Skildu að útlendinga og heimamenn

Öryggissveitir standa vaktina í nótt.
Öryggissveitir standa vaktina í nótt. AFP

Árásarmennirnir sem réðust inn á kaffihús í Dhaka í Bangladess í gær myrtu 20 erlenda gísla eftir að hafa aðskilið þá frá innlendum gestum staðarins. Morðingjarnir beittu eggvopnum á fórnarlömb sín, sem voru m.a. frá Ítalíu og Japan.

Sex árásarmanna voru drepnir í aðgerðum sérsveita í morgun en þá hafði gíslatakan á kaffihúsinu staðið yfir í um 10 tíma. Ríki íslam hefur lýst ábyrgð á voðaverkinu á hendur sér.

„Þetta var sérstaklega svívirðileg árás. Hvers konar múslimar eru þetta?“ spurði forsætisráðherrann Sheikh Hasina í sjónvarpsávarpi.

Frétt mbl.is: Gíslatakan í Dhaka yfirstaðin

Kaffihúsið sem um ræðir, Holey Artisan Bakery, er staðsett í einu af fínni hverfum Dhaka, þar sem m.a. er að finna fjölda sendiráða.

Hasina sagði aðgerðir lögreglu hafa gengið vel en 13 gíslum var bjargað. Eins og fyrr segir er hins vegar ljóst að fleiri létust í árás hryðjuverkamannanna.

„Við fundum 20 lík. Flestir höfðu verið grimmilega brytjaðir til dauða með eggvopnum,“ sagði talsmaður hersins. Annar embættismaður staðfesti í kjölfarið að allir látnu hefðu verið erlendir ríkisborgarar.

Faðir eins af þeim sem sluppu lifandi hafði eftir syni sínum að árásarmennirnir hefðu aðskilið útlendingana frá heimamönnum. „[Útlendingarnir] voru færðir upp á aðra hæð en Bangladessarnir látnir sitja við borð,“ sagði Rezaul Karim í samtali við AFP. „Tengdadóttir mín ber höfuðslæðu. Kannski varð það fjölskyldunni til bjargar.“

Árásir gegn útlendingum og trúarlegum minnihlutahópum hafa verið tíðar í Bangladess síðustu misseri.

Særður einstaklingur fluttur af vettvangi.
Særður einstaklingur fluttur af vettvangi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert