Níðingsverk í skjóli kirkjunnar

Reuters

Með hryllilegustu barnaníðum sem framin hafa verið í Ástralíu gerðust innan veggja kaþólsku kirkjunnar. Brot þar sem börn voru bráð hrotta sem störfuðu í nafni trúarinnar.

Samheldni kirkjunnar manna var og er mikil og hefur verið upplýst um að háttsettir menn innan kirkjunnar þögðu um glæpina sem viðgengust í nafni trúarinnar. Hvort heldur sem ástralskir eða franskir fjölmiðlar eru lesnir þessa dagana blasir hryllingurinn við.

Í Frakklandi er erkibiskupinn í Lyon, Philippe Barbarin, sakaður um að hafa hylmt yfir presti sem er sakaður um barnaníð í starfi og jafnvel veitt öðrum framgang í starfi þrátt fyrir maðurinn hafi verið dæmdur fyrir kynferðislegt ofbeldi gagnvart uppkomnum námsmönnum.

Frétt mbl.is: Kardínála sagt að axla ábyrgð

mbl.is/Árni Torfason

Barbarin hefur verið undir miklum þrýstingi, meðal annars frá forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, um að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Það hefur hann nú gert en Barbarin bað fórnarlömbin afsökunar við messu í gærkvöldi. Barbarin vísaði meðal annars í Frans páfa og sagði að sér bæri skylda til þess að biðjast persónulega afsökunar á illvirkjum sem prestar hafi framið. Kardínálinn sagði að sér bæri skylda til þess að biðjast afsökunar þrátt fyrir að hann hafi ekki verið í starfi kardínála þegar brotin sem um ræðir voru framin.

Játaði en var bara færður til í starfi

Fyrir rúmum fjörtíu árum, árið 1971, tók ungur og efnilegur prestur Bernard Preynet við starfi leiðtoga kaþólsks skátahóps í bæ skammt frá Lyon og gegndi starfinu í tuttugu ár. Samtök fórnarlamba, La Parole Libérée, sökuðu Preynet um að hafa beitt um sextíu unga drengi kynferðislegu ofbeldi á þessu tímabili. Árið 1991, þegar orðrómurinn var sem háværastur, játaði Preynat athæfið fyrir yfirboðurum sínum. Preynat var sendur í aðra sókn þar sem hann þjónaði sem prestur í tæpan aldarfjórðung. Þrátt fyrir að vera ekki lengur skátahöfðingi lauk þar ekki samskiptum hans við börn.

Þegar nokkrir fyrrverandi skátar kærðu Preyant árið 2015 réttlætti yfirstjórn kirkjunnar í Lyon aðgerðarleysi sitt á sínum tíma með því að segja að presturinn hafi hætt að starfa í skátahreyfingunni og honum hafi verið bannað að sinna börnum í starfi sínu hjá kaþólsku kirkjunni án þess að fylgst hafi verið með störfum hans innan kirkjunnar. 

Preynat var leystur frá störfum í Roanne í fyrra og var ákærður 27. janúar sl. fyrir kynferðislegt ofbeldi og að hafa nauðgað börnum. Frá því skátarnir fyrrverandi, 45 talsins, lögðu fram kæru sína sem varð til þess að presturinn var handtekinn, hafa þeir lýst fyrir lögreglu hryllilegu ofbeldi af hans hálfu.

AFP

Þetta er leyndarmálið okkar

„Hann var vanur að segja við mig að hann elskaði mig. Síðan bætti hann við að ég væri litli strákurinn hans, þetta er leyndarmálið okkar og þú mátt ekki segja neinum,“ segir meðal annars eitt fórnarlambanna.

Einn þeirra, Pierre-Emmanuel Germain-Thill, lýstir því hvernig presturinn níddist á litlum drengjum. „Það sem hræddi mig mest var þegar hann reyndi að troða tungunni á sér upp í mig.Hann strauk kynfæri mín og ég gat ekkert gert til þess að stöðva hann,“ segir Germain-Thill. „Ég vildi forða mér og á sama tíma vissi ég ekki hvað ég gæti gert. Ég var hræddur um að ef ég forðaði mér þá myndi enginn trúa mér.“

Annað fórnarlamb, Bertrand Virieux, segist enn muna svitalyktina. Hvernig hendur prestsins leituðu innundir föt hans og hvernig hann nuddaði sér utan í hann.

Dæmdur fyrir 138 kynferðisbrot og yngsta fórnarlambið var fjögurra ára

Sögurnar eru skelfilegar en því miður eru brotin ekkert einsdæmi því að á sama tíma gekk einn versti barnaníðingur í sögu Ástralíu, Gerald Ridsdale, laus en hann var prestur í borginni Ballarat.

Hann hefur verið dæmdur fyrir 138 kynferðisbrot gagnvart börnum allt niður í fjögurra ára gömul. Fórnarlömbin voru yfir fimmtíu talsins.

Frétt mbl.is: Fimm barnaníðingar hörmuleg tilviljun

Ridsdale var vígður til prests við St Patricks kirkjuna í Ballarat árið 1961 þegar hann var á þrítugsaldri. Fyrsta kvörtunin um hegðun hans gagnvart börnum barst til kirkjunnar það sama ár. Ekkert var gert og Ridsdale hélt áfram að beita börn kynferðislegu ofbeldi næstu þrjá áratugi eða þangað til hann hlaut fyrsta dóm sinn fyrir barnaníð í skjóli kirkjunnar.

Biskupinn í Ballarat, Ronald Mulkearns, flutti Ridsdale nokkrum sinnum til í starfi meðal annars í kirkjusóknir í Victoria og Sydney á sama tíma og hann virti af vettugi ásakanir um barnaníð prestsins. Það var ekki fyrr en árið 1988 sem Ridsdale óskaði sjálfur eftir leyfi frá störfum þar sem það sé honum um megn að forðast freistingar.

Yfirmaður rannsóknarnefndarinnar í Ástralíu Peter McClellan dómari
Yfirmaður rannsóknarnefndarinnar í Ástralíu Peter McClellan dómari AFP

Þetta samtal fór aldrei fram

Nýverið var fjármálastjóri Páfagarðs, George Pell kardínáli, sem áður starfaði í Ástralíu og var ráðgjafi biskupsins í Ballarat, það er Mulkearns, yfirheyrður af rannsóknarnefnd sem hefur rannsakað brot kirkjunnar þjóna undanfarin ár í Ástralíu. Við vitnaleiðslurnar hélt Pell því fram að hann hefði ekki vitað af brotum Ridsdales á þessum tíma. Þetta er í andstöðu við ummæli frænda Ridsdales, Davids Ridsdales, sem er eitt af fjölmörgum fórnarlömbum níðingsins. Pell og Ridsdale bjuggu saman um tíma á þessu tímabili og sagði David Pell frá brotum frændans gagnvart sér árið 1993. Pell hafi hins vegar reynt að múta honum og látið eftirfarandi ummæli falla: „Ég vil fá að vita hvað það kostar að fá þig til þess að þegja.“ Pell neitar þessu og segir að þetta samtal hafi aldrei farið fram.

Frétt mbl.is: Lét börnin krjúpa á milli læra sér

Árið 1993 mætti Ridsdale í fyrsta skipti af mörgum fyrir dómara vegna ásakana um barnaníð. Fylgdarsveinn hans var Pell kardínáli sem síðar hefur sagt að hann sjái eftir því að hafa fylgt sínum gamla félaga í réttarsalinn. Það hefði hann ekki gert ef hann hefði vitað um brot prestsins gagnvart börnum.

Sá sem fyrst hafði samband við barnaníðsdeild lögreglunnar í Victoria og lét vita af ofbeldisverkum Ridsdales var ungur maður, „Jason“, en það var undir lok árs 1992. Það leiddi til fyrstu sakfellingar Ridsdales árið 1993. Þegar Jason gaf vitnisburð hjá lögreglu í nóvember 1992 þá var hann tæplega þrítugur að aldri. Hann skammaðist sín svo fyrir ofbeldið sem hann hafði orðið fyrir þannig að hann hélt hluta af vitnisburðinum fyrir sjálfan sig. En þegar Ridsdale lauk fyrstu afplánun í lok árs 1993 ákvað hann að koma fram og það var meðal annars til þess að Ridsdale var aftur saksóttur árið 1994.

Ofbeldið fékk að viðgangast áratugum saman
Ofbeldið fékk að viðgangast áratugum saman AFP

Hann gerði allt sem þú getur ímyndað þér við mig

„Árið 1976 þegar ég var að verða þrettán ára fór ég í klausturskóla í í Edenhope. Faðir Gerry Ridsdale bjó við hliðina á skólanum og stýrði honum. Ég var altarisdrengur og hann var alltaf að bjóða mér heim til sín meðal annars til að biðja mig að sinna verkum fyrir sig þar. Mamma var vön að ýta á mig að fara heim til hans.

Hann var vanur að ráðast á mig heima hjá sér, í bílnum sínum og kirkjunni. Þar á meðal á altarinu þegar enginn var í kirkjunni og hún læst. Þetta stóð yfir í tvö ár. Hann gerði allt sem þú getur ímyndað þér við mig. Ég veit ekki hversu oft hann fór inn í mig. Eftir hverja nauðgun veitti hann mér syndafyrirgefningu sem þýddi að ég mátti ekki segja neinum frá þeirri synd sem ég hafði drýgt með honum.

Í fyrstu hélt ég að ég væri sá einu en svo sagði annar drengur mér svipaða sögu. Ég reyndi að segja mömmu frá þessu en hún vildi ekki heyra eitt styggðaryrði um prestinn,“ segir í vitnisburði Jasons (dulnefni).

Jason heldur að yfirmenn prestsins hafi vitað hvernig í öllu lá miðað við hvernig var staðið að því að senda Ridsdale í aðra sókn.

Að sögn Jasons var margt óeðlilegt í St Malachy skólanum og nunnurnar voru að hans sögn skelfilegar. Ein stúlka hafði verið með strák í langan tíma og varð ólétt. Nunnurnar hótuðu henni vítisvist og ráku hana á brott. Þær voru yfirleitt hæst ánægðar með það þegar Ridsdale tók drengina út úr skólastofunni, einn og einn í einu og fór með þá á prestsetrið þar sem hann ræddi um kynlíf við þá áður enn réðst á þá.

Paul Levey einn af fórnarlömbum barnaníðinga innan kaþólsku kirkjunnar óskaði …
Paul Levey einn af fórnarlömbum barnaníðinga innan kaþólsku kirkjunnar óskaði eftir fundi með páfa fyrr í mánuðinum. AFP

„Árið 1988 sagði ég öðrum presti hvað Ridsdale hafði gert en þessi prestur sagði mér að það besta sem ég gerði væri að gleyma þessu og halda áfram með líf mitt. En það er erfitt því Ridsdale hefur eyðilagt líf mitt,“ segir Jason.

Árið 1993 fékk Jason lögfræðinga til þess að reyna að fá greidda bætur fyrir brot prestsins gagnvart honum sem gætu aðstoðað hann við að koma lífi sínu á réttan kjöl. Kirkjan var ekki tilbúin til þess og að lokum fékk Jason greidda lága fjárhæð sem dugði hvergi nærri fyrir sálfræðikostnaði.

John Norris, saksóknarinn sem undirbjó saksóknina árið 1994, telur að af öllum fórnarlömbum Ridsdale hafi Jason orðið fyrir mestum skaða. En Jason glímdi við andleg og líkamleg veikindi. Eða eins og blaðamaðurinn Ian Munro sem tók viðtal við Jason lýsti því: „Einhver fórnarlambanna fengu vinnu og tókst að berjast við fíkn sína og eignast fjölskyldu en Jason bjó einn, fíkill, einangraður og hundeltur af djöflum fortíðarinnar.“

Gordon Hill, Phil Nagle og David Ridsdale eru allir fórnarlömb …
Gordon Hill, Phil Nagle og David Ridsdale eru allir fórnarlömb barnaníðinga sem störfuðu innan kaþólsku kirkjunnar. AFP

Lést 39 ára gamall - banameinið sagt hjartaáfall

Jason lést í maí 2002, 39 ára að aldri eftir fjórða hjartaáfallið á stuttum tíma. Þeir sem þekktu hann best telja að banamein hans hafi ekki verið hjartamein heldur ofbeldið sem hann varð fyrir árum saman af hálfu Ridsales. Ofbeldi sem veitti honum óbærilegan skaða á líkama og sál.

Systir hans segir að hann hafi aldrei jafnað sig. Hann hafi verið á læknadópi allt frá því að ofbeldinu lauk. Þunglyndislyfjum, serapax, valíum og methadone. Jason var venjulegur bóndasonur sem naut lífsins allt til þess er hann var sendur til Edenhope í febrúar 1976. Þar má segja að lífi hans hafi í raun lokið. Það var alveg sama hvernig hann reyndi að forðast Ridsdale þá var honum ekki undankomu auðið. Því ef hann sagði prestinum að hann væri upptekinn þá hafði presturinn einfaldlega samband við móður Jasons og hún sendi hann í fang kvalara síns sem duldist undir hempu prestsins.

Ridsdale á möguleika á reynslulausn árið 2019 þegar hann verður á 85. aldursári en hann afplánar 24 ára fangelsisdóm fyrir brot gegn 54 börnum.

Þegar mál hans var fyrir dómi gáfu mörg fórnarlambanna hans skriflegan vitnisburð um hvaða áhrif brot prestsins höfðu haft á líf þeirra. Fram kemur að brot hans og hylming kaþólsku kirkjunnar eyðilagði hjónabönd, sundraði fjölskyldum og samfélögum.

Mörg fórnarlambanna lýstu því hversu erfitt það hafi verið að segja kaþólskum foreldrum sínum að presturinn þeirra væri barnaníðingur. Margir foreldrar vörðu Ridsdale og kirkjuna, tóku afstöðu gegn börnum sínum og aðrir þögðu því þeir vissu að fjölskyldur þeirra myndu ekki trúa orðum þeirra.

George Pell fjármálastjóri Páfagarðs
George Pell fjármálastjóri Páfagarðs AFP

„Fyrsta kynlífsreynslan“

Fyrir mörg fórnarlambanna var þetta þeirra „fyrsta kynlífsreynsla“ og það með kaþólskum presti. Þetta hafði áhrif á kynlíf fórnarlambanna á fullorðinsárum og mörg þeirra hafa átt í miklum erfiðleikum með að lifa eðlilegu kynlífi minnug sárrar reynslu sem þeirra beið í skjóli kirkjunnar.

Örin sitja eftir á sálu fórnarlambanna, þau hafa yfirgefið kirkjuna og misst tengsl við samfélögin sem þau ólust upp í. Einhver hættu snemma námi og fóru að heiman full biturð vegna afstöðu foreldra með níðingnum. Flestum hefur gengið illa að fóta sig í lífinu, einhver hafa lent í vandræðum með að halda sig réttu megin við lögin og mörg eiga við áfengis- og vímuefnavandamál að stríða. Einhverjir drengjanna gátu ekki gefið vitnisburð um ofbeldið sem þeir þurftu að þola á barnsaldri því þeir höfðu framið sjálfsvíg.

Gerald Francis Ridsdale fæddist 20. maí 1934 en hann var elstur átta systkina. Hann ólst upp í Ballarat og þar nam hann við St Patrick's skólann. Hann hætti námi 14 ára og starfaði við bóhald í nokkur ár. Það var á unglingsárunum sem hann uppgötvaði kynferðislegar kenndir sínar til drengja.

Ridsdale ákvað að hefja nám á nýjan leik að áeggjan prests í Ballarat og hóf prestsnám og síðan kom hann til starfa hjá kaþólsku kirkjunni árið 1961. Næstu áratugina kom hann víða við og eru fórnarlömb hans víða að finna og í fleiri en einni heimsálfu.

Einn þeirra „Mervyn“ bjó í Coleraine en þangað kom Ridsdale í nokkur skipti í nafni kirkjunnar. Í hverri heimsókn beitti hann Mervyn kynferðislegu ofbeldi. Jafnvel þegar hann sótti fjölskyldu Mervyns heim til þess að gefa deyjandi ættingja Mervyns síðasta sakramentið.

Fljótlega var ljóst að Ridsdale var haldinn þráhyggju gagnvart drengjum. Heimili hans stóð þeim opið,  hann var með billjard borð á heimili sínu og var einn sá fyrsti að fá sér litasjónvarp í Ballard og það hafði mikið aðdráttarafl hjá ungmennunum. Ekki síður örbylgjuofn hans, rafmagnsritvélin, segulbandstækið og leikjatölvur þegar þær komu til sögunnar.

Ridsdale bauð drengjunum oft að gista og voru foreldrar þeirra ánægðir með að synir þeirra hlytu náð fyrir augum prestsins. En þeir vissu kannski ekki að skilyrðið var að drengirnir deildu rúmi með hans heilagleika. Stundum fór hann með fórnarlömb sín í ferðalög þar sem hann beitti þá kynferðislegu ofbeldi og fram kemur í niðurstöðu rannsóknarnefndar í málefnum kaþólsku kirkjunnar að fórnarlömb hans komu oft úr barnmörgum fjölskyldum og oftar en ekki voru feður þeirra annað hvort veikir eða störfuðu fjarri heimahögum. Þreyttar mæður voru ánægðar með stuðninginn sem þær fengu frá prestinum við að sinna drengjunum og þau tækifæri sem hann bauð þeim með því að fara með þá í ferðalög og veita þeim hluti sem þær einfaldlega höfðu ekki bolmagn til.

Philippe Barbarin erkibiskup í Lyon
Philippe Barbarin erkibiskup í Lyon AFP

Ridsdale viðurkenndi fyrir dómi að hann hafi fljótlega farið að notfæra sér drengi kynferðislega. Ridsdale sótti ráðgjöf vegna kynhneigðar sinnar innan kirkjunnar en það kom ekki í veg fyrir að hann hafi fengið að starfa meðal ungra barna og þar sem hann gat ekki staðist freistingar – nýtt sér yfirburði sína gagnvart þeim kynferðislega.

Ridsdale er ekkert einsdæmi innan kaþólsku kirkjunnar í Ástralíu. Einn þeirra John Day, preláti, sem lést árið 1978 þurfti aldrei að sitja á bak við lás og slá fyrir níðingsverk gagnvart börnum. Day var prestur í áströlsku borginni Mildura í Victoria. Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar leiddi lögreglurannsókn árið 1971 í ljós að hann hafði beitt börn kynferðislegu ofbeldi í Victoria í þrettán ár.

Pell þurfti að svara spurningum rannsóknarnefndarinnar í síðasta mánuði um mál Days preláta líkt og Ridsdales og sagði Pell að Day hafi vakið hann til umhugsunar um kynferðislegt ofbeldi innan kirkjunnar en hann hafi sjálfur ekki orðið var við slíkt í starfi sínu í Ballart þegar hann starfaði þar 1973-1983.

Allt var gert til þess að stöðva rannsóknina á Day innan lögreglunnar en þrátt fyrir að yfirmenn Denis Ryan í lögreglunni í Mildura hafi reynt að fá hann til þess að hætta að rannsaka ásakanir á hendur Day þá lét Ryan það ekki stöðva sig á sínum tíma. Það varð til þess að yfirmaður hans tók yfir rannsóknina á barnaníði prestsins og komst að þeirri niðurstöðu að Day væri saklaus. Yfirmenn lögreglunnar reyndu síðan að þvinga Ryan til þess að færa sig til í starfi árið 1972 án árangurs. Endaði það með því að Ryan hætti störfum hjá lögreglunni. Ryan skrifaði síðar bók um baráttu sína fyrir því að fá Day dæmdan en hann telur að Day hafi níðst á yfir 100 börnum. En hann þurfti aldrei að dvelja á bak við lás og slá fyrir brot sín, ekkert frekar en margir aðrir starfsbræður hans.

Philippe Barbarin
Philippe Barbarin AFP

Sameinuðst um ofbeldisverkin gagnvart börnum

En málin eru mörg og prestarnir líka. Einn þeirra er bróðir Gerald Leo Fitzgerald. Hann hóf störf sem kennari við St Alipius drengjaskólann í Ballarat árið 1962. Þar tók hann þátt í starfi barnaníðshrings meðal kirkjunnar þjóna. Auk Fitzgeralds og Ridsdales voru þátttakendurnir allir kirkjunnar þjónar. Þeir heita Edward Dowlan, Stephen Farrell og Robert Best. Þeir hafa allir verið dæmdir fyrir barnaníð fyrir utan Fitzgerald sem lést árið 1987 á meðan rannsókn á brotum hans stóð yfir.

Gögn sýna að fimmtán piltar sökuðu Fitzgerald um kynferðislegt ofbeldi á tímabilinu 1950 til 1975. Meðalaldur þeirra þegar ofbeldið átti sér stað var átta ár.

Dowlan var fangelsaður árið 1996 fyrir að hafa beitt 11 drengi kynferðislegu ofbeldi í fjórum kaþólskum skólum. Hann var fangelsaður á ný í fyrra þegar hann var dæmdur fyrir kynferðislegt ofbeldi gagnvart 20 drengjum. Í dómi héraðsdóms kom fram að Dowlan hafi beitt varnarlausa drengi í sex skólum kynferðislegu ofbeldi um 14 ára skeið. Meðalaldur fórnarlambanna var 11 ár.

Nokkrir drengir voru beittir kynferðisofbeldi af hálfu flestra þessara manna. Meðal þeirra er Stephen sem greindi lögreglu frá því árið 1994 að þegar hann hafi leitað á prestsetur dómkirkjunnar í Ballarat til þess að fá ráðgjöf hafi faðir Ridsdale tekið á móti honum og síðar þann dag upplifði Stephen sína fyrstu kynferðisreynslu - nauðgun.  Ridsdale játaði sök í þessu máli árið 1994. En í lögregluskýrslunni kemur fram að Edward Dowlan og annar bróðir við St Alipius grunnskólann hefðu einnig beitt Stephen  kynferðislegu ofbeldi síðar.

Líkt og fram kom við vitnaleiðslur yfir George Pell, fjármálastjóra Páfagarðs, þá voru gerð mörg mistök innan kirkjunnar þar sem reynt var að hylma yfir barnaníði af hálfu kirkjunnar þjóna. Pell hefur ekki sjálfur verið sakaður um kynferðisbrot gagnvart börnum heldur fyrir að hafa leyft brotunum að viðgangast. Brot sem eyðilögðu líf hundruð barna í Ástralíu.

Landakotskirkja
Landakotskirkja mbl.is/ÞÖK

Brotin ekkert einsdæmi

Í Óskarsverðlaunamyndinni Spotlight er fjallað um rannsóknarblaðamenn hjá Boston Globe sem árið 2002 komu upp um svipuð brot af hálfu presta kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum. 

Líkt og fram kemur í umfjöllun Karls Blöndal um myndina í Morgunblaðinu í síðasta mánuði þá hefur Boston tvær ásjónur. Hvergi í heiminum er jafn marga háskóla að finna á jafn litlu svæði. Háskólarnir gera borgina að vettvangi opinnar umræðu og upplýsingar. Um leið er þar að finna lokað samfélag innvígðra og innmúraðra, þar sem erfiðum málum er sópað undir teppið frekar en að á þeim sé tekið. Það samfélag er í kastljósi myndar Toms McCarthys um það þegar hópur blaðamanna hjá Boston Globe afhjúpaði víðtækt kynferðisofbeldi presta gegn börnum og skipulagða yfirhylmingu katólsku kirkjunnar um árabil.

Myndin hefst á lögreglustöð í Boston snemma á áttunda áratugnum þar sem prestur hefur verið handtekinn fyrir að níðast á börnum. Í einu herbergi er fjölskylda í sárum, presturinn í öðru. Máttarstólpar úr samfélaginu birtast á stöðinni og hverfa brátt á braut með prestinn. Fjölskyldan fellst á að fara ekki lengra með málið gegn því að presturinn fari. Eftirmálinn verður enginn.

30 árum síðar birtist pistill eftir dálkahöfund Boston Globe um málið, þar sem vitnað er í ummæli lögfræðings um að vitneskja um málið hafi teygt sig alla leið til æðsta yfirmanns katólsku kirkjunnar í Boston, Bernards Laws kardínála. Í sama mund tekur nýr ritstjóri við á blaðinu, Marty Baron, leikinn af Liev Schreiber. Hann rekur augun í dálkinn og spyr hvernig eigi að fylgja honum eftir. Gamalt mál, er svarið. Nýi ritstjórinn vill hins vegar ekki láta kyrrt liggja. Á blaðinu er sérstakt rannsóknarteymi, sem starfar undir nafninu Spotlight eða kastljós.

Ritstjórinn spyr hvort teymið vilji taka að sér verkefnið. Foringi teymisins, Walter „Robby“ Robinson, sem Michael Keaton leikur, segir að sérstaða Kastljóss sé sú að teymið velji sér sín verkefni. „Gætuð þið hugsað ykkur að velja þetta verkefni?“ spyr þá Baron.

Þar með byrjar boltinn að rúlla. Blaðamennirnir í teyminu eiga allir rætur í Boston og eru katólikkar, þótt ekki séu þeir praktiserandi. Rannsókn þeirra leiðir þá inn í kviku þess samfélags, sem þeir eru sjálfir sprottnir úr.

Margsinnis er þrýst á Robinson að hætta að grafa. Nýi ritstjórinn sé aðkomumaður, gyðingur í þokkabót og haldi að auki hvorki upp á hafnabolta né Boston Red Sox. Hann verði brátt horfinn á braut, en Robinson sé hluti af þessu samfélagi.

Eftir því sem þeim sækist rannsóknin kemur í ljós hversu víðtæk yfirhylmingin og þögnin er. Hinir brotlegu prestar nálgast hundraðið. Kirkjan hefur fært þá reglulega til í stað þess að taka þá úr umferð þannig að ofbeldið hefur fengið að grassera með vitund æðstu yfirmanna kirkjunnar.

Lögreglan hefur einnig spilað með og sömuleiðis réttarkerfið. Í ljós kemur að meira að segja ritstjórn Boston Globehefur sett kíkinn fyrir blinda augað í málinu og látið hjá líða að fylgja málinu eftir þrátt fyrir ábendingar.

Kastljós er gríðarlega vel gerð mynd og minnir um sumt á All The President's Men frá 1976 um rannsókn blaðamannaWashington Post á innbrotinu í Watergate-bygginguna, sem varð Richard Nixon Bandaríkjaforseta að falli. Sá munur er þó á að blaðamennirnir Bob Woodward og Carl Bernstein voru ekki hluti af því kerfi sem þeir réðust á, en öðru máli gegnir um blaðamennina á Boston Globe, segir í umfjölluninni í Morgunblaðinu.

Mynd/AFP

Hvað með Landakotsskóla og Breiðavík?

Í lok myndar kemur langur listi yfir staði þar sem prestar katólsku kirkjunnar hafa orðið uppvísir að barnaníði. Reykjavík er ekki á þeim lista, en kastljós fjölmiðla hefur beinst að katólsku kirkjunni hér á landi vegna ásakana um barnaníð í Landakotsskóla á sjöunda, áttunda og níunda áratug liðinnar aldar. Breiðavík kemur einnig upp í hugann. Um leið má velta fyrir sér hvort eitthvað sambærilegt í okkar samfélagi í dag sé látið liggja í láginni sem síðar muni vekja furðu að hafi verið látið viðgangast.

Stundum getur verið auðveldara að horfa í hina áttina þegar vísbendingar koma fram og gera lítið úr þeim. Fyrir vikið geta afleiðingarnar hins vegar orðið þeim mun verri. Í myndinni reynir mektarmaður að telja Robinson hughvarf með því að benda honum á allt það góða sem kirkjan láti af sér leiða. Á meðan málið var látið afskiptalaust skildi kirkjan hins vegar eftir sig sviðna jörð í samfélaginu, sem hún átti að þjóna,“ skrifar Karl Blöndal.

Gerald Ridsdale,
Gerald Ridsdale, AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina