Umvafinn ást eftir 33 ár í dái

Jean-Pierre, Bernadette og sonur þeirra Laurent árið 1972.
Jean-Pierre, Bernadette og sonur þeirra Laurent árið 1972. Skjáskot af TheTimes

Árið 1982 fór franski fótboltamaðurinn Jean-Pierre Adams í aðgerð á hné. Síðan þá hefur hann hvorki getað hreyft sig eða talað. Hann er enn í dái, 33 árum síðar.

Adams var 34 ára er hann fór í hina örlagaríku aðgerð á sjúkrahúsi í Lyon. Eiginkona hans, Bernadette, hefur sinnt honum á hverjum degi allan tímann. Hún elskar hann enn út af lífinu.

„Enginn gleymir að gefa Jean-Pierre gjafir, hvort sem það eru jólagjafir eða afmælisgjafir,“ segir hún í ítarlegu viðtali á vef CNN.

Jean-Pierre Adams er nú 67 ára. Hann getur andað án aðstoðar frá tækjum og býr heima í suðurhluta Frakklands. Hann getur opnað og lokað augunum og kyngt en að öðru leyti sýnir hann engin viðbrögð.

Jean-Pierre var þekktur fótboltamaður, lék m.a. með franska landsliðinu en er upprunalega frá Senegal. 

Bernadette sinnir honum af alúð. Hún klæðir hann, matar hann, baðar hann og snýr honum í rúminu svo hann fái ekki legusár.

Þekkir röddina

Tengsl þeirra hjóna eru náin, þrátt fyrir að Jean-Pierre geti ekki sýnt það með augljósum hætti. En komi það fyrir að Bernadette þurfi að bregða sér af bæ segja sjúkraliðarnir að skap Jean-Pierre virðist breytast.  „Hann skynjar að það sé ekki ég sem er að sinna honum,“ segir  Bernadette en þau hafa nú verið gift í 46 ár. „Ég held að hann finni hluti, hann hlýtur að þekkja röddina mína líka.“

Parið hittist fyrst á dansleik á sjöunda áratugnum. „Ég verð að játa að þetta var erfitt fyrir fjölskylduna mína í upphafi sambandsins,“ segir Bernadette en hún er hvít og Jean-Pierre svartur. Á þessum tíma hafi slík sambönd verið litin hornauga. En fjölskyldan tók kærastann og síðar eiginmanninn í sátt.

Á áttunda áratugnum lék Jean-Pierre sína fyrstu leiki fyrir franska landsliðið. Hann lék einnig með liðunum Paris Saint-Germain og Nice.

Bernadette segir að hann hafi verið lífsglaður, mikill brandarakarl og haft gaman af því að fara út á lífið.

Örlagarík spítalaheimsókn

Í mars árið 1982 var Adams að hefja feril sem þjálfari yngri deilda. Hann meiddi sig á hné og fór á Édouard Herriot-sjúkrahúsið í Lyon til að fara í röntgen-myndatöku. „Hann átti svo að koma beint heim,“ rifjar Bernadette upp í viðtalinu við CNN. „En þegar hann gekk eftir göngunum á sjúkrahúsinu mætti hann lækni sem vissi allt um fótbolta þar sem hann var læknir liðsins í Lyon.

Þeir spjölluðu saman og það var þegar í stað ákveðið að þessi læknir myndi skera hann upp þann 17. mars. Þegar sá dagur rann upp varð verkfall meðal starfsmanna á sjúkrahúsinu. Aðgerð Jean-Pierre var ekki áríðandi en engu að síður var ákveðið að framkvæma hana. 

Bernadette segir að svæfingalæknirinn hafi verið að sinna átta sjúklingum, rétt eins og á færibandi. Það var lærlingur sem hafði eftirlit með Jean-Pierre og sá viðurkenndi síðar fyrir dómi að hann hefði ekki ráðið við verkefnið.

Fjölmörg mistök voru gerð. Jean-Pierre var ekki rétt barkaþræddur svo að ein slangan stíflaði öndunarveginn að lungunum. Hann varð því fyrir súrefnisskorti og fór í hjartastopp.

Þegar Bernadette var loks látin vita hvað hefði gerst flýtti hún sér á sjúkrahúsið þar sem hún var í fimm daga við hlið eiginmannsins. „Ég hélt að hann myndi vakna og ég vildi vera hjá honum þegar það gerðist.“

Líknardauði ekki inni í myndinni

Jean-Pierre lá á sjúkrahúsinu í fimmtán mánuði. Sjúkrahúsyfirvöld vildu að hann færi á heimili fyrir aldraða en Bernadette vildi fá hann heim þar sem hún gæti hugsað um hann sjálf. Það hefur hún gert allar götur síðan.

Spurð hvort líknardauði sé inni í myndinni segir Bernadette svo ekki vera. „Hvað viltu að ég geri, svelti hann? Leyfi honum að deyja smám saman? Nei, nei, nei.“

Bernadetta hefur ekki getað unnið þar sem það er full vinna að sjá um eiginmanninn. En henni tekst að ná endum saman með miskabótum sem hún fékk eftir að hafa unnið dómsmál vegna aðgerðarinnar. Samtök fótboltamanna aðstoðuðu hana við að greiða lögfræðikostnað en málareksturinn tók rúmlega áratug. 

Niðurstaðan var sú að starfsfólk sjúkrahússins var sakfellt fyrir mistök sín. 

Jean-Pierre hlaut alvarlegar heilaskemmdir. Því eru líkur á bata litlar sem engar.

„Ástand hans versnar ekki, svo hver veit?“ segir Bernadette. „Kannski verða framfarir í læknavísindum, hví ekki?“

Verst finnst Bernadette tilhugsunin um að hún gæti dáið á undan honum. „Hvað verður þá um hann? Hann þarfnast mín. Ef ég sinni honum ekki, hver mun gera það?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert