Lokunin veldur óþægindum

Háskólinn í Lundi í Svíþjóð.
Háskólinn í Lundi í Svíþjóð. Wikipedia

Margir nemendur háskólans í Lundi í Svíþjóð höfðu þegar ákveðið að halda sig heima í dag þegar tilkynning barst frá skólanum um að hann yrði lokaður í dag. Íslenskur nemandi við skólann telur að nemendur séu almennt ekki mjög hræddir, heldur valdi lokunin heldur óþægindum þar sem prófin eru á næsta leiti.

Frétt mbl.is: Skólinn lokaður vegna hótana

Jökull Viðar Gunnarsson er í meistaranámi í fjármálum í Lundi. Hann segir að upplýsingar um sprengjuhótunina hafi borist mjög hratt í gær á samfélagsmiðlum. Um tvöleytið í nótt barst tilkynning um að allar byggingar á vegum skólans yrðu lokaðar í dag.

Rökrétt að halda sig heima

Sprengjuhótunin barst nemendum í gengum spjallforritið Jodel í gær. Forritið er mikið notað af nemendum við skólann. Þar voru nemendur beðnir um að fara ekki í skólann í dag og sagt að fylgjast vel með fréttum. Ákváðu yfirmenn skólans í samráði við lögreglu að hafa hann lokaðan í dag.

Jökull Viðar nefnir sem dæmi að bandarískir nemendur skólans virðist hafa minni áhyggjur en aðrir enda eru þeir ef til vill vanari hótunum af þessu tagi.  

„Flestir nemendurnir taka þetta kannski ekki mjög alvarlega, þeim finnst bara rökrétt að halda sig heima. Það styttist í prófin hérna úti og voru einhverjar vangaveltur um hvort hótunin tengdist því. Þetta er óþægilegt fyrir marga, síðustu tímarnir fyrir prófin eru í þessari viku,“ segir Jökull Viðar.

Hann telur að flestir muni halda sig heima í dag og gerir sjálfur ráð fyrir að fylgjast vel með fréttum og vega og meta hvort hann fari í skólann á morgun.

Jökull Viðar Gunnarsson.
Jökull Viðar Gunnarsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert