Lögreglustjórinn, Naiyawat Phadermchit, ræddi við fjölmiðla um niðurstöðu DNA rannsóknarinnar. AFP

 Lífsýni úr japönskum manni sýna að hann er líffræðilegur faðir að minnsta kosti fimmtán barna í Taílandi. Lífsýnarannsóknin tengist hneykslismáli varðandi mansal og staðgöngumæðrum í Taílandi.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu liggur ekki fyrir hver tilgangur mannsins var en samkvæmt japönskum fjölmiðlum er hann farinn frá Taílandi og á að hafa sent lífsýni til lögreglunnar í Taílandi. Hann er sagður sonur milljarðamærings.

Óskað var eftir lífsýnum úr manninum í kjölfar þess að níu börn fundust í íbúð í Bankok fyrir tveimur vikum. „Það hefur fengist staðfest að hann er faðir allra barnanna - þeirra 15 barna sem við höfum rannsakað,“ segir læknir hjá taílensku lögreglunni í viðtali við AFP. Yfirvöld vonast til þess að maðurinn snúi aftur til Taílands til þess að aðstoða við rannsóknina. 

Á blaðamannafundi í dag kom fram að Japaninn sé reiðubúinn til þess að taka við börnunum og annast þau. „Hann vilji eignast börn.“

Að sögn lögreglu er ekkert sem bendir til þess að börnin hafi verið beitt ofbeldi af neinu tagi né heldur að það hafi átt að selja þau mansali.

Málið er einn angi af stóru máli sem hefur undið upp á sig en það hófst með því að ástralskt par var sakað um að hafa neitað að taka við nýfæddu barni sem er með Down's einkenni. Aftur á móti tóku parið tvíburasystur barnsins að sér en tvíburarnir voru getnir með sæði frá öðrum mannanna.

Ólöglegt er að greiða konum fyrir að ganga með börn í Taílandi. Herforingjastjórnin hefur hótað því að kynna enn harðara lög en nú gilda og að þeir sem brjóta lögin eigi yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi. 

Þær konur sem gengu með börn fyrir japanska manninn segja að þeirra eigin egg hafi ekki verið frjóvguð heldur hafi þau komið frá óþekktum konum.

mbl.is