Ekki grín hjá Dieudonne heldur hatur

Dieudonne M'bala
Dieudonne M'bala AFP

Mannréttindadómstóll Evrópu hafnaði í dag túlkun franska grínarans Dieudonne M'Bala M'Bala á málfrelsinu. Í dóminum segir að málfrelsisákvæði eigi ekki við þegar ummælin eru kynþáttaníð og gyðingahatur.

Dieudonne fór með málið til Mannréttindadómstólsins þar sem hann mótmælti því að hafa verið dæmdur af frönskum dómstól til að greiða sekt árið 2009. Hann var dæmdur til að greiða 10 þúsund evrur í sekt fyrir að hafa boðið Frakkanum Robert Faurisson, sem neitar tilvist helfararinnar, upp á svið til sín í desember 2008 og heiðrað hann með viðurkenningu. Taldi dómstóllinn að um kynþáttaníð væri að ræða. 

Við réttarhöldin varði Dieudonne sig með þeim orðum að honum hafi fundist þetta mjög fyndið. Dómararnir voru hins vegar ekki sammála og sögðu að hann hafi farið langt yfir þau mörk sem eðlileg eru þegar kemur að fyndni.

Dómarar við Mannréttindadómstólinn dæmdu að boð Dieudonne væri hvorki ádeila né ögrandi heldur dæmi um hatur og gyðingahatur.

Dieudonne hefur ítrekað verið dæmdur í Frakklandi fyrir gyðingahatur og baráttu gegn gyðingum sem hann telur að stjórni heiminum. Hann gerði kveðju fræga (quenelle) sem er harðlega gagnrýnd fyrir að minna á kveðju nasista. Nicolas Anelka, leikmaður West Brom, fagnaði marki með kveðjunni árið 2013 og vakti það mikla reiði meðal margra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert