Mótmælandi veittist að Mario Draghi

Draghi og fætur mótmælandans.
Draghi og fætur mótmælandans. Skjáskot úr myndbandinu.

Mótmælandi veittist að Mario Draghi, bankastjóra Evrópska seðlabankans (ECB) á blaðamannafundi í dag. Mótmælandinn stökk upp á borðið sem Draghi sat við, stráði pappírsrusli yfir hann og hrópaði „bindið enda á harðstjórn ECB!“

Draghi var í miðjum klíðum við að útskýra peningastefnu bankans þegar konan stökk upp á borðið. Konan var dregin í burtu skömmu áður en lokað var fyrir útsendingu frá fundinum, en Draghi hélt fundinum áfram stuttu síðar. Honum virtist brugðið en ómeiddur.

Mótmælendur hafa sakað bankann um að reyna að keyra í gegn harkalegar aðhaldsaðgerðir á evrusvæðinu, sérstaklega í Grikklandi.

mbl.is