Breivik má svelta í hel

Anders Behring Breivik
Anders Behring Breivik AFP

Fangelsismálastofnun Noregs ætlar ekki að gera neitt til þess að koma í veg fyrir að fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik svelti til bana ef hann stendur við hótanir sínar um að fara í hungurverkfall.

Samkvæmt frétt Dagbladet er ekki heimilt að neyða fanga til að neyta fæðu í norskum fangelsum ef viðkomandi fangi fer í hungurverkfall.

Starfsmenn í Skien-fangelsinu verða hins vegar að fræða hann um þær hættur sem geta fylgt svelti.

Aslak Syse, lagaprófessor við háskólann í Ósló, segir að það brjóti gegn mannréttindum í Evrópu að neyða mat í fólk í hungurverkfalli. Því er fólki heimilt að fara í hungurverkfall jafnvel þótt það geti ógnað heilsu þess.

Í opnu bréfi sem Breivik sendi á sænska og norska fjölmiðla hótaði hann því að fara í hungurverkfall fram í rauðan dauðann. Hann er ósáttur við aðbúnað í fangelsinu og segir hann hafa versnað mjög í síðasta mánuði. Öfgasinninn var dæmdur í 21 árs fangelsi fyrir hryðjuverkaárásir í Noregi árið 2011. Árásir sem kostuðu 77 lífið, átta í sprengjutilræði í Ósló og 69 í sumarbúðum ungliða í Jafnaðarmannaflokknum í Útey.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert