Spegill, spegill herm þú hver

AFP

Nú var það spegill inni í fataskáp sem leyndi flóttaleið mexíkóska eiturlyfjabarónsins Joaquin „El Chapo“ Guzmán á gistiheimili í borginni Los Mochis þar sem hann var handtekinn á föstudag. 

Frá áhlaupi hersins á felustað Guzmáns
Frá áhlaupi hersins á felustað Guzmáns AFP

Húsið í Los Mochis ber þess glöggt merki að þar hafi verið hart barist á föstudag en að sögn fréttamanns AFP fréttastofunnar eru blóðblettir út um öll gólf.

AFP

Ríkisstjórn Mexíkó hefur birt myndskeið sem sýnir hermenn skjóta úr rifflum og kasta handsprengjum inn í húsið áður en þeir leggja til atlögu. Einn hermaður særðist í áhlaupinu. Í myndskeiðinu sjást hermennirnir handtaka mann inni í húsinu og æpa á konu sem faldi sig inni á baðherbergi hvar eiturlyfjabaróninn haldi sig: „Ég veit það ekki herra,“ svarar hún.

Á sama tíma sést Guzmán hvergi né heldur Orso Ivan, sem annast öryggismál hans og héldu hermennirnir því leitinni áfram.

AFP

Í einu svefnherberginu lágu þrjár DVD myndir með sjónvarpsþáttaröðinni La Reyna del Sur á rúminu en stjarna þáttanna er engin önnur en Kate del Castillo, mexíkóska leikkonan sem fylgdi bandaríska leikaranum Sean Penn á fund „El Chapo“ (Þess stutta) í október. Vart þarf að taka fram að hún leikur eiturlyfjabarónessu í þáttaröðinni.

Fundur þeirra markaði í raun upphafið að handtöku Guzmáns en litlu munaði að mexíkósk yfirvöld næðu að handsama hann þá. Það var hins vegar ekki fyrr en hann kom  til Los Mochis sem þeir náðu að handsama glæpamanninn eftir hálfs árs flótta.

AFP

Þegar fréttamenn fengu að skoða húsið í gær voru þar enn leifar af handsprengjum á gólfinu og rotnandi matur í eldhúsinu. Að sögn yfirvalda hafði verið pantaður matur fyrir þrettán manns skömmu áður en áhlaupið hófst.

Á annarri hæð hússins eru þrjú svefnherbergi og greinilegt að kona gisti í einu þeirra, segir í frétt AFP og vísar þar til þess að undirfatnaður og snyrtivörur voru í herberginu. Á efstu hæð hússins voru göt eftir byssukúlur víða en starfsmenn Guzmáns reyndu að flýja út á þakið. 

AFP

Talið var fullvíst að Guzmán hefði tryggt sér flóttaleið út úr húsinu áður en hann kom á staðinn og leituðu hermennirnir víða. Til að mynda á bak við ísskáp í eldhúsinu en fundu ekkert. En í einu svefnherberginu komust þeir í feitt þar sem dýna lá á gólfinu og karlmannsföt voru út um allt. Í ljós kom að bak við spegil inni í fataskápnum voru göng sem lágu niður í herbergi sem var um tveir metrar á hæðina og einn metri á breidd. Á gólfinu var um mittisdjúpt vatn og fundust dauðir snákar í því.

AFP

Eftir um 20 metra löng göng komu hermennirnir að stálhurð og á bak við hana var frárennsliskerfi borgarinnar. Guzmán og Gastelum flúðu um göngin og á flóttanum stálu þeir bíl þegar þeir komu upp á yfirborð jarðar. En fljótlega voru þeir handsamaðir af hermönnum, flogið með þá til Mexíkóborgar og þaðan færðir í öryggisfangelsið, sem Guzmán flúði í júlí. Þar bíður hann þess að vera framseldur til Bandaríkjanna.

AFP
AFP
Joaquin El Chapo Guzmán
Joaquin El Chapo Guzmán AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert