Þorpsbúar minntust fórnarlambanna

Uppreisnarmenn standa vörð skammt frá torginu þar sem fólksins var …
Uppreisnarmenn standa vörð skammt frá torginu þar sem fólksins var minnst. AFP

Í dag eru tvö ár síðan farþegaþota Malaysian Airlines, MH17, hrapaði í Úkraínu. Allir 298 um borð létu lífið en tugir þorpsbúa í Austur-Úkraínu, þar sem þotan hrapaði, komu saman og minntust fórnarlambanna í dag.

Um 60 manns tóku þátt í minningarstundinni sem fór fram á litlu torgi í þorpinu Petropavlivka þar sem einhverjar leifar og persónulegar eigur fórnarlambanna féllu til jarðar þennan örlagaríka júlídag 2014.

Börnin í þorpinu héldu á pappaflugvélum og minntust barnanna sem létu lífið en þotan var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur þegar hún hrapaði.

„Ættingjar sumra fórnarlambanna hafa haft samband og beðið okkur um að reyna að finna hluti sem tilheyrðu fórnarlömbunum, t.d. leikföng barnanna sem voru um borð,“ sagði Natalia Voloshina, formaður þorpsráðsins í samtali við AFP.

Íbúar þorpsins finna enn litla hluti úr farþegaþotunni í skóglendi skammt frá þorpinu. Hlutunum hefur verið staflað upp fyrir utan skrifstofu Voloshina í tilefni dagsins en þeir verða síðan fluttir til hollenskra rannsakenda.

Flestir hinna látnu voru hollenskir ríkisborgarar og margir ættingjar þeirra undirbúa nú lögsókn gegn Malaysian Airlines og öðrum sem þeir telja bera ábyrgð á brotlendingunni.

Í október greindi alþjóðleg rannsóknarnefnd frá því að þotan hefði verið skotin niður af svokölluðu BUK-flugskeyti sem var framleitt í Rússlandi. Þá var flugskeytinu skotið frá svæði sem var undir stjórn uppreisnarmanna.

Nefndin vildi þó ekki segja að það hafi verið uppreisnarmenn sem skutu þotuna niður og þá hafa Rússar ávallt neitað aðild að málinu. Hollensk rannsóknarnefnd mun birta niðurstöður sínar í haust.

Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, hét því í dag að þeim, sem beri ábyrgð, verði refsað.

Talsmenn uppreisnarmannanna hafa alltaf neitað aðild að brotlendingunni og kennt úkraínskum hermönnum um.

Þorpsbúar í Petropavlivka minntust fórnarlambanna í dag.
Þorpsbúar í Petropavlivka minntust fórnarlambanna í dag. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert